Wednesday, October 29, 2008

The House Bunny




The House Bunny

Eins og dyggum áhugamanni um stelpumyndir þá skellti ég mér á The House Bunny. Hún fjallar um Shelley 27 ára Playboy kanínu. Á afmælisdeginum hennar sendir Hugh Hefner (sem kemur sjálfur fram í myndinni) henni bréf og segir að hún sé orðin of gömul til þess að vera kanína og rekur hana burt frá setrinu. Hún verður því að fá sér alvöru vinnu í fyrsta skipti á ævinni. Hún verður “húsmóðir” hjá frekar misheppnðum stelpum sem búa í niðurníddu húsi í grísku röðinni í amerískum háskóla. Þær eru á leiðinni að missa húsið sitt ef þær fá ekki fleiri beiðnir um að koma inn í húsið. (Svolítið Revenge of the Nerds fílingur í þessu). En Shelley ákveður að hjálpa þeim að verða vinsælli. Um leið hjálpa þær henna að verða betri manneskja.

Þetta er hin venjulega ameríska háskóla grískra raða saga. Hús sem er í hættu á að vera lokað vegna óvinsælda. Þá kemur einhver þangað sem hjálpar því að komast á réttan kjöl. Síðasta dæmið sem ég man eftir að hafa séð er myndin She’s the man, þar sem söguþráðurinn er nánast sá sami og í The house bunny fyrir utan að þar er stelpa að hjálpa svona frekar misheppnuðum strákum.

Gríska kerfið þarna úti gengur greinilega mikið út á vinsældir og er það efni í margar svona “teen” bíómyndir. Þetta er líklegast efni sem mun aldrei verða óvinsælt og ekki verða hætt að fjalla um það í nánustu framtíð. Ég get svona rétt ímyndað mér það sé draumur margra ungra áhorfenda vestanhafs að þegar þeir fari í háskóla geti þeir komist inn í vinsælt bræðra- eða systralag. Í sumum svona myndum eins og til dæmis Skulls myndunum þá er bræðralagið gert að einhverju mysterious og spennandi, einhverju sem fólk vill geta orðið hluti af.

Ég horfði einu sinni á aukaefnið sem fylgdi myndinni Legally Blonde, en þessi mynd er einmitt eftir sama höfund. Þar kom fram tækni sem framleiðendur svona mynda nota og ég tók eftir þessu í The house bunny. Þar er notað bleikt ljós, sem er látið skína á aðalpersónuna til að gefa henni viðkunnanlegan blæ. Þannig virðist hárið á henni enn þá ljósara og allt virðist sætt og ánægjulegt. Ég tók líka eftir að í flest öllum senum sást í eitthvað bleikt hvort sem það var föt eða hlutir. Þessi tækni er víst oft notuð og það gæti verið ein skýringin á því hvers vegna svona myndir eru eins vinsælar og þær eru. Áhorfandanum finnst þær viðkunnalegar útaf því að bleiki liturinn róar taugarnar og þetta eru myndir sem þarf ekki mikið að pæla í.

Myndin var mjög fyndin og skemmtileg en skildi alls ekkert eftir sig. Fyrri hlutinn var mikið betri en sá seinni. Það var svoldið eins og höfundarnir væru að skella öllum bröndurunum í fyrri hlutann og létu síðan allt það alvarlega koma fram í þeim seinni. Í hléinu var ég komin með illt í magann ég hló svo mikið eins og allir í salnum líka. Þar kom aðalpersónan Shelley með alla ljóskubrandarana sína og vitleysishátt. En í seinni hlutanum þá var stöku ha ha sem heyrðist. Því að þá var hún að læra að verða „gáfaðari“ til þess að heilla draumaprinsinn (Colin Hanks). Boðskapurinn (ef það var einhver) var sá að þó svo að þú getir aflað þér vinsældum með góðu útliti þá er alltaf best að vera trúr sjálfum sér. Eitt af því skemmtilega í myndinni var að fylgjast með Hugh Hefner að leika, sem að kom ekki vel út en það var hins vegar mjög fyndið. Þegar ég labbaði útúr bíóinu þá var bros á andlitinu og ég hugsaði lítið sem ekkert um það sem hafði gerst í myndini. Þetta er ágætis mynd til þess að horfa á og gleyma áhyggjunum í gervi Hollywood.

