Thursday, December 4, 2008

Mamma Mia vs. Hairspray



Bæði í fyrra og í ár voru gefnar út tvær söngleikjamyndir en báðir söngleikirnir hafa verið vinsæl á sviði. Það er ekki alltaf sem það virkar að flytja efni frá sviði og á hvíta tjaldið en í þessum tveim tilfellum tókst það vel upp. Þessar tvær myndir eiga lítið sameiginlegt fyrir utan kjánalegheitin og skemmtilega tónlist. Sem einlægur aðdáandi söngleikja á ég þær báðar til heima og fór oftar en einu sinni á hvora.

Hairspray (2007)

Árið er 1962 í Baltimore og heimurinn er á barmi breytingar. Tracy Turnblad, þybbin unglingstúlka sér fram á þessar breytingar. Á þessum tímum var mikið rasisma og aðskilnaðarstefna var við lýði á skemmtunum og í skóla og almennt. En uppáhalds sjónvarpsþáttur Tracy er The Corny Collins Show þáttur sem hún horfir á, á hverjum degi. Þetta er svona dans- og söngvaþáttur og hennar heitasti draumur er að dansa og syngja í þættinum. Einu sinni í mánuði er „Negro Day“ þar sem allir dansarnir eru svartir á hörund og einnig kynnirinn. Þessir dagar eru uppáhaldsdagurinn hennar og óskar að „Every day was Negro Day“. Draumur hennar virðist ætla að verða að veruleika þegar pláss losnar í The Corny Collins Show og opin áhorfendpróf eru haldin. Tracy fer ásamt bestu vinkonu sinni Penny í áhorfendaprufuna, en hún er rökkuð niður vegna útlitsins. Hún skrópar í skólanum til þess að fara og er því send í eftirsetu (en þar eru bara svartir krakkar). Fyrst þá er hún hikandi að tala við þau en dregst af lífgleði þeirra þar sem þau eru að dansa og syngja. Meðan hún er þarna inni tekur einn af dönsurnum í þættinum eftir henni og segir henni að dansa svona á næsta balli því að þar verði Corny Collins D.J. Hún fer að ráðum hans, fær lánaðan dans hjá Seaweed (nýja svarta vini sínum) og Corny líst svo vel á hana og setur hana í þáttinn. Þetta á eftir að draga dilk á eftir sér og Tracy og hennar lífsglaða skap kemur henni í bobba áður en líður á löngu.

Mér finnst þetta yndisleg mynd og skemmti mér alltaf konunglega yfir henni. Ég sá upprunalegu myndina einu sinni (gerð 1988, söngleikurinn sem var settur upp var byggður á henni) og þessi er hundrað sinnum betri. Það gæti verið út af því að þessi gamla var mjög gróf í rasismanum og bara dekkri öll. Nýja hins vegar er full af björtum litum og góðum boðskap sem að fyrirfinnst ekki í þeirri gömlu. Aðalboðskapurinn er að vara maður sjálfur og taka ekki mark á þeim sem vilja berja mann niður. Þarna er líka tekið á því mikla kynþáttarhatri sem var að breytast en margir voru hræddir við. John Travolta er þarna í dragi og gerir það nokkuð vel fyrir utan að þegar hann syngur heyrir maður í Danny Zuko en ekki konu. Hann og Christopher Walken leika foreldra Tracy og eru snilldarpar. Það kom mér rosalega á óvart hvað Christopher Walken getur verið skemmtilegur karakter og fyndin, hef eiginlega bara séð hann í alvarlegum myndum eða sem einhvern glæpon.

Tónlistin í Hairspray er algjörlega í réttum tíðaranda eins konar rokk/blús og algjörleg danstónlist. Dansatriðin eru líka rosalega flott sérstaklega þau sem Seaweed dansar eru ótrúleg, ég fer alltaf ósjálfrátt að dilla mér með. Gerði það meðal annars í bíó ekki við góðar undirtektir samferðamanna minna.

Hairspray er nokkuð kjánaleg á stundum en þetta er mynd sem maður á ekki að horfa á með gagnrýnu auga heldur leyfa bara augunum og eyrunum að njóta og heilanum að slaka á. Sem ég hugsa að sé tilgangur myndarinnar.

