Saturday, April 25, 2009

Kvikmyndagerð 2008-2009

Ég valdi kvikmyndagerð, því að ég hef alltaf haft mikinn áhuga á bíómyndum. Væntingarnar sem ég hafði voru þær að ég vildi læra aðeins meira um hvernig myndir væru gerðar og kynnast öðrum gerðum að myndum heldur en þeim sem ég hafði séð.

Ég varð ekki fyrir vonbriðgum, væntingarnar stóðust. Hópverkefnin sem voru gerð sem gáfu manni reynslu sem ég hefði annars ekki öðlast. Mér fannst mjög áhugavert að fara á kvikmyndahátíðarnar Reykjavík Short & Docs og RIFF, ég hefði annars aldrei farið á þær. En þar sem ég flutti í Mosfellsbæinn seinasta haust ákvað ég ekki að kaupa mér passa. Það hefði bara verið of mikið að keyra fram og til baka, ein í bió þar sem ég gat ekki platað marga með mér. En ég fór á eins margar og við áttum og sá ekki eftir því að hafa kíkt á þær. Ég var líka einstaklega hrifin af frönsku myndinni Renard et le Enfant sem ég fór á, þegar franska kvikmyndahátíðin var. Það var ein fallegasta mynd sem ég hef séð lengi.

Við vorum líka látin fara á íslenskar myndir í bíó og fengum leikstjóranna í heimsókn. Mér fannst það einna best við námskeiðið, maður fékk allt aðra sýn á íslenska kvikmyndagerð. Heimsóknir leikstjóranna voru misjafnar eins og myndirnar þeirra en mér fannst persónulega fyrsta heimsóknin, þegar Valdís Óskarsdóttir kom í heimsókn hafa mest áhrif. Þá áttaði ég mig á í fyrsta skipti hversu mikið starf klipparans væri í raun og veru. Þessi mynd sem hafði tekið rúma viku að taka upp var 8 mánuði í klippinu, ég missti andlitið. Síðan á hæla Valdísar eru Óskar Jónasson og Friðrik Þór. Mér fannst heimsókn Ólafs Jóhannessonar sem gerði Queen Raquela einna síst. Ég náði aldrei neitt sérstaklega góðri athygli í fyrirlestrinum hans, myndin var nú samt ágæt en nett skrítin, enda bíður efnið ekki upp á neitt annað.

Myndirnar sem var síðan horft á í tíma, sem ég þurfti oftast reyndar að horfa á heima vegna áreksturs við þýsku tímanna mína á föstudögum, voru misjafnar og flestar eitthvað sem mér hefði annars aldrei dottið í hug að horfa á, eina sem ég hafði heyrt um og átti var Casablanca. Þær myndir sem standa uppúr eru líklegast The General, Cats of Mirikitani, Hold Up Down og Notorious og síðan heimildamyndin um klippingu The Cutting Edge. Það var engin mynd sem ég þoldi ekki eða fannst leiðinleg (enda reyni ég oftast að horfa á hluti með opnu hugarfari) en þær sem mér fannst síðri og ég get eiginlega ekki mælt með fyrir aðra eru myndir eins og Idi i Smotri og The Thing. Báðar eiga þær sameiginlegt að vera nokkurs konar hryllingsmyndir og það líklegast áhrif á skoðun mína á þeim. Og síðan var það Songs from the second floor, sem ég skildi ekkert í og fílaði ekkert við.

Myndin Triumph of the Will fannst mér finnst ógeðsleg og skildi ekki af hverju við værum látin horfa á hana en eftir seinustu sögu tímanna á árinu fattaði ég það. Þetta er ein frægasta mynd sögunnar, gerð af Hitler um hans tíma. Sögulega séð þá er hún frábær heimild og hjálpaði mér miklu betur að skilja sögu-námsefnið. Þetta var líka hluti af námskeiðinu sem kom mér á óvart, heimildamyndir. Eina heimildamyndin sem ég hafði séð (sem var ekki leikin) var End of the Century, heimildamynd um uppáhalds hljómsveitina mína. Myndin Cats of Mirikitani gjörsamlega opnaði augun mín fyrir því hvað þetta væri í raun og veru spennandi flokkur mynda. Sólskinsdrengurinn hans Friðriks er líka með betri íslenskum myndum sem ég hef séð, og ég mæli með henni fyrir alla sem ég hitti liggur við. Ég sá nokkuð eftir því svo fór sem fór með heimildamynda sem hópurinn minn ætlaði að gera, en tíminn vannst aldrei og svoleiðis er það stundum.

