Saturday, April 25, 2009

Kvikmyndagerð 2008-2009

Ég valdi kvikmyndagerð, því að ég hef alltaf haft mikinn áhuga á bíómyndum. Væntingarnar sem ég hafði voru þær að ég vildi læra aðeins meira um hvernig myndir væru gerðar og kynnast öðrum gerðum að myndum heldur en þeim sem ég hafði séð.

Ég varð ekki fyrir vonbriðgum, væntingarnar stóðust. Hópverkefnin sem voru gerð sem gáfu manni reynslu sem ég hefði annars ekki öðlast. Mér fannst mjög áhugavert að fara á kvikmyndahátíðarnar Reykjavík Short & Docs og RIFF, ég hefði annars aldrei farið á þær. En þar sem ég flutti í Mosfellsbæinn seinasta haust ákvað ég ekki að kaupa mér passa. Það hefði bara verið of mikið að keyra fram og til baka, ein í bió þar sem ég gat ekki platað marga með mér. En ég fór á eins margar og við áttum og sá ekki eftir því að hafa kíkt á þær. Ég var líka einstaklega hrifin af frönsku myndinni Renard et le Enfant sem ég fór á, þegar franska kvikmyndahátíðin var. Það var ein fallegasta mynd sem ég hef séð lengi.

Við vorum líka látin fara á íslenskar myndir í bíó og fengum leikstjóranna í heimsókn. Mér fannst það einna best við námskeiðið, maður fékk allt aðra sýn á íslenska kvikmyndagerð. Heimsóknir leikstjóranna voru misjafnar eins og myndirnar þeirra en mér fannst persónulega fyrsta heimsóknin, þegar Valdís Óskarsdóttir kom í heimsókn hafa mest áhrif. Þá áttaði ég mig á í fyrsta skipti hversu mikið starf klipparans væri í raun og veru. Þessi mynd sem hafði tekið rúma viku að taka upp var 8 mánuði í klippinu, ég missti andlitið. Síðan á hæla Valdísar eru Óskar Jónasson og Friðrik Þór. Mér fannst heimsókn Ólafs Jóhannessonar sem gerði Queen Raquela einna síst. Ég náði aldrei neitt sérstaklega góðri athygli í fyrirlestrinum hans, myndin var nú samt ágæt en nett skrítin, enda bíður efnið ekki upp á neitt annað.

Myndirnar sem var síðan horft á í tíma, sem ég þurfti oftast reyndar að horfa á heima vegna áreksturs við þýsku tímanna mína á föstudögum, voru misjafnar og flestar eitthvað sem mér hefði annars aldrei dottið í hug að horfa á, eina sem ég hafði heyrt um og átti var Casablanca. Þær myndir sem standa uppúr eru líklegast The General, Cats of Mirikitani, Hold Up Down og Notorious og síðan heimildamyndin um klippingu The Cutting Edge. Það var engin mynd sem ég þoldi ekki eða fannst leiðinleg (enda reyni ég oftast að horfa á hluti með opnu hugarfari) en þær sem mér fannst síðri og ég get eiginlega ekki mælt með fyrir aðra eru myndir eins og Idi i Smotri og The Thing. Báðar eiga þær sameiginlegt að vera nokkurs konar hryllingsmyndir og það líklegast áhrif á skoðun mína á þeim. Og síðan var það Songs from the second floor, sem ég skildi ekkert í og fílaði ekkert við.

Myndin Triumph of the Will fannst mér finnst ógeðsleg og skildi ekki af hverju við værum látin horfa á hana en eftir seinustu sögu tímanna á árinu fattaði ég það. Þetta er ein frægasta mynd sögunnar, gerð af Hitler um hans tíma. Sögulega séð þá er hún frábær heimild og hjálpaði mér miklu betur að skilja sögu-námsefnið. Þetta var líka hluti af námskeiðinu sem kom mér á óvart, heimildamyndir. Eina heimildamyndin sem ég hafði séð (sem var ekki leikin) var End of the Century, heimildamynd um uppáhalds hljómsveitina mína. Myndin Cats of Mirikitani gjörsamlega opnaði augun mín fyrir því hvað þetta væri í raun og veru spennandi flokkur mynda. Sólskinsdrengurinn hans Friðriks er líka með betri íslenskum myndum sem ég hef séð, og ég mæli með henni fyrir alla sem ég hitti liggur við. Ég sá nokkuð eftir því svo fór sem fór með heimildamynda sem hópurinn minn ætlaði að gera, en tíminn vannst aldrei og svoleiðis er það stundum.

Síðan gerði ég tvo fyrirlestra, einn fyrir jól og einn eftir. Báðir voru mjög áhugaverðir. Ég vann ein fyrir jól og tók þá fyrir ítalska leikstjórann Federico Fellini. Ég valdi hann því að stuttu áður en við fengum listann horfði ég á mynd með mömmu, Under the Tuscan Sun og þar var persóna sem talaði alltaf um Fefe - Federico Fellini og sagði að hann hafi uppgvötað hana, en hún var að mörgu leyti lík Anitu Ekberg úr La Dolce Vita eftir Fellini. Það sem ég vissi ekki var hversu frábær Fellini í rauninni var. La Strada sem ég horfði á fyrir fyrirlesturinn hefur orðið ein af mínum uppáhalds myndum og ég ætla að finna hana úti á Ítalíu í sumar. Fellini gaf mér líka hugmyndina að því að skrifa niður drauma og nota þá í handrit sem mér finnst vera snilld, því að hvenær er ímyndaraflið á jafn miklum styrk og þegar maður sefur? Seinni fyrirlesturinn gerði ég með Jóhönnu og við gerðum Bollywood. Fyrir hafði ég bara séð svokallaðar Bollywood-Hollywood myndir þar sem báðum heimum er skellt saman og myndirnar eru mjög vestrænar. Bride & Prejudice (svoleiðis mynd) er t.d. ein af mínum uppáhalds og ég kann hana alveg utan af. En Bollywood myndirnar eru allt öðruvísi og ég gjörsamlega féll fyrir stílnum. Þar sem ég er forfallið söngleikjafrík og rómantíker, þá eru svona myndir gjörsamlega fyrir mig. Eina er að þær eru rosalega langar en æðislegar og ef að ég hefði haft meiri tíma hefði ég líklegast horft á allar en MR er krefjandi skóli og ekki tími til alls því miður. Veistu nokkuð hvar er hægt að nálgast fleiri Bollywood myndir?

Mér finnst að það hefði mátt byrja aðeins fyrr á kvikmyndasögunni til þess að skilja myndirnar sem við sáum fyrir jól. Klippitímarnir voru mjög góðir og áhugaverðir og fræðandi en það hefði mátt fara aðeins betur í eitthvað svipað og þessi blessuðu 40% af prófinu. Við gerðum þetta við A Piece of Apple Pie en ég vissi aldrei hvort það hafi verið rétt gert eða ekki, og það hefði mátt taka aðeins meiri tíma í það. Einnig hefði verið gott að taka smá test öðru hvoru, því að ég fann fyrir stúdentsprófið að ég hafði ekki hugmynd við hverju ætti að búast.

Ég hef alltaf vitað að ég vildi vinna við kvikmyndagerð en aldrei við hvaða hluta þess. Á námskeiðinu í vetur tókst mér að finna það út. Þegar við fórum í handritahlutann fann ég hvað mér fannst gaman að skrifa handrit og ég vildi að maður hefði haft meira tíma utan skóla til þess að vinna í því en það var of mikið að gera en ég ætla að halda bókunum og læra meira um handrit og reyna að lesa fleiri handrit og horfa síðan á myndirnar (10 bls - 10 mín eins og æfingin). Ég er búin að sækja um í Kvikmyndaskóla Íslands við handritaskrif og leikstjórnun en það kemur í ljós hvort ég kemst inn, vona það allavega.
En ég vil þakka fyrir frábært námskeið sem ég sé sko alls ekki eftir að hafa valið að hafa farið í. Það opnaði gjörsamlega fyrir mér heim kvikmynda og núna þegar ég fer í bíó kemst ég ekki hjá því að skoða klippingu og ýmiss önnur smáatriði. Smekkurinn minn hefur líka víkkað og ég er opnari fyrir því að skoða hinar ótrúlegustu myndir.

Takk fyrir mig,
Anna Björg

Mad Detective 神探


Myndin byrjar á því að fylgst er með óvenjulegum aðferðum rannsóknarlögreglunnar Bun, sem hefur yfirnáttúrulega hæfileika. Hann er skyggn og segist sjá persónuleika fólks. Í byrjun myndarinnar er hann að rannsaka morðmál á mjög óvenjulegan hátt og lætur m.a. troða sér ofan í tösku og henda sér niður stigagang. Þegar hann er síðan tekin aftur úr töskunni segir hann hver morðinginn hafi verið. Allt virðist þetta vera frekar skrítið og myndin verður skrítnari og skrítnari eftir þetta. Þegar lögreglustjórinn hættir, sker Bun af sér eyrað og gefur honum og gefur upp þá ástæðu að lögreglustjóranum hafi vantað persónuleika. Bun er látinn fara snemma á eftirlaun eftir þetta. Síðan tekur myndin aftur við nokkrum árum síðan, þá er lögregluþjóninn Ho að rannsaka dularfullt hvarf annars lögreglumanns. Þessi lögreglumaður hafði verið að eltast við þjóf ásamt félaga sínum Chi-Wai (ef ég man rétt) þegar hann hvarf en byssan hans hins vegar hefur verið notuð í ýmsum ránum/glæpum m.a. morði. Ho hefur þá leit af Bun og finnur hann að lokum og biður hann um aðstoð við málið. Bun samþykir að koma með honum en hann er í leiðinni að rífast við konuna sína, sem vill ekki að hann fari aftur að vinna. Bun og Ho fara að rannsaka málið frekar og komast að því, eða Bun kemst að því að Chi-Wai hafi drepið félaga sinn til þess að fá byssuna hans, þar sem byssunni hans hafi verið stolið. Eftir þetta fer af stað frekar hröð atburðarrás sem var pínu erfitt að fylgja eftir en á endanum þá kemst það upp að Chi-Wai hafi drepið félaga sinn og grafið hann niður og kennt indverskum smáþjófi um þetta allt (hafði meðal annars komið fyrir sönnungargögnunum í íbúð hans).

Í byrjun myndarinnar var ég nú ekki alveg viss um hvað ég væri að fara að horfa á, þar sem hún er nett furðuleg. Ég held ég hafi líka sjaldan kúgast jafn mikið yfir mynd eins og þegar Bun var að skera af sér eyrað. Mér fannst reyndar nokkuð sniðugt að ástæða hans fyrir þessu athæfi var ekki gefin upp fyrr en nokkuð seinna. Það var svolítið farið úr einu í annað og það tók mig svoldinn tíma að synca mig inn á hvað væri að gerast og hvað væri raunveruleiki og hvað ímyndun Buns. Mér fannst Bun, Ho og Chi-Wai vera allir nokkuð áhugaverðar persónur.




