Monday, September 29, 2008

Topp 10 listinn númer 1-5


Get ekki sagt að þetta sé í neinni sérstakri röð. Þetta er þær myndir sem ég get horft aftur og aftur á, án þess að fá leið á þeim. Koma bara í þeirri röð sem þær voru í skápnum hjá mér.

Le Fabuleux Destin d'Amélie Poulain (2001)

Frönsk mynd með Audrey Tautou í aðalhlutverki. Myndin fjallar um Amélie Poulain unga fremur sérstaka konu. Mamma hennar og pabbi sýna henni ekki mikla ástúð í æsku en halda að hún sé haldin hjartarsjúkdómi, vegna þess að þegar pabbi hennar var að hlusta á hjartsláttinn hjá henni, sló það svo hratt vegna snertingarinnar. Þegar Amélie eldist flyst hún til Parísar og vinnur þar sem þjónustu stúlka. Þegar hún finnur gamlan falinn „fjársjóð“ frá ungum dreng, finnur hann sem gamlan mann og eftir að hún sér viðbrögðin frá honum ákveður hún að helga líf sitt því að hjálpa öðru fólki. Þó svo að hún vilji bara hjálpa fara hlutirnar ekki alltaf vel. En í öllu þessu gleymir hún sjálfri sér og sínum þörfum. Hún fattar að hún er að eyðileggja leit sína að ást.

Hægt er að finna ýmsan boðskap í þessari mynd en sá helsti er líklegast að gleyma ekki sjálfum sér þó að maður vilji hjálpa öðrum. Myndin er bæði svart/hvít og í lit. Einnig virðist hluti vera tekinn upp á gamla filmu. Hún er líka í björtum glaðlegum litum sem lætur ákveðið ævintýra effect svífa yfir. Amélie er kannski ekki beint persóna sem áhorfandinn getur samsvarað sér alveg með en hún hefur sinn sjarma.

Mér finnst það mjög góður kostur að myndin sé öll á frönsku og útgáfan sem ég á er bara með dönskum texta þannig að ég þarf alltaf að leggja mig fram við að skilja. Tónlistin í myndinni er róandi og það er mikill valstaktur í lögunum. Mér finnst vera ákveðinn ævintýrabragur yfir henni þó svo að hún sé mjög raunveruleg. Margt sem Amélie gerir myndi fólki detta í hug en ekki dreyma um að framkvæma. Amélie er dularfull mynd sem þó skírist í annað eða þriðja skiptið sem horft er á hana.

Trailer: http://www.youtube.com/watch?v=sECzJY07oK4

The Rocky Horror Picture Show (1975)

Ungt nýtrúlofað par, Janet og Brad ákveða fara í ferðalag til að heimsækja gamla kennarann sinn, Dr. Everett Scott en þau kynntust í tímum hjá honum. Á leiðinni springur á bílnum þeirra þannig að þau neyðast til þess að leita sér hjálpar í mjög skuggalegum kastala. Í þessum kastala býr fólk sem að þetta saklausa par frá Denton vissi ekki að til væri. Þar lenda þau inní heimi losta, næturdýra og draumóra og spurningin er hvort þau eiga afturkvæmt inn í raunveruleikann.

Þetta er í raun grínsöngleikjarhryllingsmynd með brjálaðslegu ívafi. Það er sögumaður sem segir söguna, en hann er prófessor í afbrotum og segir handa útfrá vísindalegu sjónarhorni sínu, greinilega búinn að stúdera allt um það hvað gerist í þessum kastala.

Ég sá leikritið fyrst þegar ég var sirka 10 ára sett upp í fjölbrautarskóla, ég skildi ekki alveg samhengið en féll algjörlega fyrir tónlistinni. Síðan sá ég myndina nokkrum árum seinna og bara gat ekki annað en heillast af stílnum. Það er erfitt að útskýra hvað það er sem heillar við hana annað en bara allt. Tónlistin, settið, leikararnir... Hugsa að þetta sé nú ekki mynd fyrir alla, hún er frekar dónaleg og á köflum hálf ógeðfelld en það passar vel inn í þessu samhengi. Tim Curry sem vísindamaðurinn Frank ´N Further er uppáhalds kvikmyndapersónan mín fyrr og síðar. Ótrúlega margir aðdáendahópar eru til í kringum myndina. Í Ameríku er hægt að fara á sérstakar „miðnætursýningar“ þar sem fólk dressar sig upp í búninga úr myndinni og syngur og dansar með (hægt er að sjá dæmi um þetta í myndinn Fame).