Trailerinn: http://www.youtube.com/watch?v=A9MgeFFjHlk

Mamma Mia (2008)

Nýrri myndin af þessum tveimur. Hún gerist á tæpum tveimur dögum á Grikklandi. Sophie er að fara að gifta sig og vill endilega að pabbi sinn muni leiða sig að altarinu. En vandamálið er að Donna mamma hennar hefur aldrei sagt henni meira en að pabbi hennar hafi verið farin úr landi áður en hún vissi að hún væri ólétt af Sophie. En Sophie finnur dagbók mömmu sinnar frá árinu sem hún kom undir og les hana. Þar finnur hún út að hún á þrjá mögulega feður. Hún ákveður að bjóða þeim öllum í brúðkaupið og heldur að hún muni þekkja raunverulega pabba sinn um leið og hún sér hann. Mamma hennar veit ekkert um þetta og verður að vonum mjög brugðið þegar allir birtast daginn fyrir brúðkaupið. Hluti af því af hverju Sophie vill finna pabba sinn er að henni finnst vanta hluta í sig. En feðurnir þrír vita ekkert og halda að Donna hafi boðið þeim í brúðkaup dóttur sinnar. Málin flækjast þegar þeir halda allir að þeir séu pabbar Sophie og vilja allir leiða hana upp að altarinu. Við þetta blandast lög ABBA snilldarlega.

Þessa mynda þarf reyndar aðeins að kæla, vinsældir hennar fóru aðeins fram úr sér og gerðu hana ekki eins spennandi. ABBA lögin hafa tekið þvílíkt kast og núna eru endurgefnir ABBA diskar og singstar leikir. Þegar ég fór á Mamma Mia á var þetta ekki orðið að þessu brjálæði sem það er í dag. Ég er alin upp í ABBA tónlist af mömmu minni þannig að fyrir mér var þetta bara skemmtilegri útgáfur af upprunalegu lögunum. Mér fannst líka sniðugt að þeim sem bjuggu til myndina að þeir fengu Benny Anderson og Björn Ulvaeus úr ABBA til þess að mixa tónlistina og útsetja upp á nýtt. Þeir sjást líka báðir í litlum atriðum í myndinni

Mér fannst þetta bara mjög svo skemmtileg mynd og svo yndislega kjánaleg. Í hvert skipti sem Pierce Brosnan opnaði munninn og byrjaði að syngja og dansa, í rauninni rembast þá sprakk salurinn og kjánahrollur fór um mann. Meryl Streep á samt í raunninni myndina, hún er snilldar leikona í öllu sem hún leikur og þarna leikur hún sjálfstæða hippamömmu og lítur frábærlega út þó svo að hún sé ekki unglamb. En ég er hlutPierce Brosnan samþykkti að taka þátt í Mamma Mia því að hún væri í henni, þá vissi hann ekki að þetta væri söngleikjamynd. Það gæti útskýrt frammistæðu hans í þeim atriðum. Þetta er algjör hippamynd og líkt og Hairspray ekki til þess að hugsa um eftir að myndin er búin, bara vera í góða skapinu sem hún skilur eftir sig.

Trailerinn: http://www.youtube.com/watch?v=FKx_14vJNZg


Samanburður

Þetta eru tvær mjög ólíkar myndir. Það er líklegast út af því að þær gerast á sitthvorum tímum. Þó svo að mér finnist Mamma Mia betri þá er Hairspray sniðugri til þess að horfa á núna vegna þess hvernig er búið að láta með hina. Þetta hefur farið svo mikið út í öfgar að hún er lítið spennandi. Báðar skilja þær lítið sem ekkert eftir sig nema bros á vör og söngl í höfðinu. Báðar eru einnig með frábæra leikara í flestum hornum. En spurningin er hvort maður vill sjá Danny Zuko syngja í dragi eða fyrrum James Bond rembast við að syngja og dansa?

