Tuesday, November 11, 2008

Triumph des Willens




Þegar ég byrjaði að horfa á myndina var ég ekki viss hvað ég væri í raun að fara að horfa á annað en heimildamynd um heimsókn Hitlers til Nüremburg. En eftir sirka fimm mínútur ákvað ég að fletta myndinni upp á imdb.com og þar sá ég að Hitler hafði svona eiginlega gefið hana út. Það útskýrði ýmislegt. Eiginlega strax í byrjun tók ég eftir því hve jákvæð mynd var sýnd af Hitler og hans mönnum. Til dæmis þegar unga stúlkan gefur Hitler blóm, þegar ég var komin inn í myndina fór ég að pæla hvort að það gæti hafa verið sérstaklega sett upp fyrir myndavélina, þ.e. þær hafi í raun verið með blómin (eins og líklegast margir aðrir) og einhver hafi bent á að þetta gæti verið “smart move”. Þar sem þessi mynd var nú líklegast gerð til þess að sýna Hitler og hans menn í bjartara ljósi seinna meir. Þetta var svakaleg áróðursmynd.

Myndatakan og klippingin var frábær. Mjög svo vel unnin mynd þrátt fyrir myndefni sem er mér af skapi. Mér fannst þetta líka mjög vel gert miðað við að kvikmyndagerð var ekki komin mjög langt á veg á þessum árum. Nærmyndirnar voru mjög áhrifamiklar, það var sýnt agann og yfirvegun þeirra sem voru að hlusta. Sérstaklegag þá yfirvegun Hitlers, sama hvað mennirnir sem fluttu ræðurnar ósu yfir hann lofi og loforðum um að styðja hann, vinkaði hann bara hendinni af sínum stíl og rétt kinkaði kolli, ekki vitundarvottur af brosi það myndi ég segja að væri vottur um járn taugar bilaðs manns.

Mér var á stundum ofboðið, sérstaklega í atriðinu þegar Hitler er að „skoða“ ungu hermennina og svona kinka kolli eins og já þessi er fínn, og vera með þetta sick glott á andlitinu, í þessum hluta þurfti ég að taka nokkur breik frá því að horfa. Síðan tók ég eftir því að þegar það voru sýndar myndir af þessum ungu mönnum var oft einblínt á þá sem voru myndarlegri oft ljóshærðir eða mjög ljóst skolhærðir, ungum, sterkbyggðum mönnum. Síðan Hitler að tala um að þeir væru framtíðin.

Það var athyglisvert að sjá hvernig Hitler náði fjöldanum á vald sitt með ræðum sínum og áherslum. Mér fannst hann leggja mikla áherslu á stolt, þá að endurheimta stolt sem var tapað fyrir. Ég gæti ímyndað mér ef að maður vissi ekki heimsöguna og það sem gerðist nokkrum árum seinna af völdum Hitlers og hans manna að þá hefði þessi mynd verið mjög áhrifamikil. Til dæmis ef einhver hefði horft á hana c.a. ári eftir að hún var gerð, þá gæti sá hinn sami orðið hrifin af því sem kemur fram. Allir sem tala, tala af svo mikilli sannfæringu og trú á „Der Führer“ að það væri líklegast erfitt að trúa ekki á hann líka. Hann virtist bera þessu fólki svo mikla von um betra líf og betri tíma.

Þessir ráðherrar og doktorar og herforingjar sem töluðu virtust líka ná öllum vel á sitt band. Þeir voru svo innilega trúir og tryggir foringjanum sínum að það var óhugnalegt. Setningar eins og „flokkurinn er Hitler og Hitler er Þýskaland rétt eins og Þýskaland er Hitler“, voru eiginlega hrollvekjandi.

Ég geri mér grein fyrir því að skoðun mín á þessari mynd litast af því sem ég hef lært alla mína skólatíð, strax og maður lærði um seinni heimstyrjöldina lærði maður um Hitler og hversu vondur hann var. En þetta var rosaleg mynd sem fékk hugann til þess að fara á fulla ferð um það hvernig tímar þetta voru í raun og veru. Þar sem einn maður var dýrkaður svona mikið af mörgum. Hvert sem hann kom voru mörg þúsund manns bíðandi til þess að hlusta á hann tala eða líta hann augum.

1 comment: