Saturday, February 28, 2009
Sånger från andra våningen
Þar sem ég fattaði ekki alveg þessa mynd þá ákvað ég slá henni upp í google og sá þar að þetta er ljóða mynd með svartan húmor. Það hjálpaði ekki mikið til við skilninginn minn á henni en þá gat ég samt betur gert mér grein fyrir því hver ætlunin með hana var. En hins vegar þá fattaði ég að myndin er byggð upp og ljóð; það koma langar þagnir (svartur skjár í svoldinn tíma) og síðan passar tónlistin ekki alltaf innan í atriðin. Hún byrjar kannski í atriði sem hún passar ekki við en fer síðan inn í annað þar sem einhver er kannski að spila tónlistina. Eins og í atriðinu sem fer inn í atriðið þar sem sonur Kalle og kærastan hans eru að spila saman á blokkflautu. Tónlistin byrjaði í atriðinu á undan upp úr þurru og síðan var klippt yfir á þau að spila saman.
Mér fannst þetta vera nokkurs konar ádeila á kreppu og lifnaðarhátt manna. Myndin fjallar aðallega um Kalle, sem brenndi húsagagnaverslunina sína (til þess að fá tryggingarfé að því að mér skildist) hann á tvo syni annar þeirra missti vitið og er á geðveikrarspítala en hinn keyrir um á leigubíl og þreytist við að heyra í fólk röfla um vandamálin sín. Kalle fer síðan að sjá látinn vin sinn sem hann skuldaði pening og annað látið fólk þegar á líður á myndina.
Í myndinni er líka Pelle, einhverskonar auðjöfur eða aðstoðarmaður auðjöfurs. Samstarfsmaður eða félagi hans segir að þeir ætli að koma sér undan ástandinu.
Það koma ýmisskonar aukaperónur inn í myndina, stundum bara í stutta stund og síðan kemur bara ekkert meira fram um þær.
Gamli maðurinn í búrinu fannst mér vera hugsanlega ádeila á það að loka gamalt fólk inni og leyfa því ekki að hafa frelsi.
Síðan fannst mér það táknrænt þegar að sölumaðurinn með Jesú á krossinum, henti öllum krossunum á ruslahaugana og síðan þegar Kalle kom þá risu allir dauðu upp úr jörðinni og komu í átt að Kalle, eins og heimurinn væri að farast, það væri dómsdagur. Og fólkið sem gekk um göturnar lemjandi hvort annað með svipum væri í einhverskonar vítahrings píslagöngu.
Þegar litlu stelpunni er "fórnað" þá er spurning hvort um er að ræða fórn til þess að laga ástandið þar sem ýmiskonar fólk er samansafnað þegar það er gert.
Það sem mér fannst mjöf áhugavert var það hvað allir voru venjulega útlítandi í þessari mynd, ekkert var gert til þess að fegra raunveruleikann og eins og að jafnaði er gert, sérstaklega í Hollywood myndum. Kalle og Pelle voru mjög líkir útlitslega fannst mér, báðir feitir og gráhærðir og það tók mig smá tíma að sjá muninn.
Ég get bara ekki skrifað mikið meira um þessa mynd nema það að hún ruglaði mig í ríminu en hún var samt nokkuð skemmtileg þrátt fyrir það.
