Monday, March 30, 2009

The Brat Pack og nokkrar af myndunum þeirra.

“The Brat Pack” er nafn sem var oft talað um á hópi ungra leikara sem léku í unglingamyndum uppúr 1980. Hérna fyrir neðan ætla ég aðeins að fjalla um meðlimi hópsins og síðan fjórar af þeim myndum sem teljast vera hluti af myndum hópsins, þær fjórar sem ég hef séð.

Leikararnir sem teljast til hópsins voru allir í myndunum The Breakfast Club eða í St. Elmos Fire
og eiga það sameiginlegt að teljast sem unglingastjörnur. En margar aðrar myndir innihalda tvo eða fleiri meðlimi.

Hópinn skipa:


Molly Ringwald: Ein af mínum uppáhalds leikkonum (í þessum þremur myndum sem koma fram að neðan). Hún lék í The Breakfast Club og öðrum myndum leikstýrðum af John Huges. Í Breakfast Club leikur hún Claire “the princess”, mjög sjálfumglaða pabbastelpu. Hún leikur einnig í einni af minni uppáhaldsmynd (leikstýrð af John Huges) Pretty in Pink. Hún hafnaði aðalhlutverkunum í Pretty Woman og Ghost og í John Huges myndinni Some Kind of Wonderful, og þar með hætti samstarf þeirra. Hún lék lítið hlutverk í Not Another Teen Movie, sem gerir einmitt grín af nokkrum mynda hennar. Annars er hennar nýjasta hlutverk sem mamman í þáttunum The Secret Life of The American Teenager.


Emilio Estevez: Elsti sonur Martin Sheen og Janet Sheen og bróðir Charlies Sheen. Hann lék í bæði The Breakfast Club og í St. Elmos Fire. Í The Breakfast Club leikur Emilio Andrew, “the jock” tilfinningaríkan unglingstrák sem stundar íþróttir útaf því að pabbi hans vill það. Í St. Elmos Fire leikur hann Kirby Keger, mann sem varð rosalega ástfanginn af kennaranum sínum í skóla að hann fer og leitar af henni og reynir allt sem hann getur til þess að ná henni. Þess má geta að Emilio lék í myndunum Young Guns I & II og að hann var einnu sinni giftur Paulu Abdul.


Anthony Michael Hall: Lék í The Breakfast Club, þar lék hann Brian, “the brain”, gáfaðan strák sem finnur mikið fyrir stressi yfir því að fá góðar einkunnir. Hann lék einnig í myndinni Sixteen Candles ásamt Molly Ringwald. Þar lék hann “Farmer Ted” mjög misheppnaðan strák sem vill ekkert meira en að vera “kúl” og með stelpu. Hann leikur aðalhlutverkið í The Dead Zone, sem voru nokkuð vinsælir þættir á Skjá einum. Hann var einnig yngsti meðlimur Saturday Night live, þegar hann var 17 ára en eins og unglingastjörnu hæfir þá var hann bara eina seríu þar sem hann varð að fara í meðferð.


Rob Lowe: Lék í St. Elmos Fire, þar lék hann Billy Hicks, sem er nokkurs konar “vondi strákurinn” í myndinni. Hann verður pabbi ungur og virðist alveg sama um það en hann er meyr inni við beinið. Hann lék í einni Austin Powers mynd (The Spy Who Shagged Me) og síðan hefur hann verið áberandi upp á síðkastið í þáttunum Brothers and Sisters þar sem hann leikur eitt af aðalhlutverkunum. Hann lék einnig í West Wing.


Andrew McCarthy: Í St.Elmos Fire leikur hann Kevin, rithöfund með ritstíflu sem er ástfanginn af kærustu besta vinar síns. Hann leikur einnig með Molly Ringwald í myndinni Pretty in Pink, þar sem hann leikur vinsæla strákinn Blane sem er hrifinn af stelpu sem er frá “the other side of the tracks”. Andrew McCarty hefur að mínu mati ekkert verið neitt sérstaklega áberandi, en ég tók hinsvegar eftir honum í nýju Brooke Shields þáttunum, Lipstick Jungle sem núna er þó búið að hætta við.