Bun er náttúrulega eitthvað mjög sérstakt. Hann er skyggn og sér að eigin sögn persónuleika fólks. Hann fer sínar eigin leiðir og skiptir sér ekki af öðrum. Mér fannst eins og að eftir því sem leið á myndina var meira verið að leggja áherslu á að hann væri geðbilaður heldur en skyggn. Kannski varð hann geðbilaðri eftir því sem leið á hana en ég tók þá ekki eftir því nema að sjónarhornið á hann virtist breytast. Hann á sambandi við konuna sína og í byrjun virðist það mjög eðlilegt allt þangað til að Ho kemur í heimsókn og áhorfandinn fattar að hún er ekki til þar sem Ho sér hana ekki. Ég hélt mjög lengi út myndina að kona Buns væri látin og þetta væri draugur hennar sem væri að spjalla við hann en ekki bara ímyndun hans. En hún er á lífi og Bun sér hann að meira segja allt öðruvísi, þekkir hana ekki þar sem persónuleikinn hennar er eldri. Mér fannst Bun vera nokkuð gáfaðri en hann virtist í fyrstu, eins og þegar hann stelur skilríkjum og byssu Ho's til þess að klára málið sjálfur. Ég fór líka að spá í hvort að það að Bun hafi skorið af sér eyrað sé tilvitnun í Van Gogh sem gerði það sama og þá hvort þetta sé eitthvað svona misskilins snillinga-complex. Atriðin þegar hann er að lifa í gegnum það sem morðinginn gerði eru nokkuð oft frekar fyndin og skemmtileg og lífguðu upp á myndina.


Ho virðist vera mjög metnaðarfullur og hann virðist vilja líkjast Ho, hann er alltaf að reyna sömu aðferðir og hann til þess að finna út lausnir á málunum og vill sjá konu Buns (sem hann heldur að sé látin). Það er svolítið eins og hann vilji vera skyggn til þess að eignast frábæra frama Buns (sem Bun hafði haft áður en hann skar af sér eyrað og allir héldu að hann væri geðveikur). Hann lætur til dæmis Bun grafa sig niður í jörðina til þess að reyna að finna út hvar lögreglumaðurinn sé en endar á því að drepa sig næstum og láta Bun plata sig. Bun sér Ho sem lítinn, hræddan og veiklulegan dreng (persónuleikinn hans) sem mér finnst að gæti merkt hvað Ho er í raun lítill og hræddur en vill vel. En í endanum þegar Ho drepur Bun í ruglingslega atriðinu, þá sér Bun að kona í dragt með svona valdmannslegt yfirbragð er búin að koma sér fyrir við hliðina á litla dregnum, hún er búin að bætast við persónuleika Ho's.

Bun sér Chi-Wai sem 7 persónuleika og mér fannst það vera gefið nokkuð snemma upp að hann væri í raun og veru morðinginn. Þessir 7 persónuleikar eru nokkuð ólíkir og ég fór að hugsa hvort þeir gætu nokkuð merkt dauðasyndirnar 7, græðgi - feiti kallinn og stolt-valdsmannlega konan eða eitthvað svoleiðis. En Chi-Wai er einnig mjög gáfuð persóna og kemur sér vel undan lögreglunni og þó svo að mér hafi strax fundist hann líklegur morðingi þá fór ég að halda að hann væri saklaus á tímabili.

Eins og ég er búin að segja þá var þetta nokkuð ruglandi mynd og ég er ekki viss um að ég hafi náð öllum staðreyndunum rétt. Mér leist ekkert á hana í byrjun en síðan allt í einu byrjaði hún að halda mér fastri og ég varð að vita hvað gerðist næst. Persónuleikarnir sem Bun sá voru í fyrstu nokkuð ruglandi (hélt ég væri að rugla saman persónum) en síðan heillandi (komst samt ekki hjá því að detta í hug Shallow Hal með Jack Black í sambandi við að sjá innri manneskju fólks). Þetta er í fyrsta skipti sem ég sé kínverska mynd og ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Mér fannst litirnir vera svolítið skrítnir, svona gulir og gráir og hún var öll svona frekar dökk, kannski til þess að sýna hugarástand Buns? En klippingin á milli persónuleika fólks og fólksins sjálfs voru mjög vel gerðar og stundum ruglaðist ég algjörlegag um hvern væri verið að tala og mér finnst það nokkuð sniðugt hjá þeim sem gerði hana, því þá fór maður ósjálfrátt að einbeita sér meira að því sem maður sá á skjánum. En lokaatriðið gjörsamlega ruglaði mig, ég fattaði að Ho væri að reyna að breyta settinu en útaf speglunum og öllum persónuleikunum þá náði ég litlu af því sem væri að gerast, en hugsanlega var þetta með ráðum gert...

Tuesday, March 31, 2009

The Thing



The Thing (1982)

Ég reyni að forðast hryllingsmyndir eins og ég get og þá sérstaklega ef ég veit að þær eru virkilega ógeðslegar. Í fyrirlestrinum um John Carpenter sýndi Pétur líka myndbrot úr The thing þar sem geimveran kemur útúr hundinum. Það var virkilega truflandi atriði en það er víst nauðsynlegt að opna augun fyrir öðruvísi myndum en maður er vanur. Þessi mynd náði nú samt ekki að vekja áhuga minn á vísindalegum hryllingsmyndum. Mér fannst þessi mynd nokkuð ruglandi en held ég hafi náð svona basic söguþræðinum.

Myndin gerist á Suðurskautslandinu. Amerískur vísindaleiðangur er að skoða/rannsaka eitthvað sem ég náði ekki hvað var. Dag einn heyra þeir byssuskot fyrir utan og þá hefur norskt rannsóknarteymi, að því virðist hafa gengið af göflunum, reynt að drepa hund í þyrlu og endað allir dauðir sjálfir. Einn úr ameríska teyminu tekur að sér hundinn og fer með hann inn í skýlið þeirra. Þetta virðist ósköp sætur og venjulegur sleðahundur. Þegar hundurinn fer eitthvað í taugarnar á félögunum er hann settur í búrið með öðrum sleðahundum sem þeir hafa þarna. En um nóttina fer þessi sæti hundur hamförum og hræðir hina hundana. Þá fer einn leiðangursmannanna að kíkja á hvað sé nú í gangi. Þá er “eitthvað” að koma út úr hundinum, hann fer og sækir hjálp en þ

á er hinn fyrrum hundur orðin að einhverju slímugu og ógeðslegu. Aðalgaurinn MacReady kemur þá með einhverskonar ghostbusters eld byssu og brennir skrímslið. Eftir nokkra skoðun þá finna þeir út að þetta séu einhverskonar geimverur sem geta stökkbreytt sér í lifandi verur og þá fer af stað mikið óöryggi í búðunum hvort að einhverjir mannanna hafi “smitast” og hvort að geimveran búi í þeim.

Kurt Russell er svo algjörlega naglinn og hetjan í þessari mynd. Þar sem einu myndirnar sem ég man eftir að hafa séð hann í eru Sky High (þar sem hann leikur ofurhetjupabba) og Overboard (þar sem hann platar Goldie Hawn í að vera konuna sína) þá var nokkuð öðruvísi að sjá hann svona harðan. En mér fannst það vera greinilegt frá byrjun að hann var greinilega aðalkallinn og mér fannst hann í vera eiginlega eina persónan sem skipti máli. Allavega er hann eini sem ég man eitthvað sérstaklega eftir. Hann er svo harður á því og gjörsamlega viss um að hann sé ekki með geimveru innra með sér og hann ætlar sér að sigrast á þessu með öllum mætti. Mér fannst hann verða einna mest paranoid þegar allir byrjuðu að ásaka hina um að vera geimverur.

Eins og ég sagði í byrjun þá forðast ég helst hryllingsmyndir þar sem ég á það til að fá martraðir útfrá þeim. En til þess að fyrirbyggja vonda drauma, horfði ég á myndina um hábjartan dag. Þessari mynd tókst samt að fylla mig ógeði. En það þýðir að myndin hefur líklegast náð takmarki sínu. Enda voru tæknibrellurnar nokkuð góðar miðað við að myndin er gerð 1982. Mér fannst nokkuð sniðugt að í myndinni kom í rauninni ekki fram hvað væri að gerast. Það sem mér fannst einna óhugnalegast var að þegar að mennirnir voru orðnir að geimverum/skrímslum þá var andlitið á þeim afmyndað og næstum eins og dautt á verunni. það var virkilega gæsahúðarvaldandi.


Þetta er mynd sem ég á mjög erfitt með að mynda mér skoðun um. Mér fannst vanta eitthvað upp á söguþráðinn og hún hélt ekki vel athyglinni minni. En hins vegar var nokkuð flott move að nota hunda í byrjun sem það fyrsta sem geimverurnar stökkbreyta sér að aðlagast (veit ekkert hvernig á að útskýra hvað er í gangi með þær), þar sem hundar eru svo sætar og saklausar skepnur og engum gæti dottið hug að þeir væru eitthvað slæmt. Síðan skildi ekki alveg endann, allt gerðist svo hratt og allt í einu voru tveir eftir og allir hinir dánir. Voru geimverurnar útdauðar eða ekki? Náði því ekki alveg sem skiptir svosem ekki miklu máli því að Kurt Russell endaði á þvi að vera hetjan og bjarga mannkyninu frá innrás illra geimvera sem myndu taka sér bólfestu í fólki og klyfja það í tvennt.

Monday, March 30, 2009

The Cutting Edge


Þegar ég heyrði að við værum að fara að horfa á heimildamynd um klippingu, bjóst ég við fræðslu mynd með klippum, nokkuð langdregni og svæfandi. Cutting Edge var hins vegar það eins og mér finnst að fræðslu heimildamyndir eiga að vera senn skemmtileg, fræðandi og áhugaverð.

Mér fannst sérstaklega áhugavert að fá að fylgjast með Walter Murch við störf. Þar sást greinilega eitt af því sem mér fannst vera þema myndarinnar, hvað klipparastarfið er í rauninni vanmetið starf. Klipparinn vinnur klárlega eitt erfiðasta verkið sem kemur að gerð kvikmyndar. Áður en ég byrjaði í tímunum þá gerði mér ekki alveg grein fyrir því hvað það er sem klipparinn þarf í raun og veru að gera. Það var ekki fyrr en Valdís Óskarsdóttir kom í heimsókn og sagði hvað það hafði tekið langan tíma að klippa sveitabrúðkaup. Starf klipparans er einna mikilvægast og ef að hann klikkar getur myndin verið ónýt, þess vegna er nokkuð skrítið að leikararnir og leikstjórarnir fái mesta klappið á bakið en klipparinn er bara í bakrunni og fæstir vita um hvaða klipparar klippa hvaða mynd. En eins og kom fram í myndinni þá er það klipparinn sem setur senuna saman og það geta verið mismunandi tökur og þannig að final niðurstaðan, final leikurinn sem leikarinn fær hugsanlega verðlaun fyrir er í raun og veru klipparanum að þakka. Ég ætla bara rétt að vona að leikarar geri sér grein fyrir því en fari ekki að skipta sér of mikið af. Það var annað sem mér fannst koma svolítið fram í myndinni, klipparar vilja fá sitt space og frið til að gera það sem þeir gera best.