Að lokum er skemmtilegt gullkorn sem Shelly lét út úr sér (í fyrri hlutanum):

Shelley: The eyes are the nipples of the face.

Official síðan fyrir áhugasama : http://www.thehousebunny.com/

Monday, October 27, 2008

The Cats of Mirikitani


Heimildamyndin The Cats of Mirikitani kom mér rosalega á óvart. Ég var ekkert búin að búa mig undir neitt sérstakt en hélt að þetta yrði bara heimildamynd um heimilislausan málara. En myndin kom mér í opna skjöldu, nálægðin við Jimmy var svo persónuleg að strax á fyrstu mínútunum var ég byrjuð að finna til með honum og vona að lífið yrði aðeins auðveldara fyrir hann. Myndin er tekin upp á árunum 2001-2002 af Lindu Hattendorf. Hún býr í nágrenni við Jimmy Tsutomu Mirikitani heimilislausann málara. Hún hefur greinilega fengið leyfi hjá honum fyrir að gera mynd um hann því það kemur fram þegar hann segir að hann hafi haldið að hún myndi ekki koma þegar hún var aðeins sein. Eftir 11. september 2001 er mikil mengun vegna árásanna á tvíburaturnanna í hverfinu þeirra og Linda fær þess vegna Jimmy að koma og vera í íbúðinni hjá sér. Þar koma aðeins persónulegri skot af honum, þar sem hann er annað hvort að syngja, mála eða horfa á sjónvarpið. Það var mjög áhugavert hve oft kötturinn hennar Lindu var sýndur í mynd og ég tel að það gæti verið vegna ástar Jimmys á köttum. Áhorfandinn fær smátt og smátt að kynnast Jimmy sem hafði fæðst í Sacramento 1920 en flutt til Hiroshima þegar hann var þriggja ára og alist upp þar. Jimmy sagðist ekki hafa verið hermaður heldur listamaður, hann lagði mikla áherslu á að hann væri listamaður í myndinni. Hann fer til Bandaríkjanna í heimsókn til systur sinnar og fjölskyldu þegar hann er átján ára. Stærsta ástæða hans fyrir því að koma þangað var líka til þess að kynna list sína og verða algjörlega listmálari. En vegna stríðs Japanna og Bandaríkjanna var öllu fólki af japönskum uppruna skellt í búðir við Tule Lake. Það kom fram í myndinni að Jimmy málar mynd frá búðum á hverjum degi, þessi reynsla situr honum greinilega ofarlega í minni og hefur alltaf haft áhrif á hann. Hann hafði mjög mikið óbeit á bandarísku stjórninni því að hann hélt að þau hefðu tekið af honum borgararéttinn eins og var gert við Japananna á þessum tíma (en hann hafði aldrei fengið bréf um að hann hefði fengið hann aftur). Linda hjálpar honum að fá allar þessar upplýsingar sem hann hafði aldrei fengið áður. Hún hjálpar honum að eignast líf aftur, en hann hafði búið á götunni viss um að enginn skipti sér af því sem hafði gerst og vildi bara vera listamaður, sem hann svo fékk.
Mér fannst mjög áhugaverð og minnisverð sagan sem hann segir af hinum stráknum í búðunum sem líka elskaði ketti. Sá hafði dáið ungur og ætið fylgt Jimmy og beðið hann að teikna myndir af köttum fyrir sig. Þegar Jimmy fer á 60 ára reunion í búðunum á Tule Lake þá dreymir hann drenginn sem segist vera ánægður núna og fer frá honum.
Þetta var heimildamynd með sögumanni, Jimmy lýtur ekki beint í myndavélina en samt finnst mér eins og áhorfandinn sé mjög nálægt honum, kannski af því að oft er "zoom-að" inn að andlitinu á honum þegar hann sýnir mikil svipbrigði. Sérstaklega fannst mér þetta flott þegar hann var að tala við systur sína í fyrsta skipti í langan tíma. Það var greinilegt að minningarnar voru að togast á inni í honum.