He's just not that into you
Myndin fjallar að mestu leyti um Gigi, frá fimm ára aldri hefur henni verið sagt af öðrum konum að þegar að þegar strákur kemur illa fram við hana þá þýði það að þeir séu hrifnir af henni. Í byrjun myndarinnar þá er Gigi orðin fullorðin og á að baki mörg misheppnuð ástarsambönd. Hún virðist alltaf hafa misskilið gerðir þeirra og/eða stalkað þá þangað til að lokum hún hefur gefist upp (hún hafði haldið að allt hafi gengið vel og framtíðin sé björt). Vinkona hennar, Janine kemur henni á blint deit með Conor og það er í rauninni upphafið af myndinni. Allt gengur vel og þau ná vel saman. Þess vegna skilur Gigi ekki hvers vegna hann hringir ekki í hana aftur. Hún og vinkonur hennar Janine og Beth analysera deitið í þaula og eru vissar um að hann muni hringja og búa til allsskonar mögulegar útskýringar á því af hverju hann hafi ekki hringt (eins og konum er tamt að gera). Dæmi um svona útskýringar eru; hann er útúr bænum, hann týndi símanúmerinu hennar, einhver ættingi veiktist eða dó. Og síðan koma alltaf “vinkona/frænka vinkonu minnar lenti í alveg eins aðstæðum og hann hringdi ekki í 6 vikur en í dag eru þau hamingjusamlega gift”. Gigi gefst ekki upp frekar en venjulega, þar sem hún er viss um að hann sé hrifin af sér (allar vinkonurnar segja það) og fer á bar sem að Conor sagðist gjarnan fara á. Conor er ekki þar en vinur hans Alex tekur eftir Gigi og spyr hvað hún sé að gera. Eftir að hún útskýrir að deitið hafi gengið svo vel og að hún vilji bara hitta Conor aftur en hann hafi ekki hringt. Þá útskýrir Alex fyrir henni hugarheim karla og segir að ef hann hefði viljað hitta hana aftur þá hefði hann hringt og fundið út leið til að hitta hana þó svo að eitthvað hefði komið upp á. Frá þessu augnabliki fer Alex að útskýra fyrir Gigi hugarheim karla og hvernig þeir líta á sambönd. Hann segir henni frá “reglum þeirra” en að það séu undantekningar á reglunum en þær séu fágætar.
Inn í sögu Gigi blandast síðan aðrar aukapersónur þar sem líka er tekið á samskiptum kynjanna. Fyrst er það vinkona Gigi, Janine, hún er gift Ben. Þau hafa verið lengi saman og eru að flytja inn í nýtt hús. En Ben rekst á Önnu (Scarlett Hohanson) í súpermarkaði og dregst strax að henni.
Conor hefur lengi hins vegar verið ástfanginn af Önnu en hún lýtur á hann sem vin og það aftrar honum í að komast í samband við einhverja aðra konu (þess vegna hringir hann ekki í Gigi eftir deitið.
Síðan er það Beth (Jennifer Aniston) og Neil (Ben Affleck). Þau eru búin að vera saman í 7 ár og Beth finnst að næsta skrefið þeirra ætti að vera gifting en Neil finnst hjónaband vera rugl og sýndarmennska og eiga ekkert skilið við ástina.
Að lokum er það Mary (Drew Barrimore) sem deitar menn á netinu þar sem henni finnst það ver auðveldast.
Allar þessar sögur eru skilst mér byggðar á því sem kemur fram í bókinni. En bókin var skrifuð að einum höfunda Sex and the city. Þetta er nokkurs konar sjálfshjálparbók kvenna í því að skilja hvernig samskipti karla og kvenna virka. Þær hafa alltaf verið að lesa í einhver “tákn” og ættu að hætta því og taka bara raunveruleikanum.
Þetta er rómantísk gamanmynd og er algjörlega byggð upp þannig. Hún endar vel hjá sumum af þessum persónum en ekki öllum, eins og er alltaf best. Því þá fer áhorfandinn út í góðu skapi og með von í hjarta fyrir þá sem myndin endaði ekki svo vel fyrir. Fyrir hlé þá er myndin rosalega fyndin og brandararnir koma hver af öðrum en eftir hlé þá þá er þetta í rauninni bara rómantík. Ég get tekið dæmi um að strákur sem sat fyrir framan okkur, hló mesta allan tíman fyrir hlé en sofnaði eftir hlé. Það sem mér fannst hvað asnalegast var að þessi mynd er gerð fyrir konur til þess að díla við klisjur, sambönd og “sannleikann” og koma þeim niður á jörðina en samt sem áður endar mikill hluti hennar klisjulega, þ.e. einhverjar af þessum konum eru “undantekningar”.