Mér fannst einnig mjög áhugavert hvað þetta er talið mikið kvennmannsstarf. Í byrjun kvikmyndagerðar þótti þetta svo mikið smámunastarf, líkt og að prjóna eða sauma í og þess vegna voru konur settar í starf sem hentaði þeim. Síðan þegar að hljóðið kom til sögunnar varð þetta annað mál, þar sem komin var tækni í spilið, þarna kemur aftur fram hvað þetta er oft talið vanþakklát starf. Að þurfa að telja ramma og vinna með svona litlar einingar er starf fyrir fullkomnunnar sinna og einhvern sem getur fylgst vel með því sem er að gerast og hefur gott innsæi inn í hugarheim áhorfenda og veit hvað virkar. Hugsa að það sé sniðugt að læra smá sálfræði með klipparanáminu.

Það var líka gaman að sjá að leikstjórar velja sér sömu klipparana aftur og aftur eins og einhver talaði um í myndinni þá er þetta í rauninni eins og hjónaband. Ef þú finnur einhvern sem þú getur unnið vel með og gerir allt eins og þér finnst að það ætti að vera, er bókað mál að það sé manneskjan í starfið eins og sálufélaginn, einhverskonar kvimyndamaki.

Það er frekar erfitt að skrifa blogg um svona mynd þar sem hún í rauninni tók yfir svo mikið efni og það var frábært að sjá viðtöl við margt mismunandi fólk. Þessi mynd gaf mér líka hugmyndir af mörgum myndum sem mig langar að sjá. Einnig fékk þessi mynd mig til þess að reyna að fylgjast með klippingunni í því sem ég horfi á, þegar ég horfði á Watchmen til dæmis, reyndi ég að fylgjast eins grant með og ég gat og á endanum gleymdi ég mér í myndinni og tók ekki alltaf eftir breytingu. En síðan fylgdist ég grant með klippingunni á einum þætti úr seríunni Gossip Girl og það var eitthvað allt annað, ég tók endalaust eftir senunum sem pössuðu ekki saman, það var klippt of fljótt og næsta sena innihélt sama atriðið (nokkra ramma) með öðru sjónarhorni og sums staðar með zoomi. Ætla að prufa þetta eins oft og ég get héreftir til þess að sjá hvort ég gleymi mér í myndinni (sem gæti þýtt vel klippt og vel gert í alla staða, eða góður söguþráður hugsanlega) eða þá hvort að ég pæli meira í tækniatriðunum þar sem þau pirra mig. Síðan gæti myndin líka verið óskemmtilegt og þá væri skemmtilegra að fylgjast með tækniatriðum.

The Brat Pack og nokkrar af myndunum þeirra.

“The Brat Pack” er nafn sem var oft talað um á hópi ungra leikara sem léku í unglingamyndum uppúr 1980. Hérna fyrir neðan ætla ég aðeins að fjalla um meðlimi hópsins og síðan fjórar af þeim myndum sem teljast vera hluti af myndum hópsins, þær fjórar sem ég hef séð.

Leikararnir sem teljast til hópsins voru allir í myndunum The Breakfast Club eða í St. Elmos Fire
og eiga það sameiginlegt að teljast sem unglingastjörnur. En margar aðrar myndir innihalda tvo eða fleiri meðlimi.

Hópinn skipa:


Molly Ringwald: Ein af mínum uppáhalds leikkonum (í þessum þremur myndum sem koma fram að neðan). Hún lék í The Breakfast Club og öðrum myndum leikstýrðum af John Huges. Í Breakfast Club leikur hún Claire “the princess”, mjög sjálfumglaða pabbastelpu. Hún leikur einnig í einni af minni uppáhaldsmynd (leikstýrð af John Huges) Pretty in Pink. Hún hafnaði aðalhlutverkunum í Pretty Woman og Ghost og í John Huges myndinni Some Kind of Wonderful, og þar með hætti samstarf þeirra. Hún lék lítið hlutverk í Not Another Teen Movie, sem gerir einmitt grín af nokkrum mynda hennar. Annars er hennar nýjasta hlutverk sem mamman í þáttunum The Secret Life of The American Teenager.


Emilio Estevez: Elsti sonur Martin Sheen og Janet Sheen og bróðir Charlies Sheen. Hann lék í bæði The Breakfast Club og í St. Elmos Fire. Í The Breakfast Club leikur Emilio Andrew, “the jock” tilfinningaríkan unglingstrák sem stundar íþróttir útaf því að pabbi hans vill það. Í St. Elmos Fire leikur hann Kirby Keger, mann sem varð rosalega ástfanginn af kennaranum sínum í skóla að hann fer og leitar af henni og reynir allt sem hann getur til þess að ná henni. Þess má geta að Emilio lék í myndunum Young Guns I & II og að hann var einnu sinni giftur Paulu Abdul.


Anthony Michael Hall: Lék í The Breakfast Club, þar lék hann Brian, “the brain”, gáfaðan strák sem finnur mikið fyrir stressi yfir því að fá góðar einkunnir. Hann lék einnig í myndinni Sixteen Candles ásamt Molly Ringwald. Þar lék hann “Farmer Ted” mjög misheppnaðan strák sem vill ekkert meira en að vera “kúl” og með stelpu. Hann leikur aðalhlutverkið í The Dead Zone, sem voru nokkuð vinsælir þættir á Skjá einum. Hann var einnig yngsti meðlimur Saturday Night live, þegar hann var 17 ára en eins og unglingastjörnu hæfir þá var hann bara eina seríu þar sem hann varð að fara í meðferð.


Rob Lowe: Lék í St. Elmos Fire, þar lék hann Billy Hicks, sem er nokkurs konar “vondi strákurinn” í myndinni. Hann verður pabbi ungur og virðist alveg sama um það en hann er meyr inni við beinið. Hann lék í einni Austin Powers mynd (The Spy Who Shagged Me) og síðan hefur hann verið áberandi upp á síðkastið í þáttunum Brothers and Sisters þar sem hann leikur eitt af aðalhlutverkunum. Hann lék einnig í West Wing.


Andrew McCarthy: Í St.Elmos Fire leikur hann Kevin, rithöfund með ritstíflu sem er ástfanginn af kærustu besta vinar síns. Hann leikur einnig með Molly Ringwald í myndinni Pretty in Pink, þar sem hann leikur vinsæla strákinn Blane sem er hrifinn af stelpu sem er frá “the other side of the tracks”. Andrew McCarty hefur að mínu mati ekkert verið neitt sérstaklega áberandi, en ég tók hinsvegar eftir honum í nýju Brooke Shields þáttunum, Lipstick Jungle sem núna er þó búið að hætta við.


Demi Moore: Líklega ein sú þekktasta úr hópnum. Hún lék Jules í St. Elmos Fire, Jules er kókaín fíkill og þarfnast mikillar aðstoðar frá vinum sínum. Demi Moore var sjálf í eiturlyfjum á þessum tíma og þurfti að skrifa undir samning að hún yrði að hætta því til að leika í myndinni, samningur sem hélt henni hreinni eftir það. Það þarf vart að kynna myndir sem hún hefur leikið í. Myndir sem ég hef séð eru t.d. Ghost og Charlies Angels: Full Throttle. Hún var gift Bruce Willis en núna er hún hamingjusamlega gift yngri manni, Ashton Kutcher. Þess má geta að alvöru nafnið hennar er Demetria Gene Guynes.


Judd Nelson: Lék í báðum myndunum. Í St. Elmos Fire lék hann Alec, upprennandi indælan stjórnmálamann sem hefur þó sitthvað gruggugt í pokahorninu, hann er trúlofaður einni af bestu vinkonu sinni en heldur samt framhjá henni hægri vinstri. Í Breakfast Club leikur hann Bender, “the criminal”. Hann er svona “the ultimate bad boy” unglingamyndanna, miklu verri en Billy Hicks í St. Elmos Fire. Hann er í eftirsetu til frambúðar og algjörlega sama um allt og gerir það sem hann vill. Ég kannaðist ekki við fleiri myndir með honum, þegar ég skoðaði hann á imdb, en þar sem hann er að leika í 8 komandi myndum, get ég ímyndað mér að hann sé nokkuð vinsæll enn þann dag í dag.


Ally Sheedy: Lék einnig í báðum myndunum. Í St. Elmos Fire lék hún Leslie, kærustu Alecs. Hún veit ekki alveg hvað hún vill í lífinu og stendur á einhverskonar krossgötum í lífinu. Í Breakfast Club leikur hún Allison, “the basket case”; stelpu sem virðist algjörlega geðveik eða allavega mjög rugluð í hausnum. Hún er í eftirsetu útaf því að hún hafði ekkert betra að gera.



Síðan telst Mare Winningham líka til hópsins en hún hefur sjálf neitað að hafa verið unglingastjarna. Hún er elsti meðlimurinn en hún lék í St. Elmos Fire, þar lék hún saklausu stelpuna, Wendy, sem vill hjálpa fólki og er rosalega skotin í Billy, slæma stráknum og trúir því að hann geti verið góður. Hún lék aukahlutverk í Grey's Anatomy, þar lék hún mömmu aðalpersónunnar.


Hérna er síðan stutt umfjöllun um myndirnar sem ég vitnaði í hér að ofan.


The Breakfast Club (1985)

Fimm ólíkir nemar sem hafa lítið sem ekkert sameiginlegt lenda saman í eftursetu á laugardegi. Skólastjórinn sem situr yfir þeim skipar þeim að skrifa ritgerð “Who do you think you are!” Hann skipar einnig algjörri þögn og fer yfir á skrifstofuna sína. Enginn talar í byrjun eftirsetunnar en eftir því sem líður á daginn komast þau af því að þau eiga meira sameiginlegt en þau héldur. Þarna eru komin saman helstu stereo týpur allra “high schools” í Ameríku; íþróttastrákinn (the jock), sætu stelpuna í næsta húsi (the princess), gáfaða nördann (the brain), stelpan sem dansar við sinn eigin takt (the basket case) og töffarinn (the criminal).

Þetta er ósköp sæt “high school” mynd um unglinga sem eru að finna sig í lífinu. Það er alveg heilt atriði yfirfært úr Breakfast Club í Not Another Teen Movie, en það er eftirsetuatriðið, bókasafnið er til að mynda næstum því alveg eins útlítandi að innan, þ.e. þar sem eftirsetan fer fram.


Trailer: http://www.youtube.com/watch?v=jbce_lytBac

St. Elmo's Fire (1985)

Mynd fyrir aðeins eldri markhóp. Myndin fjallar um 7 vini, nýútskrifaða úr háskóla en þetta er í rauninni eins og margar smásögur fléttaðar saman í eina. Þarna er parið sem virðist í fyrstu vera þvílíkt hamingjusamt en eitthvað liggur í loftinu. Besti vinur parsins, rithöfundurinn með ritstíflu sem gerir sér grein fyrir því að hann sé ástfanginn af kærsutu besta vinar síns. Saklausa stelpan sem vill gera allt fyrir alla en gleymir sjálfri sér. Hún heldur að hún geti breytt “slæma stráknum í góðann” (sem er mjög algengt meðal kvenna) hann er hins vegar giftur og faðir en hegðar sér eins og hann vill og pælir lítið sem ekkert í afleiðingunum. Síðan hin fallega stelpa sem hefur læðst inn í heim eiturlyfjanna. En St.Elmo er staðurinn sem þau hanga alltaf saman á, einskonar Central Perk ein og er í Friends.