Sunday, October 19, 2008

Riff: Sjálfsmynd norrænnar kvikmyndagerðar


Riff- viðburðurinn sem ég fór á var málþingið: Sjálfsmynd norrænnar kvikmyndagerðar. Vegna annríkis hef ég ekki getað hent þessu inn.

Þetta var alveg nett áhugavert eða allavega það sem skildi. Allt fór nefnilega fram á dönsku að beiðni þáttakanda, en glærurnar sem sýndar voru í byrjun voru á ensku þannig að ég þurfti að einbeita mér mjög mikið til að skilja hvað var verið að ræða hverju sinni, sérstaklega eftir að þær hættu að nota glærurnar. Það voru einungis konur að tala og einungis einn maður sat allt málþingið, eftir því sem ég sá.

Þær sem stjórnuðu málþinginu voru Paprika Steen, leikkona og leikstjóri frá Danmörku (hún var svona eiginlega “aðal” og talaði mest), Katrin Ottarsdóttir, kvikmyndagerðarmaður frá Færeyjum, Laufey Guðjónsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndastöðvar Íslands, Sif Gunnarsdóttir, starfsmaður höfuðborgarstofu, Ólöf Ýr Atladóttir , ferðamálastjóri og síðan var það Maríanna Friðjónsdóttir sem stjórnaði umræðunum en hún erstjórnarformaður KIKS/WIFT (Konur í kvikmyndum og sjónvarpi).

Í byrjun málþingsins voru settar fram þrjár spurningar:

1. Hver er ímynd norrænnar kvikmyndagerðar?

2. Eiga Norðurlöndin einhverja sameiginlega ímynd?

3. Er skýr samfélagsmynd í kvikmyndum markaðsvæn?

Ég heyrði/skildi bara svar Papriku við spurningu tvö hún sagði bara NEI! En það hefði líka getað verið við spurning þrjú, þar sem hún talaði mikið um það hvað norrænar kvikmyndir myndu aldrei “meika” það á alþjóðlegum markaði.

Fyrst kom fram nokkrar staðreyndir um danska kvikmyndmarkaðinn árið 2007.

Gefnar voru út:

· 27 innlendar myndir.

· 108 amerískar myndir.

· 17 “adult feature films” sem ég er ekki viss hvað er.

· 8 „feature“ myndir framleiddar fyrir ungt fólk.

· En að að meðaltali 216 m evra eytt/þénað

· 90 verðlaun á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum til danskra kvikmynda.

· 33% innkoman frá dönskum kvikmyndum kom frá öðrum löndum.

Síðan árið 1999 hafa 50% af dönskum kvikmyndum verið sýndar í öðrum löndum en einungis 19% amerískar á móti.

Danir tróna hæst yfir Skandinavíu (Ísland er ekki með í þessu) með mest áhorf á innlendar myndir í landinu.

· 26% Dana sjá danskar myndir í bíó

· 13% Norðmanna sjá norskar myndir í bíó

· 18% Finna sjá finnskar myndir í bíó

· 22% Svía sjá sænskar myndir í bíó

En Danir eru númer 2 á lista yfir þau lönd sem fara mest í bíó á innlendar myndar en Frakkland trónir efst á toppi með 37% þjóðarinnar.

Þó svo að Norðurlöndin/Skandinavía séu ólík lönd er reynsla útlendinga utan þessa svæðis svipuð á bíómyndunum. Útlendingar hugsa bara „skandinavískar“ kvikmyndir en á meðal Norðurlandabúa eru þetta myndir frá ólíkum löndum.

Nokkrir punktar sem ég náði að skilja alveg voru þessir (mest sagði hin danska Paprika Steen):

Rómantískar danskar myndir verða aldrei að blockbusters vegna tungumálaörðugleika, útlendingar heyra bara rugl.

