The House Bunny
Eins og dyggum áhugamanni um stelpumyndir þá skellti ég mér á The House Bunny. Hún fjallar um Shelley 27 ára Playboy kanínu. Á afmælisdeginum hennar sendir Hugh Hefner (sem kemur sjálfur fram í myndinni) henni bréf og segir að hún sé orðin of gömul til þess að vera kanína og rekur hana burt frá setrinu. Hún verður því að fá sér alvöru vinnu í fyrsta skipti á ævinni. Hún verður “húsmóðir” hjá frekar misheppnðum stelpum sem búa í niðurníddu húsi í grísku röðinni í amerískum háskóla. Þær eru á leiðinni að missa húsið sitt ef þær fá ekki fleiri beiðnir um að koma inn í húsið. (Svolítið Revenge of the Nerds fílingur í þessu). En Shelley ákveður að hjálpa þeim að verða vinsælli. Um leið hjálpa þær henna að verða betri manneskja.
Þetta er hin venjulega ameríska háskóla grískra raða saga. Hús sem er í hættu á að vera lokað vegna óvinsælda. Þá kemur einhver þangað sem hjálpar því að komast á réttan kjöl. Síðasta dæmið sem ég man eftir að hafa séð er myndin She’s the man, þar sem söguþráðurinn er nánast sá sami og í The house bunny fyrir utan að þar er stelpa að hjálpa svona frekar misheppnuðum strákum.
Gríska kerfið þarna úti gengur greinilega mikið út á vinsældir og er það efni í margar svona “teen” bíómyndir. Þetta er líklegast efni sem mun aldrei verða óvinsælt og ekki verða hætt að fjalla um það í nánustu framtíð. Ég get svona rétt ímyndað mér það sé draumur margra ungra áhorfenda vestanhafs að þegar þeir fari í háskóla geti þeir komist inn í vinsælt bræðra- eða systralag. Í sumum svona myndum eins og til dæmis Skulls myndunum þá er bræðralagið gert að einhverju mysterious og spennandi, einhverju sem fólk vill geta orðið hluti af.
Ég horfði einu sinni á aukaefnið sem fylgdi myndinni Legally Blonde, en þessi mynd er einmitt eftir sama höfund. Þar kom fram tækni sem framleiðendur svona mynda nota og ég tók eftir þessu í The house bunny. Þar er notað bleikt ljós, sem er látið skína á aðalpersónuna til að gefa henni viðkunnanlegan blæ. Þannig virðist hárið á henni enn þá ljósara og allt virðist sætt og ánægjulegt. Ég tók líka eftir að í flest öllum senum sást í eitthvað bleikt hvort sem það var föt eða hlutir. Þessi tækni er víst oft notuð og það gæti verið ein skýringin á því hvers vegna svona myndir eru eins vinsælar og þær eru. Áhorfandanum finnst þær viðkunnalegar útaf því að bleiki liturinn róar taugarnar og þetta eru myndir sem þarf ekki mikið að pæla í.
Myndin var mjög fyndin og skemmtileg en skildi alls ekkert eftir sig. Fyrri hlutinn var mikið betri en sá seinni. Það var svoldið eins og höfundarnir væru að skella öllum bröndurunum í fyrri hlutann og létu síðan allt það alvarlega koma fram í þeim seinni. Í hléinu var ég komin með illt í magann ég hló svo mikið eins og allir í salnum líka. Þar kom aðalpersónan Shelley með alla ljóskubrandarana sína og vitleysishátt. En í seinni hlutanum þá var stöku ha ha sem heyrðist. Því að þá var hún að læra að verða „gáfaðari“ til þess að heilla draumaprinsinn (Colin Hanks). Boðskapurinn (ef það var einhver) var sá að þó svo að þú getir aflað þér vinsældum með góðu útliti þá er alltaf best að vera trúr sjálfum sér. Eitt af því skemmtilega í myndinni var að fylgjast með Hugh Hefner að leika, sem að kom ekki vel út en það var hins vegar mjög fyndið. Þegar ég labbaði útúr bíóinu þá var bros á andlitinu og ég hugsaði lítið sem ekkert um það sem hafði gerst í myndini. Þetta er ágætis mynd til þess að horfa á og gleyma áhyggjunum í gervi Hollywood.
Að lokum er skemmtilegt gullkorn sem Shelly lét út úr sér (í fyrri hlutanum):
Shelley: The eyes are the nipples of the face.
Official síðan fyrir áhugasama : http://www.thehousebunny.com/