Þessi mynd er aðeins meira á alvarlegri nótunum en hinar, þar sem hérna er í rauninni farið i margar af áhyggjum ungs fólks á þessum aldri. Það sem þessir vinir eiga sameiginlegt er að hafa verið í sama háskólanum en annars eru þau mjög ólík.

Trailer: http://www.youtube.com/watch?v=fIqUC0M8c4M




Sixteen Candles (1984)

Samantha á 16 ára afmæli, nema hvað að fjölskyldan hennar virðist hafa gleymt því þar sem systir hennar ætlar að gifta sig daginn eftir. Þannig að þessi merki áfangi í lífi hennar verður allt annað en góður. Hún er hrifin af vinsælasta gæjanum í skólanum og mesti nördinn í skólanum er hrifin af henni. Fyrir misskilning fær vinsælasti gæjinn miða sem átti að fara til vinkonu hennar þar sem hún játar ást sína á honum.
Inn í myndina koma tvö sett af vandræðalegum afa og ömmu og með öðru settinu er kínverskur skiptinemi, Long Duck Dong sem setur mjög skemmtilegan svip á myndina.

Þetta er alveg æðisleg mynd og krúttleg. Hún fjallar í rauninni ekki um neitt sérstakt og lítið gerist en það er eitthvað við hana sem hrífur mig. Þetta er líka mynd þar sem maður þarf ekkert að nota heilann og lítið að pæla í því sem er að gerast og eins og aðrar unglingarmyndir endar hún vel.

Trailer: http://www.youtube.com/watch?v=-_VTSzBwLD4




Pretty in Pink (1986)

Mynd sem kemur einnig fram á topp 10 listanum mínum. Þetta er yndisleg mynd sem fjallar um Andie, stelpu sem kemur frá “the rong side of the track” en hún er sjálfstæð og lifir sínu lífi án þess að spá í því hvað öðrum finnst. Besti vinur hennar, Duckie (leikinn af Jon Cryer úr Two and Half Man) er skotin í henni en hún tekur ekki eftir því. Hún vinnur í plötubúð fyrir mjög skemmtilegan karakter, Ionu, konu sem er alltaf að breyta um persónuleika eftir mönnunum sem hún fer út með. Vinsæll strákur að nafni Blane byrjar að ganga á eftir henni með grasið í skónum og Andie er nokkuð hrifin af honum á móti en þau mæta mótstöðu frá vinum sínum. Sérstaklega Stef (James Spader úr Boston Legal) vini Blanes.

Not Another Teen Movie er líka frekar mikið byggð á þessari mynd, vinsæli strákurinn og stelpan sem er undir í samfélaginu, klikkaði vinur hennar sem reynir hvað hann getur til þess að ná henni en víkur undan “sönnu ástinni”. Ég keypti þess mynd fyrir tilviljun í Danmörku og það eru sko kaup sem ég sé ekki eftir. Ein af þessum stelpumyndum sem skilja eftir bros á vör og gott skap.

Trailer: http://www.youtube.com/watch?v=tcSMDqXT52s



Seinna töldust fleiri meðlimur í "the brat pack" en þetta voru hinir upprunalegu. Á síðunni :

http://en.wikipedia.org/wiki/Brat_Pack_(movies)

er hægt að finna meiri upplýsingar um meðlimina og myndirnar sem þeir tóku þátt í.

Sunday, March 29, 2009

Watchmen

Ég hafði heyrt um ofurhetju teiknimyndasöguna Watchmen, sem er talin vera ein besta teiknimyndasaga í heimi. og að myndin væri bönnuð í Japan útaf í henni kemur fram að Bandaríkjamenn hafi unnið Víetnam og ein persónan kemur nokkuð oft fram nakin. Ég get ímyndað mér að það sé ekki létt að setja eitthvað sem er teiknað upp sé erfitt að setja á stóra skjáinn. En þar sem ég vissi ekkert um hvað þetta snérist þá fór ég með engar væntingar nema kannski að þetta gæti verið special effect show.


SÖGUÞRÁÐUR Í STUTTU MÁLI


Myndin gerist árið 1985 en nokkru áður hafði verið hópur ofurhetja haldið lög og reglu í Ameríku (í einhverri borg, náði ekki hvar þetta gerðist nema að þetta væri í Ameríku). En á þessum sama tíma er mikil spenna á milli Ameríku og Sovíetríkjanna vegna hugsanlegrar kjarnorkustyrjaldar og bæði lönd eru í viðbragðsstöðu. Þegar myndin byrjar þá er “Dómsdagsklukkan” stillt í 5 mínútur í miðnætti (5 mínútúr í Dómsdag, í kjarnorkustyrjöld) og er hún stillt eftir því hve spennan er mikil þeirra á milli. En einhverjum árum áður hafði semsagt þessi hópur grímuklæddra manna og kvenna verið einskonar Súperman þarna úti en síðan höfðu verið sett lög um að öllum væri bannað að fremja verk (góð eða vond) í grímu-/búningaklæðnaði. Þannig að þessar ofurhetjur settust snemma í helgan stein. En sumar af þeim voru upprunalegar, aðrar dánar, einhverjir höfðu tekið við og síðan orðar elliglopnar (sýndist að þessir verndamenn höfðu byrjað um 1940, sá þá á einhverjum borða í myndinni). En einn daginn er ein af þessum hetjum myrt heima hjá sér, þá fer önnur af stað með rannsókn sína á því hvort það sé einhver að ráðast á grímuklæddar hetjur. Hann leitar þá að hinum hetjunum um aðstoð og þau halda út að leita að því hvað sé í raun að gerast við heiminn. Ég vil ekki segja meira um söguþráðinn því meira skemmir fyrir.

PERSÓNUR

Það eru nokkuð margar “aðal” persónur í þessari mynd, en það eru eftirlifandi hetjur úr upprunalega hópnum. En það ber kannski að taka fram að aðeins ein þeirra var virkilega með einhverja ofur krafta. Hinir virðast bara vera eitthvað rosalega sterk.

Aðalpersóna myndarinnar er samt í rauninni Rorschach, sá sem heldur að einhver sé að ráðast á gamla hópinn sinn. Hann gengur alltaf með grímu fyrir andlitinu og talar með rámri röddu. Það var svolítið eins og hann hefði spiderman kraftar, þar sem hann gat hoppað og hálf hlaupið upp veggi. Reglulega kemur í myndinni eins og þetta sé úr dagbókinni hans, það kemur alltaf eitthvað svona: Dagbók Rorschach 13. október 1985.

Hetjan sem hefur hina raunverulegu krafta heitir Jon Osterman eða Dr. Manhattan en ég hef heyrt talað um hann sem “bláa gaurinn”. Hann er sá eini heiminum sem gæti komið í veg fyrir kjarnorkustyrjöld því hann er einhverskonar undur veraldarinnar og getur stækkað sig (alveg óendanlega mikið) skipt sér í marga hluta og gert í rauninni hvað sem er. Hann virðist vera bara algjörlega ekki af þessari veröld. Hann býr með annarri ofurhetju Laurie Jupiter (er alltaf í mjög þröngum spandex galla, þegar hún er í búningi), hún er hins vegar óánægð í sambandinu þar sem hann er alltaf að “vinna” að einhverju verkefni fyrir ríkisstjórina eða einn ríkasta manninn í þessum heimi, sem er einnig önnur ofurhetja.

Hann heitir Adrian Veidt eða Ozermandias. Hann hafði gefið uppi sitt “identity”, það er tekið niður ofurhetjugrímuna og sagt heiminum frá því hver hann er og grætt á því. Hann er rosalega fljótur og síðan einnig talinn “gáfaðasti maðurinn í heiminum” og það kemur alveg skýrlega

fram hvað hann er rosalega gáfaður.


Síðan eru fleiri sem hafa ekkert neitt sérstakt við sig annað en að hafa verið hluti af þessum hópi, eða tekið við af einhverjum sem var í hópnum.

TÆKNI OG KLIPPING


Það sem ég tók einna fyrst eftir var mjög “Matrix” leg bardaga atriði. Til dæmis höndin á þeim sem sló fór hægt hratt og síðan hægt þegar hún lenti á andstæðingnum og ef að var slag í andlit þá kom close-up af andlitinu og líkams vessum að spýtast út. Mér fannst tækniatriðin og klippingin vera mjög svona teiknimyndasöguleg, eins og búast má við og þess vegna var allt mjög óraunverulegt (sem passar vel inn í þessa ímyndaðu Ameríku). Dr. Manhattan var hins vegar þvílíkt töff gerður. Hann er alveg blár en samt virðist hann rosalega eðlilegur að öðru leyti, ég myndi vilja vita hvernig hann var gerður og hvernig það virkar. Hann glóir oft líka en síðan þegar hann stækkar og skiptir sér er greinilega alveg tölvugert en er ekki viss hvort hann er tölvuteiknaður eða hvað. En í þessari mynd er líka að finna eina furðulegustu ástarsenu sem ég hef á ævinni séð, en eftir að hafa horft á the cutting edge, þá var talað um að það væri erfitt að klippa svona senur þar sem allir hafa sína skoðun en þegar að Watchmen ástarsenan kom upp þá varð mjög spes stemming í bíósalnum. Hún virðist hafa verið hægð all mikið og tónlistin undir er lagið Hallelujah með Leonard Cohen einnig mjög hægt spilað og atriðið í takt við það. Atriðið var mjög langdregið, kjánalegt og skipt um sjónarhorn með löngu millibili, ég veit ekki hvað það tók langan tíma en þegar sirka einn þriðji var búinn var fólk farið að flissa í salnum og síðan stuttu seinna allur salurinn. Mjög spes sena sem hefði líklegast verið hægt að gera betur eða allavega stytt.


Myndin gerist á níunda áratugnum og sá sem tónlistina hefur gjörsamlega verið upptekin af því, þar sem tónlistin er mikið í takt við hann. Það virkaði stundum en annars staðar alls ekki. Til dæmis í byrjunaratriðinu (þar sem creditlistinn kemur og nafnið á myndinni) er lagið Times they are a changin með Bob Dylan, það er dæmi um frábæra senu og með lagi sem gjörsamlega smellpassar. Þetta var algjörlega uppáhalds senan mín í allri myndinni, þar er svona nokkurn veginn verið að kynna hetjurnar og hópinn þeirra og örlög. En síðan var lagið 99 red balloons með þýsku söngkonunni Nena spilað undir í jarðarfarasenu, á fullum hraða og það er nú ekkert sérstaklega jarðarfararlegt lag.

Búningarnir eru líka mjög svo 80's legir og sumir nokkuð skemmtilegir út af þeirri ástæðu.


