Wednesday, September 24, 2008

Topp 10 listinn númer 6-10

Hérna er seinni hlutinn af Topp 10 listanum mínum, sá fyrri þarfnast svolítillar lagfæringar þannig að ég ákvað að skella bara seinni inn samt sem áður. Get samt ekki sagt að ég hafi getað gert Topp 10 lista þar sem að margar af mínum uppáhaldsmyndum komust ekki fyrir.

Italiensk for Begyndere (2000)

Dönsk dogma mynd sem segir frá sex ólíkum manneskjum í smábæ í Danmörku sem eru öll saman á ítölskunámskeiði. Námskeiðið hefur áhrif á þau öll, mest þó á ástarlífið. Aðalpersónurnar eru ungur prestur, ekkill er fenginn til að leysa af trúlausum, þunglyndum presti bæjarins. Hann gistir á hóteli bæjarins, þar sem Jørgen vinnur. Jørgen er að nálgast það að verða miðaldra og er mjög einmana. Vinur hans Finn, algjör fótboltabulla vinnur á bar hótelsins, en Jørgen þarf að reka hann vegna ljóts tungumáls. Guila, ung ítölsk stelpa er aðstoðarmaður Finns, það eina sem hún óskar sér er eiginmaður. Síðan er Olympia, sem vinnur í bakarí og er með mjög lítið sjálfsálit og erfiðan, frekan pabba. Að lokum er það Karen, klippikona með mömmu sem er heróínsfíkill. Eitt af því sem heillaði mig við þessa mynd er kvikmyndatökustíllinn „dogma“. Vegna þess að myndavélin hreyfist alltaf smá, finnst áhorfandanum hann einhvern vegin vera hluti af myndinni, kemst svona meira inn í hana og atburðarrásina. Persónurnar sex eru nokkuð misheppnaðar en samt trúverðugar.

Trailer úr myndinni: http://www.youtube.com/watch?v=Oop_2jnl-sk

Life as a House (2001)

Kevin Kline leikur mann sem þjáist af ólæknandi krabbameini og þegar hann kemst að því ákveður hann að rífa niður húsið sitt (sem hann hafði ætlað að gera lengi) og endurbyggja eitthvað betra í þess stað. Hann neyðir pönkaðan unglingson sinn (Hayden Christensen) til þess að hjálpa sér um sumarið. Þeir byrja á því að rífa húsið og fara síðan að byrja á grunninum og byggja þannig upp samband sitt í leiðinni.. Þeir byggja síðan saman húsið alveg upp þó svo að nokkur ljón verði á veginum. Þetta er í senn saga um samband feðga og nokkurs konar þroskasaga. Kevin Kline er mjög trúverðugur í hlutverki veiks manns sem vill kynnast syni sínum áður en hann deyr. Hayden Christensen er persóna sem manni þykir vænna og vænna um eftir því sem á líður á myndina. Tónlistin í myndinni gerir hana enn þá betri, tónlistarsmiðurinn er Mark Isham og setur tónlistin mikinn svip á myndina, flestir aðalleikararnir hafa sín eigin stef, eða þá sameiginlegt stef með öðrum.

Stefið hjá persónu Haydens og Jenu Malone sem leikur „stelpuna í næsta húsi“ heitir Sunscreen and bicycles og er svona lag sem skilur eftir sig bros á vör, mjög stutt en flott. Hérna er linkur til að hlusta.

http://muzetunes.com/playback.asx?c=eINE38GcPQgqW9G7ivqZaB1mJsSVJte401VjfB0xpjs=&f=B

Pretty in Pink (1986)