Dönsk „mainstream mynd“ væri talin „arty“ í öðrum löndum

Ef Íslendingar gætu framleitt næstu/svipaða mynd og Die Hard mynd á íslensku væri það gott fyrir erlendan markað. En það myndi aldrei virka vegna þess að það eru svo margir ómenntaðir í útlöndum se heyra bara kaldhæðnislega „útlensku“.

Vandamálið með íslenskar barnamyndir er að foreldrar eru ekki nógu og duglegir að fara með krakkanna í bíó almennt.

Norðlenski markaðurinn er erfiður, sérstaklega fyrir lítið land eins og Ísland.

Í rauninni lærði ég ekki mikið af þessu málþingi annað en það að ég skil mikið meira í dönsku en ég hélt. Það var mest rætt um það hvers vegna myndir frá Norðulöndum ná aldrei frama.

Friday, October 10, 2008

Riff: Leonera (ljónagryfjan)


Seinni sýningin á Riff sem ég fór á var Ljónagryfjan. Þetta var mynd sem tekur á mjög umdeildu efni sem ekki hefur svo mikið verið fjallað um til dæmis er þetta ekki leyfilegt á Íslandi. Myndin gerist og er frá Argentínu.

Myndin fjallaði um Juliu unga konu sem sökuð um morð á ástmanni kærasta síns og fyrir árás á kærastann. Áhorfandinn fær aldrei að vita hvað gerist í raun og veru því að Juliu og kærastanum hennar ber ekki saman um söguna, þau kenna hvort öðru um. Julia er send í kvenna fangelsi og þar kemur í ljós að hún er ólétt og komin sirka 3 mánuði á leið. En fangelsið er með sér álmu fyrir mæður og í Argentínu er leyfilegt fyrir konur að ala upp barnið sitt í fangelsinu til 4 ára aldurs, en þá fer það til nánasta ættingja en ef það er enginn ættingi er barnið sent í ættleiðingu. Julia virðist vera mjög óstöðug og það er eins og hún vilji ekki eignast barnið í fyrstu. Hún segir einnig að barnið sé sonur dauða ástmanns kærasta hennar. En Marta, fanginn í næsta klefa kvetur hana til að eiga barnið því að það sé miklu betra að vera í "mömmu fanglesinu". Julia ákvðeur því að eignast barnið Thomas, vill ala það upp í fangelsinu. En hún er ekki búin að fá dóm og segist vera saklaus. Mamma hennar hins vegar bjó í Frakklandi en flytur til Argentínu vegna málsins, hún vill ala Thomas upp fyrir utan fangelsið. Myndin er í raun togstreitan milli Juliu og mömmu hennar.

Þetta var mjög átakanleg mynd um efni sem tengist Íslandi lítið. Ég hafði í rauninni ekki pælt í því að börn gætu verið með mæðrum sínum í fangelsum. Það eru tvær hliðar á þessu máli og það er erfitt að dæma um hvor þeirra er rétt. Á barn alltaf rétt á að alast upp með móður sinni þó svo að það gæti reynst hættulegt uppeldi og umhverfi. Eða ætti barnið að fá að alast upp hjá ömmu sinni í nokkuð "venjulegu" umhverfi þar sem það gæti farið í leikskola og eignast vini. Þetta var mjög spennandi mynd á köflum en líka mjög langdregin, myndatakan var nokkuð dökk og þunglyndisleg mest allan tímann.

Monday, October 6, 2008

Riff: Story of Stuff / Stone Silence

Story of Stuff


Ég skellti mér á sýningu sem innihélt tvær fremur stuttar heimildarmyndir og mjög ólíkar.