Þetta er mynd sem fólk ætti að horfa á með opnum hug og hjarta og láta tónlistina flæða inn.

Opinbera aðdáenda síðan: http://www.rockyhorror.com/

Trailer: http://www.youtube.com/watch?v=hF32_bNZikg

Lord of the Rings

-The Fellowship of the Ring(2001)

-The Two Towers(2002)

-The Return of the King(2003)

Þríleikurinn Hringadróttinssaga. Bilbó Baggins finnur dularfullan töfrahring þegar hann er ungur hobbiti en 111 ára afmælinu sínu lætur hann sig hverfa og skilur hringinn eftir handra frænda sínum Fróða. Fróði kemst að með hjálp Gandalfs hins vitra að þetta er hringur sem Sauron bjó til. Sauron er eiginlega bara illskan. Hann náði næstum því að ná undir sig Miðgarð (heimurinn) fyrir mörgum öldum, með hjálp hringsins en missti síðan allt sitt. En með hjálp illra galdramanna, fólks og manna sem einhvern tíma hafa eignast hringinn er hann að ná aftur völdum. Tríólógían fylgist að með ferð Fróða til Mordors (ríki Saurons) til þess að eyða hringunum. Í föruneyti Fróða eru átta aðrar persónur; Sómi besti vinur hans og garyrkjumaður, tveir aðrir hobbitar Pippin og Merry, Gandalfur hin vitri, Gimli dvergur, Legolas álfur, Aragon sem er erfingi að krúnu (hann er afkomandi Ísildar sem sigraði Sauron) og Legolas álfur.

Þetta eru myndirnar sem komu kvikmyndaáhuga mínum af stað. Ég fékk The two towers í special edition í jólagjöf og eyddi í jólunum í að horfa á hana og aukaefnið. Að sjá hvernig þetta varð allt til og brellurnar var bara upplifun. Áður hafði ég bara einhvern vegin haldið að leikararnir og leikstjórinn væru aðal málið en þarna komst ég að öðru, allir höfðu sitt hlutverk og þau voru öll mikilvæg. Þetta eru einnig myndir sem enginn ætti að láta framhjá sér fara, þær eru frábærar í alla staði. Það er einnig gaman að sjá hvernig tæknibrellurnar verða mikilfenglegri með hverri myndinni.

Three Rings for the Elven-kings under the sky,

Seven for the Dwarf-lords in their halls of stone,

Nine for Mortal Men doomed to die,

One for the Dark Lord on his dark throne

In the Land of Mordor where the Shadows lie.

One Ring to rule them all, One Ring to find them,

One Ring to bring them all and in the darkness bind them

In the Land of Mordor where the Shadows lie.

Uppáhaldsatriðið mitt í öllum myndunum er í þeirri þriðju, þegar Pippin (Billy Boyd) singur Steward of Gondor, ég táraðist í bíó og geri ávallt þegar ég sé þetta atriði:

http://www.youtube.com/watch?v=5x8E7wacpCM

Smá upplýsingar um lagið, að þetta er gamalt kvæði eftir Tolkien en Billy Boyd samdi melódíuna daginn fyrir tökuna og enginn fékk að heyra það fyrr en í tökunni. Fran Walsh (kona Peter Jackson og ein af handritshöfundunum) heyrði hann fyrir tilviljun syngja drukkinn og skellti því söngnum inn.

