Thursday, December 4, 2008

Mamma Mia vs. Hairspray



Bæði í fyrra og í ár voru gefnar út tvær söngleikjamyndir en báðir söngleikirnir hafa verið vinsæl á sviði. Það er ekki alltaf sem það virkar að flytja efni frá sviði og á hvíta tjaldið en í þessum tveim tilfellum tókst það vel upp. Þessar tvær myndir eiga lítið sameiginlegt fyrir utan kjánalegheitin og skemmtilega tónlist. Sem einlægur aðdáandi söngleikja á ég þær báðar til heima og fór oftar en einu sinni á hvora.

Hairspray (2007)

Árið er 1962 í Baltimore og heimurinn er á barmi breytingar. Tracy Turnblad, þybbin unglingstúlka sér fram á þessar breytingar. Á þessum tímum var mikið rasisma og aðskilnaðarstefna var við lýði á skemmtunum og í skóla og almennt. En uppáhalds sjónvarpsþáttur Tracy er The Corny Collins Show þáttur sem hún horfir á, á hverjum degi. Þetta er svona dans- og söngvaþáttur og hennar heitasti draumur er að dansa og syngja í þættinum. Einu sinni í mánuði er „Negro Day“ þar sem allir dansarnir eru svartir á hörund og einnig kynnirinn. Þessir dagar eru uppáhaldsdagurinn hennar og óskar að „Every day was Negro Day“. Draumur hennar virðist ætla að verða að veruleika þegar pláss losnar í The Corny Collins Show og opin áhorfendpróf eru haldin. Tracy fer ásamt bestu vinkonu sinni Penny í áhorfendaprufuna, en hún er rökkuð niður vegna útlitsins. Hún skrópar í skólanum til þess að fara og er því send í eftirsetu (en þar eru bara svartir krakkar). Fyrst þá er hún hikandi að tala við þau en dregst af lífgleði þeirra þar sem þau eru að dansa og syngja. Meðan hún er þarna inni tekur einn af dönsurnum í þættinum eftir henni og segir henni að dansa svona á næsta balli því að þar verði Corny Collins D.J. Hún fer að ráðum hans, fær lánaðan dans hjá Seaweed (nýja svarta vini sínum) og Corny líst svo vel á hana og setur hana í þáttinn. Þetta á eftir að draga dilk á eftir sér og Tracy og hennar lífsglaða skap kemur henni í bobba áður en líður á löngu.

Mér finnst þetta yndisleg mynd og skemmti mér alltaf konunglega yfir henni. Ég sá upprunalegu myndina einu sinni (gerð 1988, söngleikurinn sem var settur upp var byggður á henni) og þessi er hundrað sinnum betri. Það gæti verið út af því að þessi gamla var mjög gróf í rasismanum og bara dekkri öll. Nýja hins vegar er full af björtum litum og góðum boðskap sem að fyrirfinnst ekki í þeirri gömlu. Aðalboðskapurinn er að vara maður sjálfur og taka ekki mark á þeim sem vilja berja mann niður. Þarna er líka tekið á því mikla kynþáttarhatri sem var að breytast en margir voru hræddir við. John Travolta er þarna í dragi og gerir það nokkuð vel fyrir utan að þegar hann syngur heyrir maður í Danny Zuko en ekki konu. Hann og Christopher Walken leika foreldra Tracy og eru snilldarpar. Það kom mér rosalega á óvart hvað Christopher Walken getur verið skemmtilegur karakter og fyndin, hef eiginlega bara séð hann í alvarlegum myndum eða sem einhvern glæpon.

Tónlistin í Hairspray er algjörlega í réttum tíðaranda eins konar rokk/blús og algjörleg danstónlist. Dansatriðin eru líka rosalega flott sérstaklega þau sem Seaweed dansar eru ótrúleg, ég fer alltaf ósjálfrátt að dilla mér með. Gerði það meðal annars í bíó ekki við góðar undirtektir samferðamanna minna.