Sagan sem aldrei verður of oft kveðin í bandarískum stelpu myndum. Stelpa frá „the wrong side of the tracks“ og ríkur strákur. Stelpan, Andie, býr hjá einstæðum föður en mamman hafði farið frá þeim þegar Andie var lítil og pabbinn orðið nokkurs konar iðjuleysingi við það. Andie er hins vegar sjálfstæð og er sama um hvað öðrum finnst. Besti vinur hennar Duckie (Jon Cryer úr Two and a Half man) styður hana í einu og öllu er brjálæðslega ástfanginn af henni. Andie vinnur í plötubúð til að geta haldi uppi bílnum sínum og lífi. Einn daginn kemur sætasti strákur skólans þangað og neistarnir fljúga, þau byrja að deita en lenda í ýmsum leiðindum frá vinum sínum. James Spader leikur hinn ömurlega vinsælasta strák í skólanum en gerir það mjög vel. Þetta er ein af þeim myndum, sú seinasta af nokkrum sem Molly Ringwald lék í eftir John Hughes. Aðrar tvær sem þau gerðu sem eru Sixteen Candles (1984) og The Breakfast Club (1985), báðar frábærar myndir með svipað þema. Þetta er algjör stelpumynd og þar sem hún er nokkuð gömul fíla hana ekki margir. Fötin sem Andie klæðist eru til dæmis hræðileg, enda gerir hún margt sjálf og allt er bleikt. Kjóllinn sem hún býr sér til á lokaballinu er hræðilegur, búin til úr tveimur æðislegum kjólum sem allar stelpur dreymir um, en nei hún býr til sinn eigin kjól. Minnistætt atriði úr myndinni er Jon Cryer að syngja og dansa við Otis Redding:

http://www.youtube.com/watch?v=97H1dToqfxY

Twelfth Night: Or What You Will (1996)

Klassísk saga Shakespeares. Sagt er frá tvíburunum Violu og Sebastian sem lenda í skipskaða og aðskiljast. Þau halda bæði að hitt sé dáið og syrgja hvort annað. Viola lendir í ókunnugu landi og klæðir sig upp sem mann og kallar sig Cesario. Hún verður trúnaðar vinur og aðstoðarmaður Orsino hershöfðinga. Orsino sendir hana til Oliviu ungrar konu sem hann elskar, en málin fara ekki betur en að Olivia verður ástfangin af Cesario en Viola elskar Orsino. Málin flækjast enn þá meira þegar Sebastian kemur til eyjarinnar. Þetta er eitt enn snilldarverkið eftir Shakespeare, minn uppáhaldshöfund. Leikaraliðið er frábært, má nefna Ben Kingsley og Helenu Bonham Carter. Ben Kingsley slær í gegn sem einhvers konar trúður, söngvari og sögumaður. Hann er í aukahlutverki sem ekkert hægt er að komast hjá að taka eftir. Yndislegur farsi um blekkingar, ást, losta og misskilning. Fyrir þá sem vilja kannski nokkuð nýrri útgáfu af þessu leikriti þá er She‘s the man gerð eftir sögunni en síðri gerð að mínu mati.

Heimasíða myndarinnar: http://finelinefeatures.com/twelfth/

Notebook (2004)

Að baki stóru ástinni er stór ástarsaga. Ástarsaga Noah Calhoun og Allie Hamilton er hér sögð af eldri manni til eldri konu á elliheimili. Maðurinn kemur greinilega reglulega í heimsókn og les fyrir hana. Þau verða ástfangin um sumar en þau eru frá sitthvorum enda þjóðfélagsins. Þau skiljast að og ekkert gerist þeirra á milli í 7ár og lífið heldur áfram. En 7 árum seinna hittast þau aftur og gera upp sakirnar sín á milli. Eldri konan er minnislaus en sagan hristir til í minni hennar. Þetta er yndisleg mynd um ást sem endist að eilífu, ein af fáum skiptum sem ég veit um að myndin er betri en bókin. Ég las bókina fyrir nokkru síðan og get ekki sagt að hún sé eins góð, þar er meira einblínt á erfiðleikanna sem eldra fólkið á við á seinni hluta ævinnar í staðinn fyrir að í myndinni er ástarsagan sýnd alveg eins og hún er skrifuð í bókinni. Höfundurinn Nicholas Sparks skrifaði einnig A Walk to Remember (frumsýnd í bíó 2002), einnig um endurminningar manns um stóru ástina. Gena Rowlands finnst mér bera af leikaraliðinu sem Allie á eldri arum, mjög svo hrífandi.

Heimasíða myndarinnar: www.thenotebookmovie.com



1 comment:

Siggi Palli said...

Fín færsla. 8 stig.

Skemmtileg og óvænt blanda. Hlakka til að sjá 1-5.