Love Actually (2003)

Jólamynd um ástir fólks í Bretlandi. Þetta er í rauninni margar smámyndir sem tengjast á einhvern hátt. David (Hugh Grant) er nýr forsætisráðherra Bretlands. Hann verður hrifinn af Natalie, ráðskonu sinni fyrsta daginn. Systir Davids heitir Karen (Emma Thompson) hún er gift Harry (Alan Rickman) ritstjóra tímarits. Ritarinn hans Mia leynir ekki á áhuga sínum á honum og þetta er „middle-life crises“ í fæðingu. Á blaðinu vinnur Sara (Laura Linney) sem er búin að vera ástfanginn af Karl samstrafmanni sínum síðan fyrsta daginn í vinnunni. Karen er nokkurs miðpunktur allra persónanna. Hún er góð vinkona Jamies (Colin Firth) sem kom að kærustunni sinni í rúminu með bróður sínum. Hann fer til Frakklands að skrifa sína næstu skáldsögu en endar á því að falla fyrir húshjálpinni, en hvorugt skilur hitt vegna tungumála erfiðleika. Karen er einnig vinkona Daniels (Liam Neeson) sem er nýbúinn að missa konuna sína og í þvílíkri sorg en kemst síðan af því að tíu ára stjúpsonur hans er ástfanginn. Juliet (Keira Knightley) er nýgift en besti vinur brúðgumans er ástfanginn af henni síðan alltaf. Judy og John eru statistar fyrir erótíska kvikmynd þegar þau kynnast rétt fyrir jólin. Besti vinur leikstjórans heitir Colin, hann fer til Ameríku til þess að geta fengið „það“. Að lokum er það útbrunni skalla popparinn Billy Mack (Bill Nighy) sem er reynir að koma með „come back“ og stendur á tímamótum í lífi sínu.

Þessi kvikmynd er bara yndisleg, eina lýsingarorðið sem kemur upp í hugan. Þemað er ást og jól og það fara vel saman. Þetta er jólamyndin mín, hef horft á hana á hverjum jólum síðan hún kom út, jólahefðin mín. Eitt af því sem mér líkar vel við hana er að allir endarnir eru ekki fyrirsjáanlegir og flestir trúverðugir.

Skemmtilegt atriði úr myndinni, gott vandræðalegt móment hjá Hugh Grant.

http://www.youtube.com/watch?v=eBDEN5AFmWU

Trailer: http://www.youtube.com/watch?v=cYCkFTyADJ0

The English Patient (1996)

Myndin gerist á síðustu dögum seinni heimstyrjaldarinnar. Kanadísk hjúkka ákveður að vera eftir í niðurnýddu klaustri á Ítalíu og hjúkra dauðadæmdum brenndum flugmanni. Hann er minnislaus í byrjun en er með bók með sér, Heródótes sem er einskonar minningarbók. Vegna framburðar hans á ensku er hann kallaður „enski sjúklingurinn“. Eftir því sem líður á myndina koma fram minningarbrot hjá sjúklingnum, þ.e. eftir því sem hann man meira. Í þessum minningarbrotum kemur fram hins rétti uppruni.

Það er í raun ein saga inni í annarri í þessari mynd, fyrst þá er Hana, hjúkkan aðalpersónan en það hafa koma nokkur leifturskot af sjúklingnum. Þetta er átakanleg stríðsmynd með þó mikilli rómantík. Myndin hlaut Óskarsverðlaun meðal annars fyrir bestu mynd ársins. Ég fíla ekki oft svona myndir, hún mjög löng um tveir og hálfur tími og langdregin á köflum. En samt heldur hún áhorfandum alveg við með fegurð. Skemmtilegt er að sjá hvernig endurminningar sjúklingsins eru oft gulleitari en raunveruleikinn og ég tel að það geti tengst því að myndin gerist í Kairó, Egyptalandi og mikið í eyðimörkinni. Ég get mælt með þessari mynd fyrir flesta þá sem hafa gaman af virkilega góðum, vel leiknum og unnum myndum. Það eru stórleikarar sem leika í þessari mynd og má þar nefna; Ralph Fiennes, Kristin Scott Thomas, Willem Dafoe, Naveen Andrews, Colin Firth and Juliette Binoche.