Demi Moore: Líklega ein sú þekktasta úr hópnum. Hún lék Jules í St. Elmos Fire, Jules er kókaín fíkill og þarfnast mikillar aðstoðar frá vinum sínum. Demi Moore var sjálf í eiturlyfjum á þessum tíma og þurfti að skrifa undir samning að hún yrði að hætta því til að leika í myndinni, samningur sem hélt henni hreinni eftir það. Það þarf vart að kynna myndir sem hún hefur leikið í. Myndir sem ég hef séð eru t.d. Ghost og Charlies Angels: Full Throttle. Hún var gift Bruce Willis en núna er hún hamingjusamlega gift yngri manni, Ashton Kutcher. Þess má geta að alvöru nafnið hennar er Demetria Gene Guynes.


Judd Nelson: Lék í báðum myndunum. Í St. Elmos Fire lék hann Alec, upprennandi indælan stjórnmálamann sem hefur þó sitthvað gruggugt í pokahorninu, hann er trúlofaður einni af bestu vinkonu sinni en heldur samt framhjá henni hægri vinstri. Í Breakfast Club leikur hann Bender, “the criminal”. Hann er svona “the ultimate bad boy” unglingamyndanna, miklu verri en Billy Hicks í St. Elmos Fire. Hann er í eftirsetu til frambúðar og algjörlega sama um allt og gerir það sem hann vill. Ég kannaðist ekki við fleiri myndir með honum, þegar ég skoðaði hann á imdb, en þar sem hann er að leika í 8 komandi myndum, get ég ímyndað mér að hann sé nokkuð vinsæll enn þann dag í dag.


Ally Sheedy: Lék einnig í báðum myndunum. Í St. Elmos Fire lék hún Leslie, kærustu Alecs. Hún veit ekki alveg hvað hún vill í lífinu og stendur á einhverskonar krossgötum í lífinu. Í Breakfast Club leikur hún Allison, “the basket case”; stelpu sem virðist algjörlega geðveik eða allavega mjög rugluð í hausnum. Hún er í eftirsetu útaf því að hún hafði ekkert betra að gera.



Síðan telst Mare Winningham líka til hópsins en hún hefur sjálf neitað að hafa verið unglingastjarna. Hún er elsti meðlimurinn en hún lék í St. Elmos Fire, þar lék hún saklausu stelpuna, Wendy, sem vill hjálpa fólki og er rosalega skotin í Billy, slæma stráknum og trúir því að hann geti verið góður. Hún lék aukahlutverk í Grey's Anatomy, þar lék hún mömmu aðalpersónunnar.


Hérna er síðan stutt umfjöllun um myndirnar sem ég vitnaði í hér að ofan.


The Breakfast Club (1985)

Fimm ólíkir nemar sem hafa lítið sem ekkert sameiginlegt lenda saman í eftursetu á laugardegi. Skólastjórinn sem situr yfir þeim skipar þeim að skrifa ritgerð “Who do you think you are!” Hann skipar einnig algjörri þögn og fer yfir á skrifstofuna sína. Enginn talar í byrjun eftirsetunnar en eftir því sem líður á daginn komast þau af því að þau eiga meira sameiginlegt en þau héldur. Þarna eru komin saman helstu stereo týpur allra “high schools” í Ameríku; íþróttastrákinn (the jock), sætu stelpuna í næsta húsi (the princess), gáfaða nördann (the brain), stelpan sem dansar við sinn eigin takt (the basket case) og töffarinn (the criminal).

Þetta er ósköp sæt “high school” mynd um unglinga sem eru að finna sig í lífinu. Það er alveg heilt atriði yfirfært úr Breakfast Club í Not Another Teen Movie, en það er eftirsetuatriðið, bókasafnið er til að mynda næstum því alveg eins útlítandi að innan, þ.e. þar sem eftirsetan fer fram.