Fyrst var sýnd Story of Stuff. Hún var í rauninni um endurvinnslu hluta og það hve mikið af því sem er keypt er hent aftur stuttu seinna. Mér fannst þessi mynd vera fyrir amerískan markað og svoldið eins og kennslumyndband fyrir börn. Allt var teiknað með "óla prik" köllum og síðan var konan Annie Leonard klippt inn á skjáinn. Hún var sögumaðurinn og einnig hugmyndasmiðurinn. Allt það sem koma fram í myndinni voru þankar hennar. Þessi mynd var ekkert fræðandi fyrir mig. Það var í rauninni eins og konan léti eins og hún hafi aldrei heyrt um endurvinnslu og hve mikið amerískur markaður neytir á hverju ári. Á heildina myndi ég segja að þessi mynd væri einfölduð barnafræðsla um endurvinnslu, neyslu og úrgangsefni.
En hérna er annars heimasíða þessarar konur og myndar: http://storyofstuff.com/

Stone Silence

Seinni myndin sem var sýnd fannst mér ögn áhugaverðari. Þar var fjallað um sögu 29 ára gamallar íranskar konu sem talin er hafa verið grýtt til bana árið 2005. Amina bjó í Afganistan og var þvinguð til hjónabands eins og mikið er um konur þar, hjónabandið var ekki gott, maðurinn hennar var til að mynda ekki heima sex mánuði í senn á meðan hann var að vinna. En einn daginn kemur mamma stráks sem vann á heimili foreldra að Aminu í herbergi sonar síns, stundum í myndinni sagði hún þau hafa verið í rúminu og lét sækja foreldranna hennar en á leiðinni heim er Amina sögð fá hjartaáfall og hafa dáið. Talað var við fjölskyldu hennar og fjölskyldu stráksins. Myndin var textuð en hún var annars öll á írönsku. Það hefur greinilega tekið ágætlega langan tíma að taka upp myndina því að pabbarnir fóru báðir í fangelsi út af því að börnin hefðu framið hjúskaparbrot en strákurinn lét sig "hverfa". Mörg viðtölin í myndinni við aðilana voru mjög þvinguð og það sást að fólkið var ekki að segja allt sem skipti máli. En þegar liðið er á myndinna sést að kvikmyndagerðarmennirnir þykjast hafa slökkt á myndavélunum en taka upp persónuleg samtöl, þar sem kemur í ljós að strákurinn hafi ekki látið sig hverfa að fúsum vilja, hann hafði verið illa barinn. Hann kemur fram í myndinni og segir að Amina hafi bara viljað spjalla. Málið um hvort að Amina hafi í raun verið grýtt til bana eða ekki mun líklegast aldrei vera leyst. En í Afganistan telst það ekki framhjáhald nema að að minnsta kosti fjórar manneskjur verði vitni af því og einnig er það ólöglegt að grýta manneskju til bana nema að 4 manneskjur séu líka viðstaddar það, helst þær sömu og sáu framhjáhaldið. Það komu réttarlæknar frá borginni (myndin gerist upp í sveit) og kryfja líkið og segja að hún hafi kafnað en ekki verið grýtt, samt er alltaf talað um að hún hafi fengið hjartaáfall. En dómarinn í málinu vill sjá sannleikann en lögrelgan er alltaf að kveða málið niður og ekkert er gengið á að fólk verði sakfellt.

Mér fannst þessi mynd mjög fræðandi og átakanleg. Heimurinn sem konur búa við þarna er hræðilegur, ég sá hvað maður lifar í vernduðum heimi. Hún fór frá heimilinu því að pabbi hennar hafði sagt eitthvað við hana eða lamið (svo skildist mér) og leitað huggunar hjá vini sínum, kannski ástmanni. Eitt það átakanlegasta í myndinni fannst mér vera viðbrögð mömmu Aminu, hún var alveg brjáluð yfir þessu þó svo að myndin er gerð meira en ári eftir að þetta gerðist. Hún sagði að ef Amina hefði ekki fengið "hjartaáfallið" á leiðinni hefði hún drepið hana sjálf eða drepið sjálfa sig úr skömm. Skömm var komin yfir báðar ættirnar og allir voru bitrir. Til að mynda strákurinn Karim (vinurinn/ástmaðurinn) sá ekki fram á að geta gifst og fengið vinnu nema með bröguðm. Foreldrar hans þurftu að flýja vegna ofsókna og ofbeldis. Það eina sem ég hefði viljað vita er hvort hún hafi í raun verið grýtt eða kyrkt.