Trailer: http://www.youtube.com/watch?v=gMXFtHaVscM

Wednesday, September 24, 2008

Topp 10 listinn númer 6-10

Hérna er seinni hlutinn af Topp 10 listanum mínum, sá fyrri þarfnast svolítillar lagfæringar þannig að ég ákvað að skella bara seinni inn samt sem áður. Get samt ekki sagt að ég hafi getað gert Topp 10 lista þar sem að margar af mínum uppáhaldsmyndum komust ekki fyrir.

Italiensk for Begyndere (2000)

Dönsk dogma mynd sem segir frá sex ólíkum manneskjum í smábæ í Danmörku sem eru öll saman á ítölskunámskeiði. Námskeiðið hefur áhrif á þau öll, mest þó á ástarlífið. Aðalpersónurnar eru ungur prestur, ekkill er fenginn til að leysa af trúlausum, þunglyndum presti bæjarins. Hann gistir á hóteli bæjarins, þar sem Jørgen vinnur. Jørgen er að nálgast það að verða miðaldra og er mjög einmana. Vinur hans Finn, algjör fótboltabulla vinnur á bar hótelsins, en Jørgen þarf að reka hann vegna ljóts tungumáls. Guila, ung ítölsk stelpa er aðstoðarmaður Finns, það eina sem hún óskar sér er eiginmaður. Síðan er Olympia, sem vinnur í bakarí og er með mjög lítið sjálfsálit og erfiðan, frekan pabba. Að lokum er það Karen, klippikona með mömmu sem er heróínsfíkill. Eitt af því sem heillaði mig við þessa mynd er kvikmyndatökustíllinn „dogma“. Vegna þess að myndavélin hreyfist alltaf smá, finnst áhorfandanum hann einhvern vegin vera hluti af myndinni, kemst svona meira inn í hana og atburðarrásina. Persónurnar sex eru nokkuð misheppnaðar en samt trúverðugar.

Trailer úr myndinni: http://www.youtube.com/watch?v=Oop_2jnl-sk

Life as a House (2001)

Kevin Kline leikur mann sem þjáist af ólæknandi krabbameini og þegar hann kemst að því ákveður hann að rífa niður húsið sitt (sem hann hafði ætlað að gera lengi) og endurbyggja eitthvað betra í þess stað. Hann neyðir pönkaðan unglingson sinn (Hayden Christensen) til þess að hjálpa sér um sumarið. Þeir byrja á því að rífa húsið og fara síðan að byrja á grunninum og byggja þannig upp samband sitt í leiðinni.. Þeir byggja síðan saman húsið alveg upp þó svo að nokkur ljón verði á veginum. Þetta er í senn saga um samband feðga og nokkurs konar þroskasaga. Kevin Kline er mjög trúverðugur í hlutverki veiks manns sem vill kynnast syni sínum áður en hann deyr. Hayden Christensen er persóna sem manni þykir vænna og vænna um eftir því sem á líður á myndina. Tónlistin í myndinni gerir hana enn þá betri, tónlistarsmiðurinn er Mark Isham og setur tónlistin mikinn svip á myndina, flestir aðalleikararnir hafa sín eigin stef, eða þá sameiginlegt stef með öðrum.

Stefið hjá persónu Haydens og Jenu Malone sem leikur „stelpuna í næsta húsi“ heitir Sunscreen and bicycles og er svona lag sem skilur eftir sig bros á vör, mjög stutt en flott. Hérna er linkur til að hlusta.

http://muzetunes.com/playback.asx?c=eINE38GcPQgqW9G7ivqZaB1mJsSVJte401VjfB0xpjs=&f=B

Pretty in Pink (1986)