Saturday, November 29, 2008

10 things I hate about you





10 things I hate about you var fyrsta dvd myndin sem ég keypti alveg sjálf. Hún hefur alla tíð verið ein af mínum uppáhalds „chick flick“ myndum og ég hugsa að ég kunni meirihlutann af henni utan af. Þetta er svona mynd sem það er alltaf hægt að horfa á og skilur lítið eftir sig.

Hún er gerð eftir Shakespeare leikritinu, Taming og the Shrew (á íslensku Skassið tamið), en ég hef einmitt lesið leikritið myndinni til samanburðar. Það hafa verið nokkuð margar myndir gerðar eftir leikritinu sem voru bæði staðfærðar og bein aðlögun. En basic sagan er um tvær systur, sú yngri er yndæl og sæt en hin frekar mikið skass og dónaleg. Sú yngri á sér tvo „biðla“ einn ríkan og heimskan en hinn fátækur en gáfaður kennari. En faðirinn (mamman er dáinn) vill ekki gifta þá yngri fyrr en sú eldri er gengin út, en sú eldri hefur engan áhuga á giftingu og fær hvort sem er enga biðla, vegna hegðunnar sinnar. En fátæki biðillinn fær þá hugmynd að láta þann ríka borga aðalsmanni sem stendur í skuldum, til þess að sýna þeirri eldri áhuga og giftast henni. Leikritið gerist á Ítalíu í Padua.

En myndin er nokkuð mikið staðfærð. Þetta er nútíma „high school“ mynd en skólinn heitir Padua high school, sem er bein tilvitnun í bæinn þar sem leikritið gerist í. Sagan er nokkuð svipuð; það eru tvær systur Kat (Julia Stiles) og Bianca. Kat er algjör feminísti og virðist hata allt og alla og vilja standa út úr hópnum. Bianca er eiginlega algjörlega andstæðan og aðal „töffari“ skólans, karlkyns módel langar að ver með henni. En pabbi þeirra hefði sett þær reglur að hvorug dóttirin mætti „deita stráka“. En eftir rifrildi systrana og pabbans ákveður pabbinn að Bianca megi fara á stefnúmót þegar Kat gerir það. Ennýr strákur í skólanum hefur það mikinn áhuga á Biöncu að hann fær þá snjöllu hugmynd að láta módelið borga einum „slæmasta“ stráki skólans fyrir að deita Kat svo að hann geti farið út með Biöncu. En Bianca hefur ekki gert upp hug sinn um hvoran hún vill. En Kat fer smám saman að hafa áhuga á stráki en finnst allt vera of gott til að vera satt.

Það eru nokkuð margar tilvitnanir í Shakespeare í myndinni bæði í Taming of the Shrew og fleiri leikrit og sonnettur. Það sem ég veit um eru;

  • Nafnið á skólanum, Padua.
  • Ættarnafið á systrunum, Stratford, er sama nafn og á fæðingarstað Shakespeare.
  • „Slæmi strákurinn“ (Heath Ledger) heitir Patrick Verona, karakterinn úr Taming of the Shrew sem samsvarar honum heitir Petruchio en sá er frá bæ í Ítalíu sem heitir Verona.
  • Það er bein tilvitnun á svipuðum stað og í leikritinu í myndinni, ein aðalpersónan segir „I burn, I pine, I perish“ um Biöncu.
  • Einu skólatímarnir sem sjást eru bókmenntir og í einum tímanum fer kennarinn með sonnettu 141 eftir Shakespeare og lætur nemendurna búa til sína eigin útgáfu af henni. En sonnettann fjallar um að elska einhvern sem þú hatar, en það er einmitt klemman sem Kat endar í gangvart Patricki.
  • Titillag myndarinnar „Cruel to be kind“ er lína úr Hamlet eftir Shakespeare.
  • Besta vinkona Kat er einnig með Shakespeare á heilanum og heldur að þau eigi í spiritual sambandi.