Síðan gerði ég tvo fyrirlestra, einn fyrir jól og einn eftir. Báðir voru mjög áhugaverðir. Ég vann ein fyrir jól og tók þá fyrir ítalska leikstjórann Federico Fellini. Ég valdi hann því að stuttu áður en við fengum listann horfði ég á mynd með mömmu, Under the Tuscan Sun og þar var persóna sem talaði alltaf um Fefe - Federico Fellini og sagði að hann hafi uppgvötað hana, en hún var að mörgu leyti lík Anitu Ekberg úr La Dolce Vita eftir Fellini. Það sem ég vissi ekki var hversu frábær Fellini í rauninni var. La Strada sem ég horfði á fyrir fyrirlesturinn hefur orðið ein af mínum uppáhalds myndum og ég ætla að finna hana úti á Ítalíu í sumar. Fellini gaf mér líka hugmyndina að því að skrifa niður drauma og nota þá í handrit sem mér finnst vera snilld, því að hvenær er ímyndaraflið á jafn miklum styrk og þegar maður sefur? Seinni fyrirlesturinn gerði ég með Jóhönnu og við gerðum Bollywood. Fyrir hafði ég bara séð svokallaðar Bollywood-Hollywood myndir þar sem báðum heimum er skellt saman og myndirnar eru mjög vestrænar. Bride & Prejudice (svoleiðis mynd) er t.d. ein af mínum uppáhalds og ég kann hana alveg utan af. En Bollywood myndirnar eru allt öðruvísi og ég gjörsamlega féll fyrir stílnum. Þar sem ég er forfallið söngleikjafrík og rómantíker, þá eru svona myndir gjörsamlega fyrir mig. Eina er að þær eru rosalega langar en æðislegar og ef að ég hefði haft meiri tíma hefði ég líklegast horft á allar en MR er krefjandi skóli og ekki tími til alls því miður. Veistu nokkuð hvar er hægt að nálgast fleiri Bollywood myndir?

Mér finnst að það hefði mátt byrja aðeins fyrr á kvikmyndasögunni til þess að skilja myndirnar sem við sáum fyrir jól. Klippitímarnir voru mjög góðir og áhugaverðir og fræðandi en það hefði mátt fara aðeins betur í eitthvað svipað og þessi blessuðu 40% af prófinu. Við gerðum þetta við A Piece of Apple Pie en ég vissi aldrei hvort það hafi verið rétt gert eða ekki, og það hefði mátt taka aðeins meiri tíma í það. Einnig hefði verið gott að taka smá test öðru hvoru, því að ég fann fyrir stúdentsprófið að ég hafði ekki hugmynd við hverju ætti að búast.

Ég hef alltaf vitað að ég vildi vinna við kvikmyndagerð en aldrei við hvaða hluta þess. Á námskeiðinu í vetur tókst mér að finna það út. Þegar við fórum í handritahlutann fann ég hvað mér fannst gaman að skrifa handrit og ég vildi að maður hefði haft meira tíma utan skóla til þess að vinna í því en það var of mikið að gera en ég ætla að halda bókunum og læra meira um handrit og reyna að lesa fleiri handrit og horfa síðan á myndirnar (10 bls - 10 mín eins og æfingin). Ég er búin að sækja um í Kvikmyndaskóla Íslands við handritaskrif og leikstjórnun en það kemur í ljós hvort ég kemst inn, vona það allavega.
En ég vil þakka fyrir frábært námskeið sem ég sé sko alls ekki eftir að hafa valið að hafa farið í. Það opnaði gjörsamlega fyrir mér heim kvikmynda og núna þegar ég fer í bíó kemst ég ekki hjá því að skoða klippingu og ýmiss önnur smáatriði. Smekkurinn minn hefur líka víkkað og ég er opnari fyrir því að skoða hinar ótrúlegustu myndir.

Takk fyrir mig,
Anna Björg

2 comments:

Siggi Palli said...

Takk sömuleiðis.

Og takk fyrir ábendingarnar.

Varðandi tímasetninguna á kvikmyndasögunni þá reyndi ég í fyrra að hafa kvikmyndasöguna fyrst, og myndi helst hafa viljað halda því áfram, en það bara gengur ekki alveg upp. Maður verður að nota tímann í upphafi til þess að undirbúa verklegu þættina, og það er einfaldlega ekki nógu mikill tími til þess að gera allt sem maður vill gera.

Varðandi Bollywood-myndir, þá náði ég í þessar á bwtorrents.com. Sú síða er því miður lokuð, og ég hef engin invite á hana. Hins vegar er hægt að kaupa aðgang fyrir $10 (þannig komst ég inn).

Líst vel á þig að ætla í Kvikmyndaskólann og vona sannarlega að þér gangi vel. Takk fyrir veturinn.

Siggi Palli said...

8 stig.

Bloggeinkunn á vori: 10

Lokaloka bloggeinkunn: 10