Þetta er frábær mynd í alla staði og alltaf mjög bjart yfir henni. Litirnir (fötin og bakgrunnurinn) eru mjög ljós tónaðir og slakandi og mikið um bleika, fjólubláa, bláa og rauða tóna til þess (að ég held) að skapa rómantísk undirlag. Það komu líka inn á milli viðtöl við fólk um samskipti sem lét myndina svolítið vera eins og heimildamynd um samskipti. Eitt flottasta atriðið fannst mér vera upphafsatriðið þar sem sýndar eru ýmiss konar konur frá öllum löndum að segja hvor annarri að “hann muni hringja”. Þetta er ein af þeim myndum sem maður getur ekki varist því að koma skælbrosandi og í glöðu skapi út af. Get ekki sagt að mér hafi fundist hún fræðandi (sem að bókin líklegast er, allavega er hún ein sú mest keypta af konum) en hún hafði fullkomið skemmtunargildi og hún var stútfull af góðum leikurum (m.a. Kris Kristofferson). Ég myndi mæla með henni fyrir alla sem hafa gaman af rómantískum gamanmyndum.
Friday, February 27, 2009
Hôrudo appu daun
Myndin byrjar á því að tveir menn eru að keyra í bíl, þeir tala ekki saman fyrstu mínúturnar og keyra m.a. framhjá bílslysi. Þeir stoppa og fara í jólasveinabúninga og halda síðan inn í nærliggjandi banka. Þeir eru að fremja rán og á meðan annar heldur byssu upp að öllum í bankanum nær hinn í peningana. En sá sem heldur á byssunni mætir þau augum eins viðskiptavinarins, konu og greinilegt er að hann er að sjá „konuna í lífi sínu“. En þeir halda út úr bankanum en þá er verið að draga bílinn þeirra í burtu og þeir hlaupa í átt að neðanjarðarlestunum. Þar ætla þeir að skella peningunum í skáp til þess að sækja seinna (en þeir eru mjög áberandi í jólasveinaklæðunum sínum). En upp kemur vandamál þar sem þeir eru ekki með skiptimynt til þess að borga fyrir leiguna á skápnum, þá heyra þeir í trúbador að spila á gítar. Þeir fara til hans (hann er greinilega heimilislaus og eitthvað öðruvísi en fólk er flest) og spyrja hvort hann geti skipt seðli, hann brosir og sýnir þeim ofan í gítartöskuna þar sem fáir aurar eru. Þeir taka aurana og hlaupa í burtu og setja klink í skápinn og loka peninganna inni. Trúbadorinn hleypur þá að þeim og kallar á þá, þeir flýja hann og hlaupa inn í næstu lest en missa lykilinn áður og þegar lestarhurðin lokast þá stendur trúbadorinn með skápalykilinn í höndunum.
Þarna fer af stað svakalega atburðarrás sem erfitt er að útskýra nema með því að rekja söguna af mestu leyti. Þá koma við sögu lögreglumenn sem keyra óvart á trúbadorinn þegar hann hefur gert sér grein fyrir því hvað sé í skápnum sem lykillinn gengur að. Þeir halda að þeir hafi drepið hann og ætla að losa sig við líkið. Þá lenda þeir í árekstri við eftirlýstan glæpamann og „líkið“ flýgur út um gluggann og lendir út á vatni. Við vatnið er prestur (sem hafði óvart kveikt í kirkjunni sinni) í þann mund að fremja sjálfsmorð þegar hann sér trúbadorinn fljóta eftir vatninu, hann hleypur út í vatnið og dregur manninn upp á land. Þá heldur hann að þetta sé Jesús Kristur (þar sem hann er í rifnum fötum, með sítt hár og skegg). Hann heldur að þetta sé leið Guðs til þess að bæta fyrir bruna kirkjunnar. Hann fer því af stað í einhvers konar endurlausnar ferð til þess að bjarga Jesúsi. Það sem gerist eftir það er í rauninni tilviljanir og hluti af einhvers konar plani.