Sagan sem aldrei verður of oft kveðin í bandarískum stelpu myndum. Stelpa frá „the wrong side of the tracks“ og ríkur strákur. Stelpan, Andie, býr hjá einstæðum föður en mamman hafði farið frá þeim þegar Andie var lítil og pabbinn orðið nokkurs konar iðjuleysingi við það. Andie er hins vegar sjálfstæð og er sama um hvað öðrum finnst. Besti vinur hennar Duckie (Jon Cryer úr Two and a Half man) styður hana í einu og öllu er brjálæðslega ástfanginn af henni. Andie vinnur í plötubúð til að geta haldi uppi bílnum sínum og lífi. Einn daginn kemur sætasti strákur skólans þangað og neistarnir fljúga, þau byrja að deita en lenda í ýmsum leiðindum frá vinum sínum. James Spader leikur hinn ömurlega vinsælasta strák í skólanum en gerir það mjög vel. Þetta er ein af þeim myndum, sú seinasta af nokkrum sem Molly Ringwald lék í eftir John Hughes. Aðrar tvær sem þau gerðu sem eru Sixteen Candles (1984) og The Breakfast Club (1985), báðar frábærar myndir með svipað þema. Þetta er algjör stelpumynd og þar sem hún er nokkuð gömul fíla hana ekki margir. Fötin sem Andie klæðist eru til dæmis hræðileg, enda gerir hún margt sjálf og allt er bleikt. Kjóllinn sem hún býr sér til á lokaballinu er hræðilegur, búin til úr tveimur æðislegum kjólum sem allar stelpur dreymir um, en nei hún býr til sinn eigin kjól. Minnistætt atriði úr myndinni er Jon Cryer að syngja og dansa við Otis Redding:

http://www.youtube.com/watch?v=97H1dToqfxY

Twelfth Night: Or What You Will (1996)

Klassísk saga Shakespeares. Sagt er frá tvíburunum Violu og Sebastian sem lenda í skipskaða og aðskiljast. Þau halda bæði að hitt sé dáið og syrgja hvort annað. Viola lendir í ókunnugu landi og klæðir sig upp sem mann og kallar sig Cesario. Hún verður trúnaðar vinur og aðstoðarmaður Orsino hershöfðinga. Orsino sendir hana til Oliviu ungrar konu sem hann elskar, en málin fara ekki betur en að Olivia verður ástfangin af Cesario en Viola elskar Orsino. Málin flækjast enn þá meira þegar Sebastian kemur til eyjarinnar. Þetta er eitt enn snilldarverkið eftir Shakespeare, minn uppáhaldshöfund. Leikaraliðið er frábært, má nefna Ben Kingsley og Helenu Bonham Carter. Ben Kingsley slær í gegn sem einhvers konar trúður, söngvari og sögumaður. Hann er í aukahlutverki sem ekkert hægt er að komast hjá að taka eftir. Yndislegur farsi um blekkingar, ást, losta og misskilning. Fyrir þá sem vilja kannski nokkuð nýrri útgáfu af þessu leikriti þá er She‘s the man gerð eftir sögunni en síðri gerð að mínu mati.

Heimasíða myndarinnar: http://finelinefeatures.com/twelfth/

Notebook (2004)

Að baki stóru ástinni er stór ástarsaga. Ástarsaga Noah Calhoun og Allie Hamilton er hér sögð af eldri manni til eldri konu á elliheimili. Maðurinn kemur greinilega reglulega í heimsókn og les fyrir hana. Þau verða ástfangin um sumar en þau eru frá sitthvorum enda þjóðfélagsins. Þau skiljast að og ekkert gerist þeirra á milli í 7ár og lífið heldur áfram. En 7 árum seinna hittast þau aftur og gera upp sakirnar sín á milli. Eldri konan er minnislaus en sagan hristir til í minni hennar. Þetta er yndisleg mynd um ást sem endist að eilífu, ein af fáum skiptum sem ég veit um að myndin er betri en bókin. Ég las bókina fyrir nokkru síðan og get ekki sagt að hún sé eins góð, þar er meira einblínt á erfiðleikanna sem eldra fólkið á við á seinni hluta ævinnar í staðinn fyrir að í myndinni er ástarsagan sýnd alveg eins og hún er skrifuð í bókinni. Höfundurinn Nicholas Sparks skrifaði einnig A Walk to Remember (frumsýnd í bíó 2002), einnig um endurminningar manns um stóru ástina. Gena Rowlands finnst mér bera af leikaraliðinu sem Allie á eldri arum, mjög svo hrífandi.

Heimasíða myndarinnar: www.thenotebookmovie.com