NIÐURLAG


Þegar myndir eru 170 mínútur þá er erfitt annað en að vera langdregnar. Þessi mynd hefur algjörlega sína kosti og galla eins og hefur komið fram hér að ofan, en að mínu mati hefur of marga galla til þess að ég vilji nokkurn tíma sjá hana aftur, en þetta er líka mynd til þess sjá í bíó. Hún er rosalega vel gerð og veisla fyrir augað. Athyglin þarf að vera til staðar allan tímann til þess að skilja hvað sé að gerast, en margt er ekki útskýrt fyrr en mjög seint. Fyrri hluti myndarinnar var svolítið erfiður fyrir skapið, þar sem þar voru ekkert nema flash-back á eftir flash-backi. Það kom mynd af andliti persónu og sína flash-back, síðan kom fram önnur persóna (í rauntíma) og flash-back frá henni og þannig hélt áfram í einn og hálfan tíma. Leikaranir eru allir góðir að mínu mati, en ég kannaðist við fæsta þeirra, nema einn aukaleikara úr Grey's Anatomy sem leikur The Comedian, hetjuna sem er myrt í byrjun myndarinnar (mjög flott og vel gert atriði).


Það var strákur fyrir framan bíóið sem átti mjög skemmtilega setningu að lokinni mynd sem ég ætla að láta fylgja hérna með:

“Gaur, djöfull var þetta fokked-up mynd!”

Saturday, February 28, 2009

Sånger från andra våningen



Þar sem ég fattaði ekki alveg þessa mynd þá ákvað ég slá henni upp í google og sá þar að þetta er ljóða mynd með svartan húmor. Það hjálpaði ekki mikið til við skilninginn minn á henni en þá gat ég samt betur gert mér grein fyrir því hver ætlunin með hana var. En hins vegar þá fattaði ég að myndin er byggð upp og ljóð; það koma langar þagnir (svartur skjár í svoldinn tíma) og síðan passar tónlistin ekki alltaf innan í atriðin. Hún byrjar kannski í atriði sem hún passar ekki við en fer síðan inn í annað þar sem einhver er kannski að spila tónlistina. Eins og í atriðinu sem fer inn í atriðið þar sem sonur Kalle og kærastan hans eru að spila saman á blokkflautu. Tónlistin byrjaði í atriðinu á undan upp úr þurru og síðan var klippt yfir á þau að spila saman.

Mér fannst þetta vera nokkurs konar ádeila á kreppu og lifnaðarhátt manna. Myndin fjallar aðallega um Kalle, sem brenndi húsagagnaverslunina sína (til þess að fá tryggingarfé að því að mér skildist) hann á tvo syni annar þeirra missti vitið og er á geðveikrarspítala en hinn keyrir um á leigubíl og þreytist við að heyra í fólk röfla um vandamálin sín. Kalle fer síðan að sjá látinn vin sinn sem hann skuldaði pening og annað látið fólk þegar á líður á myndina.
Í myndinni er líka Pelle, einhverskonar auðjöfur eða aðstoðarmaður auðjöfurs. Samstarfsmaður eða félagi hans segir að þeir ætli að koma sér undan ástandinu.
Það koma ýmisskonar aukaperónur inn í myndina, stundum bara í stutta stund og síðan kemur bara ekkert meira fram um þær.

Gamli maðurinn í búrinu fannst mér vera hugsanlega ádeila á það að loka gamalt fólk inni og leyfa því ekki að hafa frelsi.
Síðan fannst mér það táknrænt þegar að sölumaðurinn með Jesú á krossinum, henti öllum krossunum á ruslahaugana og síðan þegar Kalle kom þá risu allir dauðu upp úr jörðinni og komu í átt að Kalle, eins og heimurinn væri að farast, það væri dómsdagur. Og fólkið sem gekk um göturnar lemjandi hvort annað með svipum væri í einhverskonar vítahrings píslagöngu.
Þegar litlu stelpunni er "fórnað" þá er spurning hvort um er að ræða fórn til þess að laga ástandið þar sem ýmiskonar fólk er samansafnað þegar það er gert.

Það sem mér fannst mjöf áhugavert var það hvað allir voru venjulega útlítandi í þessari mynd, ekkert var gert til þess að fegra raunveruleikann og eins og að jafnaði er gert, sérstaklega í Hollywood myndum. Kalle og Pelle voru mjög líkir útlitslega fannst mér, báðir feitir og gráhærðir og það tók mig smá tíma að sjá muninn.

Ég get bara ekki skrifað mikið meira um þessa mynd nema það að hún ruglaði mig í ríminu en hún var samt nokkuð skemmtileg þrátt fyrir það.

He's just not that into you


Ég ákvað að skella mér á He's just not that into you á konudaginn þar sem það var 2 fyrir 1. Salur nr.1 í Smárabíó var troðfullur af konum og kannski c.a. 5 til 10 menn. Enda mun þetta líkalega vera ein vinsælasta rómantíska myndin þetta árið. Myndin er byggð á samnefndri bók sem tekur á því þegar að konur misskilja gerðir og orð karla.

Myndin fjallar að mestu leyti um Gigi, frá fimm ára aldri hefur henni verið sagt af öðrum konum að þegar að þegar strákur kemur illa fram við hana þá þýði það að þeir séu hrifnir af henni. Í byrjun myndarinnar þá er Gigi orðin fullorðin og á að baki mörg misheppnuð ástarsambönd. Hún virðist alltaf hafa misskilið gerðir þeirra og/eða stalkað þá þangað til að lokum hún hefur gefist upp (hún hafði haldið að allt hafi gengið vel og framtíðin sé björt). Vinkona hennar, Janine kemur henni á blint deit með Conor og það er í rauninni upphafið af myndinni. Allt gengur vel og þau ná vel saman. Þess vegna skilur Gigi ekki hvers vegna hann hringir ekki í hana aftur. Hún og vinkonur hennar Janine og Beth analysera deitið í þaula og eru vissar um að hann muni hringja og búa til allsskonar mögulegar útskýringar á því af hverju hann hafi ekki hringt (eins og konum er tamt að gera). Dæmi um svona útskýringar eru; hann er útúr bænum, hann týndi símanúmerinu hennar, einhver ættingi veiktist eða dó. Og síðan koma alltaf “vinkona/frænka vinkonu minnar lenti í alveg eins aðstæðum og hann hringdi ekki í 6 vikur en í dag eru þau hamingjusamlega gift”. Gigi gefst ekki upp frekar en venjulega, þar sem hún er viss um að hann sé hrifin af sér (allar vinkonurnar segja það) og fer á bar sem að Conor sagðist gjarnan fara á. Conor er ekki þar en vinur hans Alex tekur eftir Gigi og spyr hvað hún sé að gera. Eftir að hún útskýrir að deitið hafi gengið svo vel og að hún vilji bara hitta Conor aftur en hann hafi ekki hringt. Þá útskýrir Alex fyrir henni hugarheim karla og segir að ef hann hefði viljað hitta hana aftur þá hefði hann hringt og fundið út leið til að hitta hana þó svo að eitthvað hefði komið upp á. Frá þessu augnabliki fer Alex að útskýra fyrir Gigi hugarheim karla og hvernig þeir líta á sambönd. Hann segir henni frá “reglum þeirra” en að það séu undantekningar á reglunum en þær séu fágætar.

Inn í sögu Gigi blandast síðan aðrar aukapersónur þar sem líka er tekið á samskiptum kynjanna. Fyrst er það vinkona Gigi, Janine, hún er gift Ben. Þau hafa verið lengi saman og eru að flytja inn í nýtt hús. En Ben rekst á Önnu (Scarlett Hohanson) í súpermarkaði og dregst strax að henni.

Conor hefur lengi hins vegar verið ástfanginn af Önnu en hún lýtur á hann sem vin og það aftrar honum í að komast í samband við einhverja aðra konu (þess vegna hringir hann ekki í Gigi eftir deitið.

Síðan er það Beth (Jennifer Aniston) og Neil (Ben Affleck). Þau eru búin að vera saman í 7 ár og Beth finnst að næsta skrefið þeirra ætti að vera gifting en Neil finnst hjónaband vera rugl og sýndarmennska og eiga ekkert skilið við ástina.

Að lokum er það Mary (Drew Barrimore) sem deitar menn á netinu þar sem henni finnst það ver auðveldast.

Allar þessar sögur eru skilst mér byggðar á því sem kemur fram í bókinni. En bókin var skrifuð að einum höfunda Sex and the city. Þetta er nokkurs konar sjálfshjálparbók kvenna í því að skilja hvernig samskipti karla og kvenna virka. Þær hafa alltaf verið að lesa í einhver “tákn” og ættu að hætta því og taka bara raunveruleikanum.

Þetta er rómantísk gamanmynd og er algjörlega byggð upp þannig. Hún endar vel hjá sumum af þessum persónum en ekki öllum, eins og er alltaf best. Því þá fer áhorfandinn út í góðu skapi og með von í hjarta fyrir þá sem myndin endaði ekki svo vel fyrir. Fyrir hlé þá er myndin rosalega fyndin og brandararnir koma hver af öðrum en eftir hlé þá þá er þetta í rauninni bara rómantík. Ég get tekið dæmi um að strákur sem sat fyrir framan okkur, hló mesta allan tíman fyrir hlé en sofnaði eftir hlé. Það sem mér fannst hvað asnalegast var að þessi mynd er gerð fyrir konur til þess að díla við klisjur, sambönd og “sannleikann” og koma þeim niður á jörðina en samt sem áður endar mikill hluti hennar klisjulega, þ.e. einhverjar af þessum konum eru “undantekningar”.

Þetta er frábær mynd í alla staði og alltaf mjög bjart yfir henni. Litirnir (fötin og bakgrunnurinn) eru mjög ljós tónaðir og slakandi og mikið um bleika, fjólubláa, bláa og rauða tóna til þess (að ég held) að skapa rómantísk undirlag. Það komu líka inn á milli viðtöl við fólk um samskipti sem lét myndina svolítið vera eins og heimildamynd um samskipti. Eitt flottasta atriðið fannst mér vera upphafsatriðið þar sem sýndar eru ýmiss konar konur frá öllum löndum að segja hvor annarri að “hann muni hringja”. Þetta er ein af þeim myndum sem maður getur ekki varist því að koma skælbrosandi og í glöðu skapi út af. Get ekki sagt að mér hafi fundist hún fræðandi (sem að bókin líklegast er, allavega er hún ein sú mest keypta af konum) en hún hafði fullkomið skemmtunargildi og hún var stútfull af góðum leikurum (m.a. Kris Kristofferson). Ég myndi mæla með henni fyrir alla sem hafa gaman af rómantískum gamanmyndum.