Frá þessu atviki fer af stað mjög svört kómísk atburðarrás sem meikar ekki sens nema að sá sem er að horfa, fylgist vel með og taki eftir því sem gerist. Mér fannst eins og það færi af stað einhvers konar dómínó áhrif. Sá sem hefur skrifað þessa mynd hefur verið með mjög frjótt ímyndunarafl og ekki verið hræddur við að gera það sem honum dettur í hug. En mér fannst myndin mjög skemmtileg og í rauninni nokkuð spennandi fyrsta klukkutímann en síðan þegar presturinn fer með trúbadorinn í hótelið til þess að bræða hann þá missti ég gjörsamlega skilninginn á þessari mynd. Allt í einu voru allir komnir á hótelið og síðan byrjuðu þeir að slást. Síðan skildi ég ekki alveg hvað allt fólkið var að gera á hótelinu, mér datt helst í hug að einhverskonar leikþáttur hafi verið í gangi (svona eins og þegar fólk dressar sig sérstaklega upp eins og fyrir veislu og síðan er framið „morð“ og einhver er morðinginn og hinir þurfa að finna út úr því, nema þarna var kannski ekki framið morð heldur var verið að búa til draugagang eða eitthvað). Kannski fær presturinn líka bara ofskynjanir á meðan hann er viðstaddur þessa „veislu“ og fyrst hann er að drekka í fyrsta skipti.
Mér fannst þetta frábær mynd sem hafði mjög gott skemmtanagildi og ég get vel mælt með henni þó svo að seinustu mínúturnar meiki lítið sens fyrir mér þá var fyrsti klukkutíminn svo fyndinn að hann yfirgnæfir hitt. Það var líka mjög svo skemmtilega sett inn fyndna hluti sem skiptu litlu sem engu máli fyrir myndina nema fyrir þá persónurnar, eins og til dæmis það að konan úr bankanum/lögreglukonan hafði líka rosalega áhuga á lestum og þess vegna fellur hún fyrir öðrum ræningjanum og hjálpar þeim.
Thursday, February 26, 2009
Idi i smotri
Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég væri í þann mund að horfa á þegar ég skellti Idi i smotri í tækið, ég vissi að þetta væri rússnesk stríðsmynd en ekkert meira. Þannig að ég var ekki undirbúin fyrir það sem var í væntum.
Myndin fjallar um Florya (Florian, misjafnt hvernig það var þýtt) ungan rússneskan strák, ég gat ekki alveg gert mér grein fyrir því hvað hann væri gamall, hann gæti a. Í byrjun myndarinnar er hann og vinur hans að leita að vopnum, mér fannst eins og það hefði verið ástæða fyrir því, Florya vildi fá byssu til þess að vera með “þeim”. Þarna er einhver gamall maður að var þá við. Þarna er einhver gamall maður (sem kemur síðan aftur fram í myndinni) að vara þá við og herflugvél flýgur yfir. Florya finnur stórann riffil og tekur hann með heim. Mamma hans verður brjáluð og segir honum og núna muni þau öll deyja.
Síðan koma tveir hermenn heim til þeirra og eru nokkuð dónalegir, Floria fer með þeim og mamma hans verður móðursjúk. Þeira taka Florya með sér og hann virðist ánægður með það. Hann fer með þeim að herbúðum en þegar það kemur að því að fara þá skilja þeir hann eftir hjá konunum í búðunum. Þar er stelpa, Glasha þau ná “saman” sem vinir þegar bæði eru grátandi í skóginum, hann vegna þess að hann var skilinn eftir og hún að því mér best skildist útaf Kossach (einhverskonar herforingja hópsins). En stuttu eftir flýgur herflugvélin (sem sást þegar strákarnir voru að leita af byssunum) yfir og stuttu síðar byrjar sprengju - skothríð sem eyðileggur allt í kring þar á meðal búðirnar.