Trailer: http://www.youtube.com/watch?v=jbce_lytBac

St. Elmo's Fire (1985)

Mynd fyrir aðeins eldri markhóp. Myndin fjallar um 7 vini, nýútskrifaða úr háskóla en þetta er í rauninni eins og margar smásögur fléttaðar saman í eina. Þarna er parið sem virðist í fyrstu vera þvílíkt hamingjusamt en eitthvað liggur í loftinu. Besti vinur parsins, rithöfundurinn með ritstíflu sem gerir sér grein fyrir því að hann sé ástfanginn af kærsutu besta vinar síns. Saklausa stelpan sem vill gera allt fyrir alla en gleymir sjálfri sér. Hún heldur að hún geti breytt “slæma stráknum í góðann” (sem er mjög algengt meðal kvenna) hann er hins vegar giftur og faðir en hegðar sér eins og hann vill og pælir lítið sem ekkert í afleiðingunum. Síðan hin fallega stelpa sem hefur læðst inn í heim eiturlyfjanna. En St.Elmo er staðurinn sem þau hanga alltaf saman á, einskonar Central Perk ein og er í Friends.

Þessi mynd er aðeins meira á alvarlegri nótunum en hinar, þar sem hérna er í rauninni farið i margar af áhyggjum ungs fólks á þessum aldri. Það sem þessir vinir eiga sameiginlegt er að hafa verið í sama háskólanum en annars eru þau mjög ólík.

Trailer: http://www.youtube.com/watch?v=fIqUC0M8c4M




Sixteen Candles (1984)

Samantha á 16 ára afmæli, nema hvað að fjölskyldan hennar virðist hafa gleymt því þar sem systir hennar ætlar að gifta sig daginn eftir. Þannig að þessi merki áfangi í lífi hennar verður allt annað en góður. Hún er hrifin af vinsælasta gæjanum í skólanum og mesti nördinn í skólanum er hrifin af henni. Fyrir misskilning fær vinsælasti gæjinn miða sem átti að fara til vinkonu hennar þar sem hún játar ást sína á honum.
Inn í myndina koma tvö sett af vandræðalegum afa og ömmu og með öðru settinu er kínverskur skiptinemi, Long Duck Dong sem setur mjög skemmtilegan svip á myndina.

Þetta er alveg æðisleg mynd og krúttleg. Hún fjallar í rauninni ekki um neitt sérstakt og lítið gerist en það er eitthvað við hana sem hrífur mig. Þetta er líka mynd þar sem maður þarf ekkert að nota heilann og lítið að pæla í því sem er að gerast og eins og aðrar unglingarmyndir endar hún vel.

Trailer: http://www.youtube.com/watch?v=-_VTSzBwLD4




Pretty in Pink (1986)

Mynd sem kemur einnig fram á topp 10 listanum mínum. Þetta er yndisleg mynd sem fjallar um Andie, stelpu sem kemur frá “the rong side of the track” en hún er sjálfstæð og lifir sínu lífi án þess að spá í því hvað öðrum finnst. Besti vinur hennar, Duckie (leikinn af Jon Cryer úr Two and Half Man) er skotin í henni en hún tekur ekki eftir því. Hún vinnur í plötubúð fyrir mjög skemmtilegan karakter, Ionu, konu sem er alltaf að breyta um persónuleika eftir mönnunum sem hún fer út með. Vinsæll strákur að nafni Blane byrjar að ganga á eftir henni með grasið í skónum og Andie er nokkuð hrifin af honum á móti en þau mæta mótstöðu frá vinum sínum. Sérstaklega Stef (James Spader úr Boston Legal) vini Blanes.

Not Another Teen Movie er líka frekar mikið byggð á þessari mynd, vinsæli strákurinn og stelpan sem er undir í samfélaginu, klikkaði vinur hennar sem reynir hvað hann getur til þess að ná henni en víkur undan “sönnu ástinni”. Ég keypti þess mynd fyrir tilviljun í Danmörku og það eru sko kaup sem ég sé ekki eftir. Ein af þessum stelpumyndum sem skilja eftir bros á vör og gott skap.

Trailer: http://www.youtube.com/watch?v=tcSMDqXT52s



Seinna töldust fleiri meðlimur í "the brat pack" en þetta voru hinir upprunalegu. Á síðunni :

http://en.wikipedia.org/wiki/Brat_Pack_(movies)

er hægt að finna meiri upplýsingar um meðlimina og myndirnar sem þeir tóku þátt í.

1 comment:

Siggi Palli said...

Fín færsla. 9 stig.