Hairspray er nokkuð kjánaleg á stundum en þetta er mynd sem maður á ekki að horfa á með gagnrýnu auga heldur leyfa bara augunum og eyrunum að njóta og heilanum að slaka á. Sem ég hugsa að sé tilgangur myndarinnar.

Trailerinn: http://www.youtube.com/watch?v=A9MgeFFjHlk

Mamma Mia (2008)

Nýrri myndin af þessum tveimur. Hún gerist á tæpum tveimur dögum á Grikklandi. Sophie er að fara að gifta sig og vill endilega að pabbi sinn muni leiða sig að altarinu. En vandamálið er að Donna mamma hennar hefur aldrei sagt henni meira en að pabbi hennar hafi verið farin úr landi áður en hún vissi að hún væri ólétt af Sophie. En Sophie finnur dagbók mömmu sinnar frá árinu sem hún kom undir og les hana. Þar finnur hún út að hún á þrjá mögulega feður. Hún ákveður að bjóða þeim öllum í brúðkaupið og heldur að hún muni þekkja raunverulega pabba sinn um leið og hún sér hann. Mamma hennar veit ekkert um þetta og verður að vonum mjög brugðið þegar allir birtast daginn fyrir brúðkaupið. Hluti af því af hverju Sophie vill finna pabba sinn er að henni finnst vanta hluta í sig. En feðurnir þrír vita ekkert og halda að Donna hafi boðið þeim í brúðkaup dóttur sinnar. Málin flækjast þegar þeir halda allir að þeir séu pabbar Sophie og vilja allir leiða hana upp að altarinu. Við þetta blandast lög ABBA snilldarlega.

Þessa mynda þarf reyndar aðeins að kæla, vinsældir hennar fóru aðeins fram úr sér og gerðu hana ekki eins spennandi. ABBA lögin hafa tekið þvílíkt kast og núna eru endurgefnir ABBA diskar og singstar leikir. Þegar ég fór á Mamma Mia á var þetta ekki orðið að þessu brjálæði sem það er í dag. Ég er alin upp í ABBA tónlist af mömmu minni þannig að fyrir mér var þetta bara skemmtilegri útgáfur af upprunalegu lögunum. Mér fannst líka sniðugt að þeim sem bjuggu til myndina að þeir fengu Benny Anderson og Björn Ulvaeus úr ABBA til þess að mixa tónlistina og útsetja upp á nýtt. Þeir sjást líka báðir í litlum atriðum í myndinni

Mér fannst þetta bara mjög svo skemmtileg mynd og svo yndislega kjánaleg. Í hvert skipti sem Pierce Brosnan opnaði munninn og byrjaði að syngja og dansa, í rauninni rembast þá sprakk salurinn og kjánahrollur fór um mann. Meryl Streep á samt í raunninni myndina, hún er snilldar leikona í öllu sem hún leikur og þarna leikur hún sjálfstæða hippamömmu og lítur frábærlega út þó svo að hún sé ekki unglamb. En ég er hlutPierce Brosnan samþykkti að taka þátt í Mamma Mia því að hún væri í henni, þá vissi hann ekki að þetta væri söngleikjamynd. Það gæti útskýrt frammistæðu hans í þeim atriðum. Þetta er algjör hippamynd og líkt og Hairspray ekki til þess að hugsa um eftir að myndin er búin, bara vera í góða skapinu sem hún skilur eftir sig.

Trailerinn: http://www.youtube.com/watch?v=FKx_14vJNZg


Samanburður

Þetta eru tvær mjög ólíkar myndir. Það er líklegast út af því að þær gerast á sitthvorum tímum. Þó svo að mér finnist Mamma Mia betri þá er Hairspray sniðugri til þess að horfa á núna vegna þess hvernig er búið að láta með hina. Þetta hefur farið svo mikið út í öfgar að hún er lítið spennandi. Báðar skilja þær lítið sem ekkert eftir sig nema bros á vör og söngl í höfðinu. Báðar eru einnig með frábæra leikara í flestum hornum. En spurningin er hvort maður vill sjá Danny Zuko syngja í dragi eða fyrrum James Bond rembast við að syngja og dansa?