Það er eins og þá missi Florya heyrnina og einnig vitið. Þá kemur kafli í myndinni þar sem ekkert er talað og hann og Glasha eru bara að lifa af skógnum. Hann fer með hana heim til þess að koma þeim í skjól en þar er enginn. Glasha gerir sér grein fyrir því að búið sé að drepa alla en það er eins Florya vilji ekki trúa því, hann er viss um að hann viti hvar fjölskyldan sín og allir eru og leiðir hana áfram, yfir mýri þar bæði eru næstum drukknuð. Hún sér hins vegar líka allra fyrir aftan húsið en segir honum það ekki fyrr en þau eru komin yfir mýri útá eyju, þar sem Florya heldur að allir séu. Þegar hún segir honum að þau séu öll látin þá brjálast hann og hrindir henni aftur út í mýrina. Þá kemur að hermaður sem hjálpar þeim og tekur þau með sér þar sem fólk úr bænum hefur safnast saman og einnig nokkrir hermenn. Þar er mikil andúð gagnvart Hitler og allir hjálpast að við að búa til leirkall í líki Hitlers. Þrír menn og Florya fara með leir-Hitlerinn af stað og setja hann við vegarbrún, á leiðinni eru allir drepnir í sprengingumnema Florya sem kemst undan. Bóndi nokkur hjálpar honum en í þeim bæ taka nasistar akkúrat yfir og fremja fjöldarmorð. Florya kemst undan og hittir aftur rússnesku hermennina sem að drepa nastistanna. Myndin endar á því að Florya skítur mörgum skotum í mynd af Hitler og á sama tíma koma raunverulegar myndir af morðum/pyntingum nasista á Rússum.
Ég átti pínu erfitt með því að ná alltaf samhengi í myndinni, hún óð frá einu í annað og var ekkert mikið að útskýra hvað var að gerast. Mér fannst hún líka frekar ógeðfelld og átti þess vegna erfitt með að halda alltaf athyglinni. Ég líka náði aldrei hvort að Florya var heyrnarlaus, Glasha sagði það alltaf en síðan virtist Florya alveg skilja bóndann í hinum bænum. Mér fannst seinni helmingurinn þó aðeins betri þó svo að hann væri kannski nokkuð ógeðslegur á köflum. Líka það hvernig Florya verður brjálæðari í andlitinu eftir því sem líður á myndina virkarhræðandi fyrir framhaldið. Myndatakan var líka svoldið spes í fyrri hlutanum (eða þar fannst mér þetta meira áberandi), það var mikið um andlits zoom þar sem sýnd voru í nærmynd andlitin á fólki. Ég tók sérstaklega eftir þessu með andlitið á Glasha og þar var hún oft að opna meira augun til skiptis við eðlilega opnun. Mér fannst þetta gefa frekar geðsýkislegt yfirbragð svona strax og einnig þegar augað á kúnni sem deyr á túninu var sýnt í dauðatygjunum þá gat ég ekki horft. Hljóðið gaf myndinni líka nett ógeðslegan blæ og þá sérstaklega eftir sprenginguna í búðunum, þá verður hlóðið bælt (líklegast til þess að undirstrika það sem Florya heyrir). Síðan var Sálumessa Mozart (Requiem) spiluð í endan þar sem alvöru myndirnar úr stríðinu voru sýndar, þá fékk ég gæsahúð og tár í augun.
Þetta var mjög fræðandi mynd um það sem fór fram í Seinni heimstyrjöldinni í Rússlandi en ég vil samt ekki horfa á þessa mynd aftur, gæsahúðin og hryllingurinn sem ég fann flesta alla myndina haftrar því. Þetta er líka ekki mynd til þess að horfa á, einn heima.
Sunday, February 1, 2009
Le Renard et l'enfant.