Í gegnum tíðina hafa verið gefnar út margar myndir byggðar á Shakespeare leikritum og ég hef séð nokkuð margar. Flestar hafa verið beinar aðlaganir af þeim bara settar í kvikmyndabúning, dæmi um það er Midsummer Night‘s Dream. En síðan hafa verið nýstárlegar myndir en samt með svipuðu sniði eins og Hamlet og síðan Romeo and Juliet sem er framtíðarsýn en með sömu samtölum og í upprunalega leikritinu. En það nýjasta er líklegast „chick flick“ útgáfan af leikritunum hans. Það eru til dæmis She‘s the man sem er gerð eftir Twelfth Night, O sem er gerð eftir Othello og Never Been Kissed sem er lauslega gerð eftir As you like it. Síðan er það náttúrulega ástarsagan mikla um Shakespeare sjálfan, Shakespeare in love, sem vann nokkur Óskarsverðlaun meðal annars fyrir bestur myndina. Þess má geta að Julia Stiles hefur leikið nokkuð mörgum svona myndum.

Hérna er linkur á official trailerinn: http://www.youtube.com/watch?v=urm5rfdD59o

Ég mæli með þessari mynd fyrir alla sem hafa áhuga á því að hlæja og skemmta sér yfir einu stelpumyndinni sem Heath Ledger lék í.


Thursday, November 27, 2008

Chinatown


Chinatown fjallar um einkaspæjarann Jake Gittes sem rannsakar framhjáhöld gifts fólks. Einn daginn kemur til hans kona sem segist vera frú Mulwray, hún biður hann um að komast af því hvort að maðurinn hennar sé að halda framhjá henni. Gittes gerir það sem hann er bestur í og tekur myndir af manninum hennar og ungri stúlku. En maðurinn hennar, Hr. Mulwray er eigandi einhverskonar vatnsfyrirtækis. Myndirnar sem hann tók, poppa upp í dagblaði stuttu seinna og nokkuð fjölmiðlafár verður útaf framhjáhaldinu. En þá kemur önnur kona á skrifstofuna sem segist vera hin raunverulega frú Mulwray og ætlar að kæra hann. En þá finnst Hr. Mulwray látinn og Gittes dregst inní hringiðu af ýmsum atburðum til dæmis svikum, prettum, spillingu og sifjaspelli sem tengjast allt vatnsfyrirtækinu.

Jack Nicholson er nokkuð frábær í hlutverki Gittes. Hann er með hrokafullt fas og algjörlega viss um sig í byrjun. Hann er bara að vinna vinnununa sína í byrjun og virðist njóta hennar á einhvern pínu sick hátt; virðist hafa gaman að því að góma fólk að halda framhjá. En í máli frú Mulwray virðist hann sogast inn og verða aðeins of nálægur málinu, sem er eitthvað sem er nokkuð vitað að einkaspæjarar ættu ekki að gera. Hann er alltaf fínn í tauginu og nokkuð kaldlyndur. Tók eftir því að hann var oftast í grálituðum jakkafötum. Það sem mér fannst nokkuð flott var hvernig það var alltaf eins örið á nefinu á honum var alltaf eins í öllum senum.

Myndin var á köflum og lang oftast fyrir utan garðsenurnar, í jarðarlitum. Brúnt, beige og grátt var alls ráðandi í litum á öllu. Það gæti reyndar verið orsakað af tímabilinu sem hún gerist á, svona voru fötin á litin. En mér fannst þeir gefa myndinni svolítið krimmalegt yfirbragð og hún var öll dökk sem gerði allt svona frekar mysterious. Tónlistin var líka svolítið spes, píanóið sem heyrðist í senunni í Chinatown gaf í skyn að eitthvað mjög spennandi væri vændum.

Ég hef oft heyrt minnst á Roman Polanski en aldrei séð mynd eftir hann. Þó svo að þetta sé mjög svo góð mynd var hún ekki fyrir mig. Mér fannst hún aðeins of langdregin og skuggaleg og ég hef aldrei verið hrifin af krimmum. Hún var aðeins of dökk fyrir minn smekk en Jack Nicholson algjörlega bjargaði myndinni að mínu mati. En sifjaspellið, þegar það kemur í ljós hver stúlkan sem var mynduð með Hr. Mulwray var í raun og veru var aðeins of mikið sápuóperulegt og svolítið úr takt við myndina að mínu mati.