Friday, February 27, 2009

Hôrudo appu daun

Hold up down

Myndin byrjar á því að tveir menn eru að keyra í bíl, þeir tala ekki saman fyrstu mínúturnar og keyra m.a. framhjá bílslysi. Þeir stoppa og fara í jólasveinabúninga og halda síðan inn í nærliggjandi banka. Þeir eru að fremja rán og á meðan annar heldur byssu upp að öllum í bankanum nær hinn í peningana. En sá sem heldur á byssunni mætir þau augum eins viðskiptavinarins, konu og greinilegt er að hann er að sjá „konuna í lífi sínu“. En þeir halda út úr bankanum en þá er verið að draga bílinn þeirra í burtu og þeir hlaupa í átt að neðanjarðarlestunum. Þar ætla þeir að skella peningunum í skáp til þess að sækja seinna (en þeir eru mjög áberandi í jólasveinaklæðunum sínum). En upp kemur vandamál þar sem þeir eru ekki með skiptimynt til þess að borga fyrir leiguna á skápnum, þá heyra þeir í trúbador að spila á gítar. Þeir fara til hans (hann er greinilega heimilislaus og eitthvað öðruvísi en fólk er flest) og spyrja hvort hann geti skipt seðli, hann brosir og sýnir þeim ofan í gítartöskuna þar sem fáir aurar eru. Þeir taka aurana og hlaupa í burtu og setja klink í skápinn og loka peninganna inni. Trúbadorinn hleypur þá að þeim og kallar á þá, þeir flýja hann og hlaupa inn í næstu lest en missa lykilinn áður og þegar lestarhurðin lokast þá stendur trúbadorinn með skápalykilinn í höndunum.

Þarna fer af stað svakalega atburðarrás sem erfitt er að útskýra nema með því að rekja söguna af mestu leyti. Þá koma við sögu lögreglumenn sem keyra óvart á trúbadorinn þegar hann hefur gert sér grein fyrir því hvað sé í skápnum sem lykillinn gengur að. Þeir halda að þeir hafi drepið hann og ætla að losa sig við líkið. Þá lenda þeir í árekstri við eftirlýstan glæpamann og „líkið“ flýgur út um gluggann og lendir út á vatni. Við vatnið er prestur (sem hafði óvart kveikt í kirkjunni sinni) í þann mund að fremja sjálfsmorð þegar hann sér trúbadorinn fljóta eftir vatninu, hann hleypur út í vatnið og dregur manninn upp á land. Þá heldur hann að þetta sé Jesús Kristur (þar sem hann er í rifnum fötum, með sítt hár og skegg). Hann heldur að þetta sé leið Guðs til þess að bæta fyrir bruna kirkjunnar. Hann fer því af stað í einhvers konar endurlausnar ferð til þess að bjarga Jesúsi. Það sem gerist eftir það er í rauninni tilviljanir og hluti af einhvers konar plani.

Frá þessu atviki fer af stað mjög svört kómísk atburðarrás sem meikar ekki sens nema að sá sem er að horfa, fylgist vel með og taki eftir því sem gerist. Mér fannst eins og það færi af stað einhvers konar dómínó áhrif. Sá sem hefur skrifað þessa mynd hefur verið með mjög frjótt ímyndunarafl og ekki verið hræddur við að gera það sem honum dettur í hug. En mér fannst myndin mjög skemmtileg og í rauninni nokkuð spennandi fyrsta klukkutímann en síðan þegar presturinn fer með trúbadorinn í hótelið til þess að bræða hann þá missti ég gjörsamlega skilninginn á þessari mynd. Allt í einu voru allir komnir á hótelið og síðan byrjuðu þeir að slást. Síðan skildi ég ekki alveg hvað allt fólkið var að gera á hótelinu, mér datt helst í hug að einhverskonar leikþáttur hafi verið í gangi (svona eins og þegar fólk dressar sig sérstaklega upp eins og fyrir veislu og síðan er framið „morð“ og einhver er morðinginn og hinir þurfa að finna út úr því, nema þarna var kannski ekki framið morð heldur var verið að búa til draugagang eða eitthvað). Kannski fær presturinn líka bara ofskynjanir á meðan hann er viðstaddur þessa „veislu“ og fyrst hann er að drekka í fyrsta skipti.

Mér fannst þetta frábær mynd sem hafði mjög gott skemmtanagildi og ég get vel mælt með henni þó svo að seinustu mínúturnar meiki lítið sens fyrir mér þá var fyrsti klukkutíminn svo fyndinn að hann yfirgnæfir hitt. Það var líka mjög svo skemmtilega sett inn fyndna hluti sem skiptu litlu sem engu máli fyrir myndina nema fyrir þá persónurnar, eins og til dæmis það að konan úr bankanum/lögreglukonan hafði líka rosalega áhuga á lestum og þess vegna fellur hún fyrir öðrum ræningjanum og hjálpar þeim.

Thursday, February 26, 2009

Idi i smotri


Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég væri í þann mund að horfa á þegar ég skellti Idi i smotri í tækið, ég vissi að þetta væri rússnesk stríðsmynd en ekkert meira. Þannig að ég var ekki undirbúin fyrir það sem var í væntum.

Myndin fjallar um Florya (Florian, misjafnt hvernig það var þýtt) ungan rússneskan strák, ég gat ekki alveg gert mér grein fyrir því hvað hann væri gamall, hann gæti a. Í byrjun myndarinnar er hann og vinur hans að leita að vopnum, mér fannst eins og það hefði verið ástæða fyrir því, Florya vildi fá byssu til þess að vera með “þeim”. Þarna er einhver gamall maður að var þá við. Þarna er einhver gamall maður (sem kemur síðan aftur fram í myndinni) að vara þá við og herflugvél flýgur yfir. Florya finnur stórann riffil og tekur hann með heim. Mamma hans verður brjáluð og segir honum og núna muni þau öll deyja.

Síðan koma tveir hermenn heim til þeirra og eru nokkuð dónalegir, Floria fer með þeim og mamma hans verður móðursjúk. Þeira taka Florya með sér og hann virðist ánægður með það. Hann fer með þeim að herbúðum en þegar það kemur að því að fara þá skilja þeir hann eftir hjá konunum í búðunum. Þar er stelpa, Glasha þau ná “saman” sem vinir þegar bæði eru grátandi í skóginum, hann vegna þess að hann var skilinn eftir og hún að því mér best skildist útaf Kossach (einhverskonar herforingja hópsins). En stuttu eftir flýgur herflugvélin (sem sást þegar strákarnir voru að leita af byssunum) yfir og stuttu síðar byrjar sprengju - skothríð sem eyðileggur allt í kring þar á meðal búðirnar.

Það er eins og þá missi Florya heyrnina og einnig vitið. Þá kemur kafli í myndinni þar sem ekkert er talað og hann og Glasha eru bara að lifa af skógnum. Hann fer með hana heim til þess að koma þeim í skjól en þar er enginn. Glasha gerir sér grein fyrir því að búið sé að drepa alla en það er eins Florya vilji ekki trúa því, hann er viss um að hann viti hvar fjölskyldan sín og allir eru og leiðir hana áfram, yfir mýri þar bæði eru næstum drukknuð. Hún sér hins vegar líka allra fyrir aftan húsið en segir honum það ekki fyrr en þau eru komin yfir mýri útá eyju, þar sem Florya heldur að allir séu. Þegar hún segir honum að þau séu öll látin þá brjálast hann og hrindir henni aftur út í mýrina. Þá kemur að hermaður sem hjálpar þeim og tekur þau með sér þar sem fólk úr bænum hefur safnast saman og einnig nokkrir hermenn. Þar er mikil andúð gagnvart Hitler og allir hjálpast að við að búa til leirkall í líki Hitlers. Þrír menn og Florya fara með leir-Hitlerinn af stað og setja hann við vegarbrún, á leiðinni eru allir drepnir í sprengingumnema Florya sem kemst undan. Bóndi nokkur hjálpar honum en í þeim bæ taka nasistar akkúrat yfir og fremja fjöldarmorð. Florya kemst undan og hittir aftur rússnesku hermennina sem að drepa nastistanna. Myndin endar á því að Florya skítur mörgum skotum í mynd af Hitler og á sama tíma koma raunverulegar myndir af morðum/pyntingum nasista á Rússum.


Ég átti pínu erfitt með því að ná alltaf samhengi í myndinni, hún óð frá einu í annað og var ekkert mikið að útskýra hvað var að gerast. Mér fannst hún líka frekar ógeðfelld og átti þess vegna erfitt með að halda alltaf athyglinni. Ég líka náði aldrei hvort að Florya var heyrnarlaus, Glasha sagði það alltaf en síðan virtist Florya alveg skilja bóndann í hinum bænum. Mér fannst seinni helmingurinn þó aðeins betri þó svo að hann væri kannski nokkuð ógeðslegur á köflum. Líka það hvernig Florya verður brjálæðari í andlitinu eftir því sem líður á myndina virkarhræðandi fyrir framhaldið. Myndatakan var líka svoldið spes í fyrri hlutanum (eða þar fannst mér þetta meira áberandi), það var mikið um andlits zoom þar sem sýnd voru í nærmynd andlitin á fólki. Ég tók sérstaklega eftir þessu með andlitið á Glasha og þar var hún oft að opna meira augun til skiptis við eðlilega opnun. Mér fannst þetta gefa frekar geðsýkislegt yfirbragð svona strax og einnig þegar augað á kúnni sem deyr á túninu var sýnt í dauðatygjunum þá gat ég ekki horft. Hljóðið gaf myndinni líka nett ógeðslegan blæ og þá sérstaklega eftir sprenginguna í búðunum, þá verður hlóðið bælt (líklegast til þess að undirstrika það sem Florya heyrir). Síðan var Sálumessa Mozart (Requiem) spiluð í endan þar sem alvöru myndirnar úr stríðinu voru sýndar, þá fékk ég gæsahúð og tár í augun.

Þetta var mjög fræðandi mynd um það sem fór fram í Seinni heimstyrjöldinni í Rússlandi en ég vil samt ekki horfa á þessa mynd aftur, gæsahúðin og hryllingurinn sem ég fann flesta alla myndina haftrar því. Þetta er líka ekki mynd til þess að horfa á, einn heima.

Sunday, February 1, 2009

Le Renard et l'enfant.


Sú mynd sem ég fór að sjá á frönsku kvikmyndahátíðinni var Refurinn og barnið eða Le Renard et l'enfant. Ég vissi lítið um hana áður en ég fór í bíó annað en að hún væri eftir sama leikstjóra og gerði Ferðalag keisaramörgæsarinnar, Luc Jacquet.

Myndin byrjar á því að ung stelpa gengur niður stíg í mjög fallegu umhverfi, það er haustlegt og stór skógur nálægt. Hún tekur þá eftir ref og verður mjög heilluð af dýrinu, gleymir stund og stað og fer í átt að því. Refurinn hleypur ekki strax af stað heldur horfir líka á hana. Í stutta stund er eins og skilin milli manna og dýra séu ekki til staðar. En sú stund líður þegar stelpan ætlar að nálgast refinn og klappa honum, þá hleypur hann í burtu. Stelpan fær refinn á heilann og leitar og leitar af honum á hverjum degi, hún kallar hann refinn sinn og verður í rauninni með hann á heilanum. Hún labbar um allan skóginn og leitar að sporum í snjónum þegar veturinn er kominn. Hún fer marga hringi að elta sporin og endanum dettur hún og fótbrýtur sig. Hún eyðir öllum vetrinum inni hjá sér og hugsar alltaf um refinn sinn. Þegar sumarið kemur og hún getur hreyft sig fer hún strax útí skóg að leita að honum. Hún finnur hann og reynir að öllum mætti að nálgast hann. Það tekst að lokum eftir langa mæðu og uppfrá því hefst undarleg og ævintýraleg vinátta sem á eftir að breyta lifi hennar.