Sú mynd sem ég fór að sjá á frönsku kvikmyndahátíðinni var Refurinn og barnið eða Le Renard et l'enfant. Ég vissi lítið um hana áður en ég fór í bíó annað en að hún væri eftir sama leikstjóra og gerði Ferðalag keisaramörgæsarinnar, Luc Jacquet.
Myndin byrjar á því að ung stelpa gengur niður stíg í mjög fallegu umhverfi, það er haustlegt og stór skógur nálægt. Hún tekur þá eftir ref og verður mjög heilluð af dýrinu, gleymir stund og stað og fer í átt að því. Refurinn hleypur ekki strax af stað heldur horfir líka á hana. Í stutta stund er eins og skilin milli manna og dýra séu ekki til staðar. En sú stund líður þegar stelpan ætlar að nálgast refinn og klappa honum, þá hleypur hann í burtu. Stelpan fær refinn á heilann og leitar og leitar af honum á hverjum degi, hún kallar hann refinn sinn og verður í rauninni með hann á heilanum. Hún labbar um allan skóginn og leitar að sporum í snjónum þegar veturinn er kominn. Hún fer marga hringi að elta sporin og endanum dettur hún og fótbrýtur sig. Hún eyðir öllum vetrinum inni hjá sér og hugsar alltaf um refinn sinn. Þegar sumarið kemur og hún getur hreyft sig fer hún strax útí skóg að leita að honum. Hún finnur hann og reynir að öllum mætti að nálgast hann. Það tekst að lokum eftir langa mæðu og uppfrá því hefst undarleg og ævintýraleg vinátta sem á eftir að breyta lifi hennar.
Í myndinni er sögumaður, stelpan þegar hún er orðin eldri og því er frásögnin frá hennar sjónarhorni og í fyrstu persónu en í þátíð. Þó að mestu leyti sé stelpan bara sýnd í leit sinni koma líka oft náttúrulífsmyndir að refnum í sínu eðli og náttúru. Refurinn er gerður nokkurn veginn af persónu en áherslan er samt alltaf að hann er dýr en ekki manneskja. Þetta er sagt vera barnamynd fyrir börn frá 6 ára aldri, en fullorðnir skilja hugsanlega tilganginn með henni betur.
Þó svo að manneskja og dýr geti orðið vinir í einhvern tíma, kemur alltaf fram frumeðli mannsins til þess að vera stjórnandi yfir dýrum. Stelpan og refurinn verða nokkrun veginn vinir og refurinn er nokkurn veginn eins og gæludýrið hennar. Refurinn leiðir alltaf nokkurn veginn leikinn þannig að hún eltir hann en á endanum vill hún stjórna leiknum og reynir m.a. að láta hann fara í feluleik í herberginu hennar með hræðilegum afleiðingum og setja á hann ól með bandi.
Þetta var frábær mynd, falleg og myndatakan æði. Fyrir barn væri þetta mynd um stelpu og ref sem verða vinir en þetta er í rauninni mynd sem sýnir fram á eðli mannsins og mun hans og dýra. Það var ótrúlegt að gera samsvarað sig 10 ára stelpu sem lifir í þvílíkum ævintýraheimi. Þetta er líklegast til dæmisögu ævintýramynd. Hún var líka á pörtum rosalega sorgleg og ekki hægt að halda tárunum aftur. Myndatakan var rosaleg þegar náttúrulífsmyndirnar voru teknir. Það var tekið niður í hreiður refsins og lífsbaráttan hans sýnd í nærmynd. Í raun voru líka notaðir sirka 10 refir í hlutverk refsins. Myndin gerist á einhverjum fallegasta stað sem til er. Stórt skóglendi, fossar, ár og sveitarlegt umhverfi.
Stelpan sem leikur "barnið" er órtúlega krúttleg og einlæg í leik sínum.
Ég sá líka einhverstaðar á netinu að myndin er byggð á svipaðri reynslu leikstjórans.
Frábær mynd sem fæstir mega sleppa að sjá.