Tuesday, November 25, 2008

Handritaverkefni - The Rocky Horror Picture Show


Ég ákvað að horfa á eina af mínum uppáhaldsmyndum í handritaverkefninu. Þar sem ég hef séð Rocky Horror nokkuð oft þá ákvað ég að það væri nokkuð sniðugt að lesa handritið af mynd sem ég kann nokkuð vel.

Rocky Horror kom út í bíó 1975, hún var fyrst sett upp sem söngleikur eftir Richard O‘Brian. En Jim Sharman leikstýrði myndinni og skrifaði handritið ásamt Richard O'Brian. En Richard O‘Brian leikur einmitt eitt af aðalhlutverkunum. Rocky Horror hefur lengi verið „cult“ mynd og hún hefur lifað lengi og vel og mun líklegast gera það enn. Hún fjallar í grófum dráttum um Brad og Janet sem ætla að gifta sig. Þau leggja af stað til vinar síns og fyrrverandi prófesssor Doctor Everett Scott til þess að segja honum tíðindin, en hann var einmitt sá sem kynnti þau. En á leiðinni springur dekkið á bílnum þeirra og þau neyðast til þess að leita aðstoðar í skuggalegum kastala. En fólkið sem býr í kastalanum er ekki það sem hægt er að „venjulegt“ og líf þessara venjulegu krakka mun verða breytt fyrir lífsstíð.

Þetta var allt önnur upplifun á myndinni en ég hef fengið áður. Fyrsta sem ég tók eftir var að þegar ég las handritið var að byrjunin er skrifuð öðruvísi. Hún er flottari, í staðinn fyrir varirnar sem eru sýndar í byrjun, þá átti að sýna klippur úr myndunum sem textinn quoatar í. En það gæti hafa orðið vesen. Síðan eru varirnar reyndar hluti af „cult“ hluta myndarinnar. Þær hafa verið taldar vörumerki myndarinnnar, eitt af aðal einkennunum. Það var lítið um að heilum atriðum væri breytt algjörlega eða sleppt. Það var minnir mig bara eitt atriði sem var sleppt algjörlega en það var klippt út seinna. Það var í rauninni bara eitt lag sem passaði ekki alveg beint inn í myndina né handritið.

Það sem ég komst að var hve mörg smáatriði voru skráð inn. Smáatriði sem komu ekki einu sinni fram í myndinni, sem voru meira svona eitthvað sem áhorfandinn þarf að gera sér grein fyrir sjálfur. Það var líka áhugavert hvernig dansatriðin voru skrifuð inn í handritið. Þau voru að mestu leyti alveg ákveðin en síðan var eins og þau hefðu verið endurbætt af danshöfundum. Það er greinilegt að sá sem skrifar handritið má ekki ákveða algjörlega í huganum hvernig þetta á að fara, því að útkoman veður líklega aldrei eins og upprunalega handritið. Það var gaman að lesa þróunina á þessu og aftast í handritinu sem ég var með voru skýringar á sumum breytinganna.

Það sem kom mér á óvart var hvað það var mikið skráð af smáatriðum, mörg af þeim sem skiptu litlu sem engu máli fyrir myndina en samt höfðu sinn sjarma. Þó svo að ég hafi hlustað mörgum sinnum á lögin úr Rocky Horror og horft oft á myndina þá tók ég í fyrsta skipti eftir því hvað textasmíðin í lögunum hans Richards O‘Brians er æðisleg. Þarna eru setningar sem ég hafði alveg heyrt en ekki pælt í, þetta kemur allt fram í smáatriðunum sem fylgja lögunum. Svona eins og í einu sem er verið að syngja um eina persónuna þá eru sýndar myndir úr myndaalbúmi, ég hafði bara aldrei pælt í því að myndaralbúmið væri nákvæmlega eftir textanum.

Þetta var mjög skemmtilegt verkefni og ef ég hef tíma þá væri ég til í að lesa fleiri handrit af myndum sem mér þykja skemmtilegar, upplifunin verður svo allt önnur og betri. Myndin opnast algjörlega fyrir manni.