Í myndinni er sögumaður, stelpan þegar hún er orðin eldri og því er frásögnin frá hennar sjónarhorni og í fyrstu persónu en í þátíð. Þó að mestu leyti sé stelpan bara sýnd í leit sinni koma líka oft náttúrulífsmyndir að refnum í sínu eðli og náttúru. Refurinn er gerður nokkurn veginn af persónu en áherslan er samt alltaf að hann er dýr en ekki manneskja. Þetta er sagt vera barnamynd fyrir börn frá 6 ára aldri, en fullorðnir skilja hugsanlega tilganginn með henni betur.
Þó svo að manneskja og dýr geti orðið vinir í einhvern tíma, kemur alltaf fram frumeðli mannsins til þess að vera stjórnandi yfir dýrum. Stelpan og refurinn verða nokkrun veginn vinir og refurinn er nokkurn veginn eins og gæludýrið hennar. Refurinn leiðir alltaf nokkurn veginn leikinn þannig að hún eltir hann en á endanum vill hún stjórna leiknum og reynir m.a. að láta hann fara í feluleik í herberginu hennar með hræðilegum afleiðingum og setja á hann ól með bandi.

Þetta var frábær mynd, falleg og myndatakan æði. Fyrir barn væri þetta mynd um stelpu og ref sem verða vinir en þetta er í rauninni mynd sem sýnir fram á eðli mannsins og mun hans og dýra. Það var ótrúlegt að gera samsvarað sig 10 ára stelpu sem lifir í þvílíkum ævintýraheimi. Þetta er líklegast til dæmisögu ævintýramynd. Hún var líka á pörtum rosalega sorgleg og ekki hægt að halda tárunum aftur. Myndatakan var rosaleg þegar náttúrulífsmyndirnar voru teknir. Það var tekið niður í hreiður refsins og lífsbaráttan hans sýnd í nærmynd. Í raun voru líka notaðir sirka 10 refir í hlutverk refsins. Myndin gerist á einhverjum fallegasta stað sem til er. Stórt skóglendi, fossar, ár og sveitarlegt umhverfi.

Stelpan sem leikur "barnið" er órtúlega krúttleg og einlæg í leik sínum.
Ég sá líka einhverstaðar á netinu að myndin er byggð á svipaðri reynslu leikstjórans.
Frábær mynd sem fæstir mega sleppa að sjá.

Wednesday, January 28, 2009

Notorious


Myndin sem er frá 1946 fjallar um Aliciu Huberman, dóttur nasista njósnara. Eftir að faðir hennar er dæmdur í fangelsi vill hún eignast sitt eigið líf án þess að vera þekkt sem dóttir hans. En hún snýr sér mjög mikið að áfengi. Maður að nafni Devlin nálgast hana og segir að leyniþjónustan þurfi aðstoð hennar til þess að komast innan í hóp nasista (og segja þeim frá því sem þar fer fram) sem hafa komið sér fyrir í Brasilíu eftir seinni heimstyrjöldina. Hún fer með Devlin til Rio de Janeiro til þess að þjálfa sig upp fyrir verkefnið, hættir að drekka eins mikið og hún gerði og verður ástfangin af Devlin í leiðinni. Tilfinningar hennar virðast vera endurgoldnar en kannski ekki alveg eins mikið. Hinn rósrauðri heimur sem þau bæði hafa verið í, dökknar þegar Devlin fær að vita hvað verkefni Aliciu felur í rauninni í sér. Honum er skipað að sannfæra hana um að tæla Alex Sebastian, nasista, vin föður hennar og hluta af nasista hópnum í Brasilíu. Hún á að finna út hvað þeir eru að plana og hvað þeir eru að gera. Þegar yfirmenn Devlins segja honum frá þessu, fer hann í vörn hennar vegna og finnst að þetta sé ekki góð hugmynd en lendir á vegg. Þeir segja að vegna fortíðar hennar (sem virðist í þeirra huga vera bara menn og áfengi). En þegar hann segir Aliciu frá verkefninu hennar er hann kaldur og tilfinningalaus því að hann vill að hún geri upp hug sinn sjálf en ekki með áhrifum frá sér. Hún reynir að fá fram einhverjar tilfinningar/skoðanir frá honum en hann gefur ekkert upp. Þá fær hún sér vínglas (turning point fyrir samband þeirra) og samþykir ráðahaginn og verkefnið. Hún kynnist Alex Sebastian og giftist honum að lokum. Hún njósnar um hann og vini hans og reportar til leyniþjónustunnar. Það verður sífellt erfiðara fyrir Devlin að vita að henni í félagskaps nasistanna og sérstaklega þegar það virðist sem hún sé í mikilli hættu.

Þar sem þetta er myndin sem Film Directing Fundementals vitnar mikið í, þá var ekki annað hægt en að horfa á hana. Þetta er rosalega góð mynd og skiljanlegt að hún sé notuð í kennslubók. Allt er rosalega vel úthugsað og gert. Mér fannst til dæmis atriðið á veðreiðunum ótrúlega flott miðað við hvenær myndin er gefin út. Þegar Alicia lýtur út um kíkinn og maður sér hestanna speglast í þeim þegar hlaupa fram hjá, frábært atriði. Tónlistin og klippingin eru líka mjög góð og spila saman vel. Undirbúningur fyrir spennandi atriðin byrjaði snemma og spiluðu bæði þá mjög mikilvægt hlutverk.
Það eina sem mér fannst ekki eins gott við myndina var hvað hún var langdregin, allt tók svo langan tíma að gerast en samt sem áður þegar það gerðist þá var það biðinnar virði. Til dæmis þegar Alicia verður "veik" og Devlin kemur að lokum að bjarga henni. Það líður langur tími þar sem lítið gerist sem skiptir máli.
Justify Full
Ég ákvað að skoða aðeins á netinu um myndina og fann út tengingu frá Notrious til íslenskrar myndar. Í myndinni Fíaskó frá 2000, þar er persóna að nafni Helga sem útskýrir að bolurinn sem hún er í, hafi verið notaður af Ingrid Bergman í Notorious.

Síðan fann ég líka út að þessir stuttu fram og til baka kossar milli Gary Grant og Ingridar Bergman hafi verið vegna þess að á þessum tíma voru reglur um lengdir kossa á sekúndu.

Í þessari mynd líkt og í Casablanca skapaði hæð Ingridar smá vandræði, Claude Raines sá sem lék Alex Sebastian var látin standa á kassa til þess að bæði hann og Gary Grant myndu virðast hærri en hún en Gary Grant var í raun mikið hærri en hann. Ég reyndar tók eftir í sumum atriðum þegar Ingrid og Raines löbbuðu saman þá var hún aðeins hærri. Mér finnst persónulega hæð Ingridar vera hluti af því sem gerir hana sérstaka. Hún var samt í rauninni ekkert rosalega stór, 175 en myndrænt séð þá er það víst betra ef karlkyns meðleikendur eru aðeins hærri til þess að sýna fram á karlmennsku þeirra.

Monday, January 26, 2009

4 ekki eins góðar myndir 2008

Seinni hlutinn um myndir sem ég sá í bíó 2008 (fyrri er aðeins neðar). Vanalega er ég nokkuð jákvæð gagnvart myndum eða reyni að finna eitthvað sem mér finnst áhugavert og tekst þaðí flestum tilfellum en það voru samt myndir sem þóttu ekki góðar eða stóðust ekki væntingar sem ég hafði.

James Bond: Quantum of Solace

Þar sem Casino Royale var svöna hörku góð Bond mynd bjóst ég við að þessi mundi verða nokkuð góð, kannski ekki jafn góð en samt sem áður. En hún stóð sko langt frá því undir væntingum.

Þessi byrjar strax á eftir þeirri fyrri. James Bond er búin að missa ástina sína Vespu, sem var ekki sú sem að hann hélt að hún væri. Hann fer því í gegnum sorgarferli þar sem hann er mjög hefnir sín fyrir dauða hennar. Eftir að upp kemst að lífvörður er svikari, trackar hann niður stóran glæpahring umhverfissinna sem ætlar að nýta sér auðlyndir fátæks lands. Með aðstoð löggunnar Mathis og Camille (sem er á sinni eigin hefndarför eftir einum vonda kallinum) fer hann um reynandi að uppræta þennan glæpahring og hefna dauða Vespu. M virðist vera að missa trú á honum, þar sem hann fer um og virðist drepa án þess að hugsa um afleiðingarinnar.
Myndin sýnir togstreituna sem fer í gegnum Bond, að fara eftir yfirmanninum eða drepa til þess að deyfa sársaukann.

Það er í raun og veru ekkert að þessari mynd. Hún virðist vera gerð bara með spennu í huga og söguþráðurinn geldur fyrir það. Annað hvert atriði var þegar Bond var að slást eða drepa. Endalaust af bardagaatriðum sem höfðu eiginlega engan forgrunnn. Þeir sem hann drap voru varla kynntir til sögunnar. Nú hugsa ég að líklegast hafi það verið vegna sorgarinnar sem hann er að ganga í gegnum en á meðan ég var á myndinni var mér ekki skemmt. Mér fannst líka eins og aukapersónurnar skiptu engu máli, þær komu, fóru, dóu en voru lítið sem ekkert í mynd. Þessi mynd hefði hugsanlega verið meiri skemmtun ef Casino Royale hefði ekki verið svona rosalega góð og spennandi allan tímann, með alvöru söguþræði en ekki bardagatriðum.


Sex and The City

Myndin gerist fáum árum eftir að þættirnir enda. Allar fjórar vinkonurnar eru orðnar ráðsettar, en misjafnlega hamingjusamar. Carrie er trúlofuð Mr.Big og brúðkaupið er í nánd. Þau eru flutt saman í risa stóra New York íbúð og allt virðist fullkomið. Samantha finnst fast samband svolítið erfiðara en hún hélt og á erfitt með að halda ekki framhjá. Charlotte á ættleidda stúlku en langar í sitt eigið barn. Og Miranda er mjög óhamingjusöm og Steve viðurkennir að hafa haldið framhjá henni einu sinni. Hún segir þá Mr. Big í reiðskasti að gifta sig ekki. Það kemur af stað mjög dramatískri atburðarrás sem endist alla myndina.

Eins og þessi lýsing þá er myndin mjög einföld en samt mjög löng. Þessi mynd var búin að vera mjög löng í bígerðum og aðdáendur þáttana beðið lengi og með miklar væntingar. Ég fylgdist ekkert rosalega mikið með þáttunum nema í veikindum. Þar sem þættirnir eru nokkuð góðir bjóst ég við að myndin væri eitthvað í líkingu við þá. En myndin er í raun eins og of langur, væminn þáttur. Mér fannst hún rosalega langdregin og fyrirsjáanleg. Eftir margar seríur þá vill maður alveg sjá "happy ending" en allt var of sykrað og frábært. Í staðinn hefði verið sniðugra að gera endinn opnari fyrir allar persónur, þannig að áhorfendur gætu myndað sér sína eigin skoðun.

Beowulf 3-D

Gerð eftir kviðu sem var samin á forn-ensku, hún gerist í Danmörku og segir frá stríðsmanni Gauta, Bjólfi sem hjálpar hinum Danska konungi (Hrothgar) að sigrast á hræðilega skrímslinu Grendel. Grendel þessi er óskilgreinanlegt skrímsli sem hryllir íbúanna í hátíðarhöldunum sínum. Hrothgar konungur býður verðlaun þeim sem drepur skrímslið, gullbikar ("old relic"). Bjólfur nær að drepa skrímslið með nokkrum erfiðismunum og hlýtur að launum bikarinn. En þegar hann snýr aftur að kofanum sínum eru allir menn hans látnir. Hrothgar segir þetta vera verk móður Grendils sem hyggi á hefndir. Bjólfur fer því að leitar hennar með bikarinn (til þess að láta hana fá skaðabætur, en þetta er í rauninni álagabikar). Hún gerir honum tilboð, tælir hann og fær hann til þess að láta sig fá bikarinn. Bjólfur verður ósigrandi og ríkur konungur en mörgum árum seinna fær hann þennan samning aftur í bakið á sér.

Þetta er alveg rosalega flott kviða og myndin er alveg frekar vel gerð útlitslega séð. Allt er tölvuteiknað, meira að segja leikararnir. Það er þar sem mitt álit lækkaði, mér finnst hérna (líkt og í Journey to the center of the Earth 3D) að of mikið sé gert út á þrívíddina en minna lagt upp úr atriðum og umhverfi. Það er voða flott að sjá glóandi kol koma á móti sér, en þegar það kemur fram aftur og aftur og án sýnilegrar ástæðu þá fer þetta að þreytast. Leikararnir eru líka rosalega tölvuteiknaðir og það er mjög sýnilegt, þau fá mjög óraunverulegan blæ yfir sig, ekki beint ævintýralegan (sem hefði verið í lagi) heldur meira eins og þau séu algjörlega teiknuð.

En það sem mér fannst flottast var að Crispin Glover, sem lék Grendel talaði forn-ensku alla myndina og það kom rosalega sterkt á móti því sem mér fannst ekki jafn jákvætt í myndinni.


Love Wrecked


Það er nú lítið hægt að skrifa um þessa mynd, en hún var bara án mjög fás jákvæðs. Eiginlega bara hræðilegasta stelpu mynd sem ég hef horft á (og ég hef horft á nokkrar mjög slæmar).
Í stuttu máli fjallar hún um stelpu sem er með rock 'n' roll stjörnu algjörlega á heilanum eins og margar aðrar stelpur í kringum hana. Hún fær vinnu á hóteli í Karabíska hafinu og viti menn rokkstjarnan verður akkúrat á því hóteli. Eftir að þau detta útaf skipi í smá óveðri, lenda þau saman á því sem þau halda að sé eyðieyja. En eftir að skoða sig smá um, fattar hún að þau séu ennþá eyjunni þar sem hótelið er. Hún lætur hann samt ekki vita og hann heldur að þau séu föst saman þarna. Hún sér sig sem sagt færi á að gera hann ástfanginn af sér með því að vera í extreme aðstæðum. En málið flækist þegar önnur stelpa fattar þetta og þykist líka stranda á "eyðieyjunni".

Söguþráðurinn ætti að vera nóg til þess að reka fólk í burtu en leikurinn er það líka. Amanda Bynes sem leikur aðalhlutverkið hefur ekki verið að gera neitt svakalega hluti en samt ágæta seinustu ár. En í þessari mynd er hún hræðileg og gæti það hugsanlega vera útaf persónunni, ástjúk unglingstúlka. Ég man mjög takmarkað eftir þessari mynd og veit ekki hvernig ég sat út hana alla.

Aðrar myndir sem ég mæli ekki beint með, sem ég sá 2008:
Superhero Movie
Meet the Spartans

Sunday, January 25, 2009

Man Bites Dog


eða C'est arrivé près de chez vous

Belgísk leikin heimildamynd sem fylgir eftir raðmorðingja í morðunum sínum. Myndin fylgir honum eftir í nokkuð langan tíma. Það er komið inn á líf hans og ef ekki væri fyrir atriðin sem sýna hann drepa fólk þá myndi þetta bara virðast vera mynd um listunnenda. Allar hliðar lífs hans eru sýndar, þegar hann er með fjölskyldu og vinum. Hann virðist í fyrstu vera algjörlega sane náungi og heillandi, sem bara drepur fólk að atvinnu, en þegar líður á myndina virðist hann verða geðsjúkari og geðsjúkari. Hann er í góðu sambandi við mömmu sína og spjallar um ýmislegt sem getur komið fyrir í samtölum; list, arkítektúr eða heimspeki.

Hann útskýrir líka hvernig fólk er best að drepa, það sé eldra fólk. Þau geti fengið hjartáfall og þannig sparað honum byssukúlu. Hann segir líka kvikmyndatökumönnum frá því hvernig er að drepa margskonar fólks og útskýrir hvernig best er að drepa hvern og einn, oft í leiðinni og hann gerir það. Hann er líka með sérstaka hrifningu á póstmönnum og byrjar hvern mánuð á því að drepa einn. Þegar hann nær ekki strax að drepa einn þá fer hann að afsaka sig (virðist vera svolítill fullkomnunnarsinni).

Tæknimennirnir og kvikmyndatökumennirnar fara síðan að taka meira þátt í "vinnu" morðingjans. Hann dregur þá inn í heim sinn og lætur þá í rauninni fara að taka þátt í morðunum með sér. Þeim fara að lítast ekki á blikuna og hugsa sig um hvort þetta sé í rauninni eins góð hugmynd og hún virtist í fyrstu.
Sem betur fer er þetta tilbúningur og ég vil ekki vita hvort að eitthvað að þessu er byggt á sönnum atburðum. Þetta var líka örugglega ein ógeðslegasta mynd sem ég hef séð og þegar hún kláraðist þá var mé flökurt að ógeðistilfinningu yfir því sem ég hafði séð. Hún var samt furðulega góð þrátt fyrir hvað mér fannst hún viðbjóðsleg. Að vera svona þvingaður inn í heim morðingja og líf hans. Mér leið eiginlega bara illa fyrir hans hönd þegar hann lendir í nokkurs konar stríði við annan morðingja og allt fer að verða persónulegt. Þegar endirinn kom var ég mjög fegin og get eila ekki sagt að ég vilji sjá þessa mynd aftur.

Friday, January 23, 2009

Sólskinsdrengurinn


Ég var búin að heyra fyrir nokkru að Friðrik Þór væri með heimildamynd um einhverfu í býtum. En ég pældi ekkert í því og hélt að þetta yrði mynd sem maður sæi en myndi ekkert snerta mann. Mér gæti ekki hafa skjáltast meira. Þetta var ein af þeim myndum sem ég fór á með opið hugarfar og ekki háar kröfur. Ég held að sjaldan hafi ein mynd látið mig límast svona svakalega við skjáinn og algjörlega lifa mig inn í aðstæðurnar.

Þetta er mjög persónuleg heimildamynd um einhverfu. Ég vissi mjög lítið um einhverfu þegar ég fór á hana þannig hún var einnig mjög fræðandi. Ég hugsa að ef fjölskyldan, sérstaklega mamman hefðu ekki tekið þátt í gerð myndarinnar þá væri hún ekki næstum því jafn góð. Myndin í rauninni þvingaði mann til þess að díla við raunveruleikann. Einhverfa er sjúkdómur sem er miklu algengari en maður heldur og samkvæmt Friðriki Þór þá fer hlutfall fólks með einhverju hækkandi. Hvað veldur því er ekki vitað ekkert frekar en að læknar hafa ekki algjörlega uppgvötað hvað það sé sem triggar einhverfu í fólki. Friðrik Þór hefur sína eigin kenningu um það að neyslan á öllum þessum vörum sem koma til okkar í plasti og áli gæti hafst sín áhrif. Ég hef ekki hugmynd um hvort það gæti verið rétt eður ei. Svo virtist líka sem að læknarnir í myndinni hefðu allir sína skoðun.

Eftir því sem mér skildist þá einhverfa sjúkdómur sem herjar á taugakerfið, einhverskonar offjölgun tauga. Það var mjög áhugavert viðtölin við bæði einhverfa einstaklinga og einnig þeirra nánustu. Það er mjög sorglegt hvað það eru fáar lausnir fyrir fólk. Fæstir hafa möguleika að fá þá aðstoð sem þau þurfa. En þær lausnir sem voru í boði útí Ameríku voru góðar en hver og einn einstaklingur er einstakur og það henta ekki allar lausnir öllum. Viðtölin sem tekin voru við Temple voru sérstaklega fræðandi, að geta fylgst með henni tala og sjá hvernig hún tjáði sig. Hún var greinilega rosalega gáfuð en horfði aldrei í augun á Margréti eða beint í myndavélina. Ákafinn sem skein útúr orðunum hennar þegar hún talaði um einhverfu sýndi hvað það var henni mikið hjartans mál að einhverfa væri ekki eins bæld í samfélaginu eins og hún hefur alltaf verið. Allavega finnst mér frábært að einhverfa sé að koma fram, því að fólk á skilið að fá þau úrræði sem eru í boði, sama hver og hvar þau eru.

Ferð Margrétar til allra þessara sérfræðinga opnaði augun fyrir því að það eru mjög takmarkaðar lausnir fyrir einhverfa á Íslandi. Mér fannst frábært hjá henni að hafa samband við alla þessa einstaklinga. Þessi mynd verður vonandi til þess að opna augu fleira fólks heldur en bara mig, einhverra sem hafa úrræði til þess að hjálpa.

Það var greinilegt á heimsókn Friðriks Þórs hve einhverfa er honum hjartnæmt efni. Hann hefur greinilega lagt sig allan fram við gerð þessarar myndar. Hvernig hann talaði um fólkið sem hann tók viðtöl við og kynntist við gerð myndarinnar sýndi áhuga hans. Mér finnst þessi mynd vera frábært framtak til íslenskrar heimildarmyndargerðar. Þetta persónuleg mynd sem hélt manni algjörlega við efnið og hún skildi mikið eftir sig. Það er ekki annað hægt en að pæla í líkunum á einhverfu og hve margir hafa ekki verið greindir vegna þess hvernig kerfið er á Íslandi.
Mér fannst eitt fallegasta atriðið í myndinni þegar Keli svarar fyrst spurningunni hjá Sumu og þá sá maður að hann er ekki sveimhugi, það er virkilega manneskja þarna sem þarf að tjá sig eins og aðrir. Hann er bara með mikið virkari skynfæri heldur en flest allir aðrir.
Þetta er mynd sem flestir ættu að sjá og ég er búin að mæla með henni fyrir alla.